Farteski fullt af vonum
Við numum landið fyrst af öllum, en snérum svo aftur heim. Það var svo í leit eins manns að nýrri leið til Kína að landið sem við höfðum fundið fjögur hundruð árum á undan honum fannst. Það gerðist svo ekki fyrr en á nítjándu öld sem við, þjóðin í norðri, fengum aftur þá löngun að setjast að á svæðinu sem við höfðum yfirgefið fyrir átta hundruð árum. Þetta fólk sem ákvað að fara vestur yfir hafið með farteski fullt af vonum var kallað vesturfarar.
Í bók Böðvars Guðmundssonar, Híbýli vindanna er einmitt sagt frá einum vesturfara, honum Ólafi „fíólín“ Jenssyni. Þar er sagt frá foreldrum hans, uppvaxtarárunum hans, konunni hans og börnum og auðvitað förinni vestur um haf. Lýsing Böðvars á sögupersónum er mjög góð og það er sniðugt hvernig hann segir margar stuttar sögur út frá aðal sögunni til að auka dýpt frásagnarinnar. Hann tvinnar einnig bréf frá afkomanda Ólafs inn í sögunna af einstakri ritsnilld. Það sem er hægt að setja út á frásagnarháttinn væri einna helst það hvað það eru fá samtöl sem gerir sögunna svolítið fjarlægri. Í staðinn fyrir að gefa okkur beinar ræður með hnyttnum setningum gefur hann okkur óbeinar ræður sem vantar eilítið krydd í.
Sögunni er skipt í tvo
hluta, Eldgamla Ísafold og Nýja Ísland.
Í fyrri hlutanum, Eldgamla Ísafold er fjallað um Ólaf „fíólín“ og fjölskyldu hans á Íslandi og á ferðinni vestur um haf. Þar kynnumst við fordómunum og óréttlætinu sem fátækt fólk var beitt á Íslandi. Við fylgjum svo Ólafi og fleiri Íslendingum út í óvissuna á leið þeirra til Ameríku. Fyrri hlutinn er að stórum hluta eiginleg uppvaxtarsaga Ólafs „fíólíns“. Í seinni hlutanum, Nýja Ísland er fjallað um afdrif vesturfaranna eftir að þau koma til Ameríku. Mér fannst það einkenna seinni hlutann, hvað hann var tilviljanakenndur eða ævintýralegur og jafnvel dálítið barnalegur á pörtum. Það sem er mest ævintýralegt er sagan um Moses Taylor, hún er full af tilviljunum og mjög ótrúverðug. Það er eins og höfundur sé að reyna að bjarga sér fyrir horn með því að skapa einhverja ævintýrapersónu. Þó að seinni hlutinn sé dálítið fyrirsjáanlegur miðað við fyrri hlutann endar hann í óvissu. Böðvar, skilur mann eftir með óvissu um afdrif Ólafs til að fá mann til að lesa framhald bókarinnar, Lífsins Tré.
Bókin er í alla staði vel skrifuð og fræðandi. Hún lætur mann byrja að hugsa um þetta tímabil í sögu íslensku þjóðarinnar og gefur manni nýja sýn á vesturfaranna.
kv.peacock