Inngangur

Spor í myrkri.
Þorgrímur Þráinsson.
Útgefandi: Fróði hf. 1993
Prentvinnsla: Prentsmiðjan Oddi hf.
Lestur handrita og prófarka: Þórunn Hafstein.
Kápuhönnun: Helgi Sigurðsson.
Blaðsíðufjöldi: 154 bls

Sagan byrjar þar sem Binni situr í strætisvagni. Við hliðina á honum sest svo stelpa (Sóla) sem Binna finnst alls ekki svo slæm.Hún spáir í lófa hans og hverfur svo jafn fljótt og hún kom. Binni situr eftir með spádóma hennar og krot í lófanum en þar stendur skýrum stöfum eins og eftir ritvél: LA CROIX , sem þýðir á frönsku ,,krossinn”. Binni leitar að stelpunni en ekki finnur hann hana. Dag einn sér hann nokkra krakka í bæjarvinnunni á leikvelli og vekur þá helsta athygli hans stelpa í dökkum fötum sem hangir á hvolfi niður úr klifurgrind en það er einmitt stelpan sem settist hjá honum í strætó. Binni fer að vinna í bæjarvinnunni með Sólu og kynnist henni betur. Einnig kynnist hann Trausta og Hebba (tveimur vinum)og Kristínu (Kríu) og Melkorku (Melku) bestu vinkonum. Þau ákveða svo að fara öll saman um Verslunarmannahelgina í gamalt hús ( að Krossum) sem amma Sólu á en enginn úr fjölskyldunni hefur farið í langa lengi. Þau fá þriggja daga frí í bæjarvinnunni og skella sér að Krossum. Þar er sagt að sjö franskir sjómenn gangi aftur því að bein þeirra allra hafi ekki verið grafin í heilagri mold. En þau fara samt. Margt á eftir að gerast, blossar verða á milli kynja, gamall kall (Dósi) hræðir krakkana, Sóla hverfur og krakkarnir verða að leita að henni. En er það Dósi sérvitringurinn á næsta bæ sem á þátt í hvarfi Sólu og alls draugagangsins eða eru þau flækt í atburðarás sem átti sér stað fyrir 50 árum. Er þetta virkilega satt með frönsku sjómennina? Binni og Melka fara á eftir Sólu til að reyna að finna hana. Þau rekja slóð út að sjó en þar er gamalt skipsflak. Binni minnist spádóms Sólu og kemur þá í ljós að hann benti til þess að þetta myndi gerast. Binni notar spádóminn til að finna Sólu. Hann finnur hana nær dauða en lífi í skipsflakinu. Melka fór og náði í krakkana og í sameiningu drösluðu þau Sólu heim í húsið. Sóla nær sér, krakkarnir ná í bein franska sjómannsins sem aldrei hafði fundist og grafa þau ofan í gamla gröf hinna sex sjómannanna. Ekkert hefur spurst til sjómannanna síðan. Ævintýrið reyndi verulega á krakkana og urðu þau að treysta á hvort annað og vinna saman til að komast í gegnum þessa draugalegu raun.

Meginmál

Sóldís eða Sóla var bráðmyndarleg, með dökkt, sítt hár ,dimmbrún augu og löng augnhár. Hún var í svörtum fötum, með svarta húfu og stóran silfurkross um hálsinn. Sóla var svolítið sérstök, hékk á hvolfi í klifurgrindum í hálftíma ef ekki lengur, fetti sig og bretti, andaði á undarlegan hátt, hún gat lokað frá sér allan heiminn og komst þannig í sinn eigin heim, var í allskyns jógastellingum og synti allsber í sjónum. Engu að síður var hún ákaflega meðvituð um umhverfi sitt og það sem gerðist í námunda við hana. Sóla var fiðrildið í hóp bæjarvinnunnar, söng allan liðlangan daginn og lét tiktúrur annarra ekki koma sér úr jafnvægi. Sóla og mamma hennar náðu aldrei saman og því síður þekkti hún pabba sinn. Reyndar hafði hún aldrei séð hann og vissi ekki hver hann var. Þó vissi hún að hann var franskur. Mamma Sólu hafði farið fyrir 17 árum til Þórsmerkur í helgarferð, kynnst Frakka og Sóla varð til í einhverri grænni laut. Þegar mamma hennar vaknaði var Frakkinn horfinn. Mamma Sólu var alkóhólisti, drakk frá sér allt vit og minningarnar tengdar henni voru ófagrar. Hefði hún ekki átt yndislega ömmu hefði hún líklega farið sömu leið og mamma hennar. Þegar Sóla var 9 ára greindist hún með krabbamein í höfðinu og í kjölfar þess stakk mamma hennar af. Henni fannst þetta ekki leggjandi á sig og flúði til Frakklands í leit að týnda draumaprinsinum. Hún kom aldrei til baka, sendi engin bréf og Sóla veit ekki hvort hún er lífs eða liðin. Sólu var ekki hugað líf því að æxlið var illkynja og hún var sett í stranga lyfjameðferð. Á þessum tíma kynntist hún mætti bænarinnar og fann hvað trúin skipti miklu máli í lífinu. Henni fannst hún skyndilega öðlast hæfileika til að sjá og skynja meira en það sem ber almennt fyrir augu. Þarna voru henni færðir (telur hún) dulrænir hæfileikar sem hún hefur bæði hræðst og glaðst yfir. Einu sinni fannst henni hún vera dáin og horfði á sjálfa sig hverfa úr líkama sínum og yndislegar verur tóku á móti henni, svo heyrði hún rödd hvísla og verurnar skiluðu henni aftur í líkama sinn og hún kom til sjálfrar sín skömmu seinna.Hún grét bæði af fögnuði og söknuði en upp frá þessu fékk hún skjótt bata. Besta vinkona Sólu hafði svo bundið enda á líf sitt fyrir fjórum árum vegna þess að foreldrar hennar og hún náðu aldrei saman því þeir voru svo lokaðir. Ásta birtist Sólu iðulega og þá tala þær saman.

Binni var með dökkt, stuttklippt hár, skarpa andlitsdrætti en hreyfingar hans voru hægar og stirðbusalegar. Hann hafði gott lundarfar, hafði sig yfirleitt lítið í frammi en gat þó verið hrókur alls fagnaðar ef sá gállinn var á honum. Binni átti það til að mismæla sig, jafnvel stama og roðna upp úr þurru og yfirleitt kaus hann einveru í stað þess að vera í hópi þar sem veikleikar hans áttu það á hættu að koma upp á yfirborðið. Skúli, vinur hans, sagði hann svo dannaðan að hann byrjaði ekki á poppinu sínu í bíó fyrr en allir væru sestir. Afi Binna vildi ekki að hann fengi sér vinnu að sumarlagi og borgaði honum í staðinn sæmilegt kaup fyrir það að lesa bækur og fræðast – auðga andann eins og sá gamli kallaði það. Eftir að hann kynntist Sólu byrjaði hann svo að vinna í bæjarvinnunni ásamt Sólu, Kríu, Melku, Trausta og Hebba. Binni kynntist mömmu sinni aldrei. Samt þekkti hann hana í sjö ár. Hann grét ekki þegar hún dó, hann bara faldi sig. Hún var víst alltaf veik þótt hann hefði ekki áttað sig á því. Hún sagði að sprauturnar og pillurnar, sem hún var alltaf að taka, myndu hjálpa sér. Þegar hann spurði hana svo hvers vegna hann ætti ekki pabba, eins og vinir hans, öskraði hún á hann og sagði að það ættu ekki allir pabba. Amma hans sagði honum svo seinna að mamma hans hefði ekki vitað hver pabbi hans væri. Þegar mamma hans var á eiturlyfjum var hún ekki með sjálfri sér í marga daga – stundum vikur. Hann hataði þessa ógeðslegu karla sem hún kom stundum með heim. Þegar hún fór út á lífið batt hún hann oft niður í rúmið svo hann færi sér ekki að voða. Stundum gaf hún honum töflur fyrir svefninn og sagði að hann dreymdi fallega ef hann gleypti þær. Eftir að hann komst að því að þetta væru svefnpillur vildi hann ekki taka þær en þá tróð hún þeim bara upp í hann. Það tókst ekki alltaf. Stundum kom hún ekki heim fyrr en næsta dag og hann barðist um til að losna úr böndunum. Eftir að mamma hans eignaðist Hildu var hún góð í nokkra mánuði en svo fór allt á sama veg. En Hilda dó rétt áður en hún varð eins árs. Þá var Binni sex ára og mamma hans skipaði honum að vera heima og líta eftir henni á meðan hún skryppi út. Hilda svaf úti í vagni og hann ætlaði að gæta hennar svo vel. Þegar hún var sofnuð kyssti hann augu hennar og nef og strauk kinnarnar á henni lengi, lengi. Honum leiddist aldrei að horfa á hana. Hún var svo saklaus og falleg. Hann vildi ekki missa hana úr augsýn svo hann settist í gluggakistuna. En hann sofnaði. Hann vaknaði ekki einu sinni þegar hún skreið úr vagninum og datt á svalagólfið. Hann hugsar um það að hann hefði getað bjargað henni ef hún hefði farið að gráta þegar hún vaknaði en allt gerðist þetta á hljóðlátan hátt. Konan í íbúðinni við hliðina fann hana. Hilda komst aldrei til meðvitundar og dó um kvöldið. Honum fannst hann deyja sama kvöld og vissi ekki hvort hann hefði nokkurn tíman lifnað við aftur. Mamma hans hataði hann og lamdi hann daglega þangað til að amma hans og afi tóku hann af henni. Binni skildi vel að hún hefði hatað sig fyrir að hafa brugðist henni og Hildu. Skömmu seinna fór mamma hans á spítala og rúmlega ári eftir fyrirfór hún sér. Hann langaði til að sakna hennar en gat það ekki. Hann átti ekki eftir neina sorg handa mömmu sinni því Hilda var honum miklu meira virði.

Kristín eða Kría eins og hún var oftast kölluð var frekar mikil pjattrófa. Hún gat ekki hugsað sér neitt verra en að sofa í svefnpoka í tjaldi eða pissa á græna torfu. Hún vildi ekki láta raska lífsmynstri sínu óþarflega mikið. Henni fannst morgunstrokur móður sinnar ómissandi svo ekki væri talað um heita vatnið sem varð helst að gæla við líkama hennar tvisvar á dag. Kría var einstakur snyrtipinni og henni var sérlega annt um útlit sitt og klæðaburð. Hún var með stuttklippt brúnt hár og aðeins dekkri hörundslit en félagar hennar. Augabrúnir hennar voru vel snyrtar, augnhárin voru dökkmáluð og varirnar fagurrauðar. Hún var hneykslunargjörn en ákaflega hughrifin. Það var fyrir neðan virðingu Kríu að skokka eða hreyfa sig meira en góðu hófi gegndi því hún ætlaði ekki að eyða hjartanu í svona vitleysu. Kría hefur aldrei þurft að dýfa litla putta ofan í kalt vatn. Foreldrar hennar eru flugríkir. Kría veit að hún hefur verið rosalega erfið. Og finnst hún rétt vera byrjuð að róast en hún hataði foreldra sína. Henni fannst foreldrar tilgangslausir. Alltaf að skamma og banna, ekki þetta, ekki hitt, þannig að hún fylltist mótþróa. Gerði allt sem hún mátti ekki. Hún hataði mömmu sína á tímabili og vildi ekki láta sjá sig með henni. Henni fannst mömmur bara vera mömmur, ekki persónur – bara konur sem sæju um heimili, þjónuðu öllum og væru algjörlega tilfinningalausar. Það var ekki fyrr en hún heyrði mömmu sína gráta að hún áttaði sig á því að hún var mannleg og allt annað en vinnudýr á heimilinu. Henni fannst sárt að heyra mömmu sína gráta og við það kviknuðu einhverjar ókunnar tilfinningar. Hún var þá mannleg eftir allt saman og ekki svo slæm. Kvöldið, sem hún sá hana líða svona illa, sá hún hana í nýju ljósi og henni fannst hún geta talað við hana eins og jafningja. Upp frá því voru þær góðar vinkonur og Kría treysti henni fyrir ýmsum leyndarmálum. Þótt þær væru ekki alltaf sammála gátu þær rætt málin.

Melkorka eða Melka eins og hún var kölluð var hálfgerður hippi í samanburði við Kríu. Melka var með ljóst, sítt hár skipt í miðju, og þurfti stöðugt að ýta því aftur fyrir eyru. Hún var með þykkar, kyssulegar varir sem minntu stundum á litlar, uppblásnar slöngur og hún var brosmildari en sólin. Augun í henni voru í smærra lagi en himinblá. Hún bar hring á hverjum fingri, tvo á sumum og gerði í því að vera hippaleg. Kannski til að stinga í stúf við Kríu, bestu vinkonu sína, en þó aðallega vegna þess að það var henni eðlislægt. Hún var náttúrudýrkandi eins og Sóla.

Melka var líka frekar myrkfælin. Melka hefur átt góða æsku. Hún ólst upp með sex systkinum. Hún man bara eftir ærslafullum leikjum og hlátri. Mamma hennar og pabbi hafa sýnt þeim ástríki og umhyggju alla tíð og verið vinir þeirra.

Trausti og Hebbi voru mest áberandi í bæjarvinnunni. Þeir voru grínarar og létu óspart í sér heyra og yfirleitt hlógu þeir á kostnað annarra. Trausti þurfti oftast að eiga síðasta orðið þegar eitthvað bar á góma og fannst hann fremri jafnöldrum sínum á flestum sviðum. Trausti leit á stelpur sem kynverur. Hann gekk alltaf í kúrekastígvélum og með derhúfu. Þetta virtist vera samvaxið Trausta og sömuleiðis svörtu, þröngu gallabuxurnar. Þetta var þríeykið sem var engin leið að skilja í sundur. Trausti var með gullhring í öðru eyranu og var með lítinn hring á litla fingri á vinstri hönd. Hann var jafn jarðbundinn og Sóla var leitandi, trúði aðeins því sem hann sá eða upplifði sjálfur. Þrátt fyrir digurbarkann og stærilætið var Trausti stórmyndarlegur og tókst því auðveldlega að heilla stelpur. Hann gerði það á margvíslegan hátt, alveg viss um að það kæmi síðar til góða. Þegar hann hafði annaðhvort fengið það sem hann vildi eða verið hafnað leitaði hann fljótt á önnur mið. Spegillinn var besti vinur Trausta og fór fólk, sem umgekkst hann mest, ekki varhluta af því. Pabbi Trausta er alkóhólisti þótt hann viðurkenni það ekki sjálfur og Trausti gerði það ekki heldur fyrr en nýlega. Hann gat ekki sætt sig við það að pabbi hans ætti við vandamál að stríða. Þó var fjölskyldan búin að líða fyrir það í mörg ár. Hann fór á sína túra, lamdi mömmu hans stundum og hótaði að drepa þau. Á tímabili lokuðu þau systkinin augunum fyrir staðreyndunum. Trausta var strítt á því í skólanum að pabbi hans væri alki. Þá trylltist hann og lamdi allt og alla. Þetta var óspart notað gegn honum. Hann skildi ekki hvernig mamma hans gat búið með honum. Hann kom stundum með aðrar konur heim með sér og hélt framhjá mömmu hans. Pabbi hans var eins og tveir menn. Hann átti það til að vera blíður eins og lamb, dekraði stundum við þau og faðmaði mömmu hans. Þá héldu þau að hann væri hættur að drekka en svo hófst martröðin á ný. Þau systkinin töluðu um vandan fyrir skömmu. Þau voru haldin ákveðinni afneitun en þurftu virkilega að tjá sig þegar allt kom til alls.

Hebbi var ólíkur Trausta bæði í háttum og útliti þótt það væri varla hægt að skilja þá
að. Hebbi var hraðmæltur og hláturmildur, dálítið óöruggur með sig en þó var hann fullur sjálfstrausts þegar Trausti var nálægt. Hann var langur og myndarlegur, mjósleginn og með ljóst hrokkið hár. Hann var stórfættur og hafði Trausti hann iðulega að skotspæni vegna þess. Persónuleika og skoðunum Hebba gat maður líkt við ómótaðan leir. Eina stundina var hann hlynntur einhverju en eftir andartak var hann á móti því. Það leið vart mínúta á milli þess að hann togaði hárlokkana niður að augum til að reyna að fela nokkrar unglingabólur sem höfðu tekið sér bólfestu á skjannahvítu enninu og sýndu ekki á sér neitt fararsnið – honum til mikillar armæðu. Þegar hann sleppti svo lokkunum skutust þeir jafnharðan upp eins og gormar og rauðar bólurnar nutu sín vel á vandræðalegu og glansandi andlitinu. Hebbi var mað rosalega kalda fingur og sagðist hafa þeim mun heitara hjarta þegar minnst var á frostpinnana tíu sem gerðu of í því að hrekkja viðkvæmt hold. Tær hans voru sömuleiðis við frostmark og Trausti sagði að engin stelpa fengist til að sofa hjá honum nema hann klæddist upphituðum ullarsokkum og fingravettlingum. Hebbi átti það til að gleyma sér í ýmsum hugleiðingum og heykti sig þá með tilheyrandi svipleysi. Á slíkum augnablikum var engu líkara en það ætti að fara að bjóða hann upp. Hebbi saknaði þess að hafa ekki foreldri sitt hjá sér. Pabbi hans var flugmaður og fórst á leið í sjúkraflug þegar Hebbi var fjögurra ára. Hann á aðeins óljósar minningar um hann en geymir alltaf mynd af honum í veskinu. Þegar mamma hans sagði honum að flugvél pabba hans væri týnd hljóp hann út og horfði til himins. Vélin fannst ekki fyrr en eftir þrjá daga og Hebbi stóð úti á hverjum degi og horfði upp í loftið, og beið. Þegar hann heyrði í flugvél hljóp hann inn og sagðist hafa heyrt í vél pabba síns. Mamma hans sagði honum að hún hefði hrapað en hann hætti ekki að leita fyrr en eftir jarðarförina. Áður en kistan var sett ofan í gröfina lagði hann uppáhalds flugvélina sína, sem pabbi hans hafði gefið honum, á kistuna til þess að hann gæti flogið til Guðs.

Krakkarnir eru 15 – 16 ára. Binni kynntist Sólu fyrst í strætó þegar hún birtist allt í einu, settist hliðin á honum tók hönd hans og spáði í lófa hans og hvarf svo jafn fljótt og hún birtist og skildi Binna eftir með spádóma hennar og krot í lófanum. Binni leitar að Sólu út um allt og finnur hana að lokum á leikvelli þar sem hún er ásam fleirum úr bæjarvinnunni. Binni fer að vinna í bæjarvinnunni og kynnist þannig Sólu betur en einnig kynnists hann Kríu og bestu vinkonu hennar Melku og Trausta og vini hans Hebba sem eru miklir grínistar.

Lokaorð

Mér finnst þessi bók alveg æðisleg. Hún er svo margt í einu. Hún er skemmtileg, spennandi, sorgleg og smá kelerí. Í þessari bók er blandað saman svona einhvern vegin raunverulegum unglingum, því sem þeir gera, sem maður kannast kannski við, tilfinningum sem maður hefur kannski fundið sjálfur eða hefur fundið í öðru fólki sem maður þekkir. Svo kynnist maður því hvernig er að sjá dáið fólk, vera skyggn, lenda í ævintýrum og margt annað. Sumt úr bókinni veit ég að er til.Ég finn hluta af mér í mörgum af aðalpersónunum. Það er kannski þess vegna sem mér finnst þetta svona æðisleg bók og svo raunveruleg. Þessi bók kennir manni líka mikið um lífið og tilveruna og að maður á að njóta hverrar mínútu í lífinu og þó að lífið sé erfitt er engin lausn að fyrirfara sér. Þú losnar kannski við plánetuna Jörð en þú losnar ekki við það sem þú reyndir aðallega að flýja, VANDRÆÐIN og allt það. Þetta lærði ég af henni Sólu, sem ég kynntist í bókinni og er ein lífsglaðasta manneskja sem ég hef kynnst þótt hún hafi gengið í gegnum hræðilegt tímabil sem barn. Og ef ég gæti myndi ég þakka Þorgrími (höfundi bókarinnar) æðislega fyrir að hafa skapað þessa æðislegu persónu og fyrir æðislega bók sem ég legg til að allir unglingar lesi og náttúrulega líka foreldrar. Bæði eigið þið eftir að skemmta ykkur vel og læra eitthvað af henni. Því miður var ég ekki búin að lesa þessa bók þegar Þorgrímur bjó í Davíðshúsi, í sömu götu og ég á heima í (ég var svo lítil þá). Þessi bók var mér mikilsvirði og ég lærði mikið af henni auk þess sem hún var æðislaga góð. Ég gef henni fimm stjörnur af fimm mögulegum og myndi gefa henni meira ef ég gæti.


MooN|DollY [T]
Allt um bókmennti