Bókin heitir Classical Thought og er eftir Terence Irwin. Irwin er þekktur en að sama skapi umdeildur fræðimaður. Hann nam klassísk fræði í Oxford og fornaldarheimspeki undir handleiðslu Gregory Vlastos við Princeton háskóla í Princeton, New Jersey í Bandaríkjunum og lauk þaðan doktorsprófi árið 1973. Irwin kenndi fyrst klassísk fræði og heimspeki við Harvard árin 1972-1975 en síðan 1976 hefur hann verið prófessor í heimspeki við Cornell háskóla í Ithaca, New York. Hann hefur verið iðinn rithöfundur sem hefur dúndrað út mörgum bókum um sín fræði. Frægastar eru Plato’s Moral Theory (1979), Aristotle’s First Principles (1990) og Plato’s Ethics (1995). Classical Thought kom út hjá Oxford University Press árið 1989.
Ég veit sannast sagna ekki alveg hvað ég á að segja um þessa bók. Hún er svolítið undarleg. Ég er ekki að segja að hún sé slæm bók, en undarleg er hún. Classical Thought er gefin út í ritröð um sögu vestærnnar heimspeki. Eins og titill bókarinnar gefur til kynna (Classical Thought en ekki Classical Philosophy) einskorðast bókin ekki við heimspeki í ströngum skilningi. Hér er fjallað um eitt og annað sem oft er ekki að finna í yfirlitsritum um fornaldarheimspeki. Og það er svo sem ekkert athugavert við það. Irwin sleppir hins vegar ýmsu mikilvægu úr umfjöllun sinni um sögu grískrar heimspeki, og maður veltir því fyrir sér hvort fórnirnar sem færðar hafa verið til þess að halda lengd bókarinnar innan hæfilegra marka hafi verið þess verðar. Voru þær yfirleitt nauðsynlegar?
Í 2. kafla fjallar Irwin m.a. um skáldin Hómer og Hesíódos og það sem maður gæti kallað bakgrunn grískrar hugmyndasögu. Þessi útgangspunktur er vitaskuld ekki að öllu leyti handahófskenndur, eins og Irwin útskýrir í 1. kafla (innganginum). Hómer hafði jú djúp áhrif á alla gríska hugsun, líka á heimspekina. Á hinn bóginn fjallar Irwin ekki um mikilvæga gríska heimspekinga á borð við Parmenídes frá Eleu (sem einungis er minnst á einu sinni í bókinni og þá í umfjöllun um heilagan Ágústínus). Þess í stað fáum við að lesa um sagnaritarann Heródótos. Auðvitað er góðra gjalda vert að minnast á Heródótos í bók um gríska hugmyndasögu, en ég er efins um að það sé boðlegt á kostnað Parmenídesar. Irwin fjallar lítið sem ekkert um efahyggju, eins og hann bendir sjálfur á í innganginum. Sextos Empeirikos og Pyrrhon frá Elís eru nefndir einu sinni í bókinni hvor og þá í stuttri aftanmálsgrein. Enn fremur er ekki minnst einu orði á heimspekinginn Empedókles. Er ekki furðulegt að í bók um heimspeki og hugmyndasögu fornaldar sé hvergi minnst á Empedókles en þrisvar á keisarann Neró? Ekki er fjallað um heimspeki Platons á síðari árum sínum né heldur er fjallað neitt um forna rökfræði í bókinni. Þetta eru bara dæmi.
Að mínu mati hefði mátt stórbæta bókina með því að bæta við hana 25 eða 30 síðum; tíu síðum eða svo um frumherja grískrar heimspeki (forvera Sókratesar), tíu síðum eða svo um efahyggju, nokkrum síðum um heimspeki Platons í yngri verkum hans. Ég veit ekki hvers vegna ritstjóri ritraðarinnar ætti að vera því andsnúinn (þótt ritstjórar reyni iðulega að gæta þess að höfundar fari ekki fram yfir ákveðin lengdarmörk). Þessi bók er 288 síður en bók Copenhavers og Schmitts um heimspeki endurreisnartímans (í sömu ritröð) er 464 síður. En þrátt fyrir að þeirri umfjöllun sem ég legg til hefði verið bætt við bókina get ég ekki varist því að spyrja mig hvort þetta sé rétta bókin til að dekka fornöldina í ritröð um sögu vestrænnar heimspeki. Ef til vill hefði það frekar átt að vera bók um heimspeki í strangari skilningi.
Að því sögðu verð ég að játa að þessi bók er ágætlega skrifuð, á einföldu og skýru máli og i vissum skilningi aðlaðandi. Hún er auðlesin hverjum sem er og gæti gagnast einhverjum sem vill kynna sér hugmyndaheim fornaldar án mikillar fyrirhafnar. En ég verð að mæla með annarri bók ef leitað er eftir inngangi að fornaldarheimspeki sem slíkri eða að ítarlegri umfjöllun (hvort sem það er um efni sem Irwin fjallar um eða ekki). Þá væru bækur eins og Classical Philosophy eftir Christopher Shields (Routledge, 2003), The Blackwell Guide to Ancient Philosophy, ritstýrð af Christopher Shields (Blackwell, 2003) eða The Cambridge Companion to Greek and Roman Philosophy, ritstýrð af David Sedley (Cambridge University Press, 2003) sennilega betri kostir.
___________________________________