Fyrir nokkrum árum var mér bent á bók eftir Japanskan höfund sem heitir ‘Hardboiled Wonderland and the End of the World’. Ég keypti bókina og hafði hana uppi í hillu án þess að lesa hana í þó nokkuð langan tíma en svo einn góðan veðurdag var máltíð komin. Það var þá sem ég uppgötvaði Haruki Murakami, síðan hef ég lesið allar hans bækur sem hafa verið gefnar út á ensku og get ekki fengið nóg.

Hann hefur svo þægilega hrynjandi í bókunum sínum, hann gefur sér tíma til að líta við öðru hvoru og skapa stemmningu án þess að vera langdregin. Hann hefur hæfileika til að koma manni stöðugt á óvart með sínum ‘magíska realisma’ eins og fræðimennirnir kalla það. Bækurnar gerast í einhverskonar óraunverulegum raunveruleika og hann kemur mér stöðugt á óvart.

'Hardboiled wonderland and the end of the world' er einskonar vísindaskáldsaga, þó engin venjuleg, sem kemur þægilega á óvart. Þetta er einskonar Lísa í Undralandi fyrir fullorðna þar sem maður dettur niður í kanínuholu og það ætlar engan endi að taka.
'Norwegian wood' er hins vegar tragísk ástarsaga sem gerist á tímum bítlanna. Dægurlög frá 1960-1970 eru stór hluti af sögunni og höfundurinn vefur vef þar sem nýjir tímar taka völdin, tímar frjálsrar ástar og stúdentauppreisnar.

Ég gæti svo sem haldið áfram að rekja upp uppáhaldsbækurnar mínar eftir Murakami en læt hér staðar numið. Mér fannst það hins vegar við hæfi að vekja svolítið áhuga á þessum rithöfundi þar sem ég hef heyrt að Bjartur hafi gefið út svolítið eftir hann á Íslensku. Hversu mikið veit ég ekki en ég mæli með að fólk sem hefur áhuga á öðruvísi bókmenntum athugi þetta.
-Sithy-