Þessa dagana hellist yfir okkur auglýsingaáróður bókaforlaganna, þar sem í hönd fer upphitun fyrir vitleysu ársins, jólabókavertíðina. Allt eru þetta “…tímamótaverk, sem lesendur hafa beðið eftir með óþreyju” og þar fram eftir götunum. Svo taka fjölmiðlar gjarnan undir bullið, enda miklir peningar í spilinu. Þeir fjölmiðlar sem leyfa sér hlutlausan dóm á einhverja bókina, fá einfaldlega engar auglýsingar. Svo einfalt er það.
Hins vegar er græðgi forlagana orðin slík að þau leyfa sér að verðmerkja ómerkilegar skáldsögur eins og þær væru gerðar úr gulli og platínu. Kostnaður við prentun bóka er sáralítill. Skáldsögu kostar ekki meir en 300-500 kall að prenta. Svo kemur launakostnaður til höfundar, dreifing, auglýsingar og fleira. Ef við erum rausnarleg í matinu, endum við á sléttum þúsundkalli. Restinni stingur forlagið í eigin vasa.
Þetta jólabókarugl keyrir auðvitað bara jafn lengi og hægt er að telja einhverjum íslendingum trú að þeir séu að kaupa góða vöru. Auðvitað er útúr korti að borga næstum 5000 krónur fyrir einhverjar skruddu sem kostar 1000 kall að framleiða. Skrumið í kringum þetta er fyrir neðan allar hellur. Blöðin stútfull af auglýsingum og lofsöng um hvert “bókmenntastórvirkið” eftir annað. Skrýtið að svona heilaþvottur gangi í nokkra manneskju. Nema íslenskur almenningur sé svona vitlaus.