Þegar þeir Kjartan og Bolli urðu eldri sóttu þeir oft í bað í Sælingsdalslaug og kom kona að nafni Guðrún Ósvífursdóttir oft þar við og mæltu menn að þau ættu vel saman. Eitt sinn hittu þeir mann sem hét Kálfur Ásgeirsson og bað Kjartan hann um að selja sér hálft skip sitt og sigldu þeir svo saman, ásamt Bolla, til Noregs en áður höfðu þau Kjartan og Guðrún skilið ósátt því Kjartan neitaði henni um að fá að koma með og bað hann hana um að bíða sín í þrjá vetur.
Í Noregi gerðust Bolli og Kjartan konungsmenn hjá Ólafi Tryggvasyni en hann vildi að Íslendingar tækju við kristni og eftir að hann hafði haldið nokkrum Íslendingum í gíslingu sagði hann Kjartani að fara og boða löndum sínum kristni. En Kjartan vildi ekki fara og varð eftir. Þá voru liðin þrjú ár og snéri Bolli við til Íslands og Kjartan bað Bolla um að skila kveðju til fjölskyldu og Guðrúnar Ósvífursdóttur. En þegar Bolli kom til Íslands sveik hann Kjartan og skilaði engu til Guðrúnar og sagði líklegt að hann kæmi ekki aftur í bráð því hann ætti meira en vingott við Ingibjörgu konungssystur. Bolli bað svo Guðrúnar sjálfur og játaðist hún honum í seinna skiptið er hann bað hennar. Sumarið eftir fer Kjartan heim frá Noregi og í gjöf frá konungi fær hann sverð og frá Ingibjörgu hvítan gullofinn höfuðdúk, sem var kallaður motur, og sagði hún honum að gefa Guðrúnu í brúðkaupsgjöf. En þegar hann kemur til Íslands er Guðrún gift Bolla og kemst Kjartan að því að hann hefur svikið hann og verða þar mikil ósætti á milli. Kjartan giftist þá Hrefnu Ásgeirsdóttur, systir Kálfs, og var brúðkaupið haldið í Hjarðarholti. Í brúðkaupinu gaf Kjartan Hrefnu moturinn.
Eitt haustið var komið að Ólafi pá að halda haustboð og komu þá Laugarmenn til Hjarðarholts. Var Guðrún mjög afbrýðisöm út í Hrefnu þar sem hún fékk moturinn en hún hafði komist að því að í fyrstu var moturinn ætlaður Guðrúnu. Guðrún lét þá bróður sinn stela motrinum og er sagt að hann hafði brennt hann.
Eftir jól safnaði Kjartan sextíu mönnum og fara þeir að Laugum. Þar umkringja þeir bæinn og hleypa engum út úr húsi, en á þeim dögum var salernið í öðrum húsum og ekki innangengt úr bænum, og þannig hélt það fyrir sér í þrjá sólarhringa. Fannst Laugarmönnum þetta mun meiri svívirðing heldur en ef Kjartan hefði drepið tvo til þrjá menn þeirra og varð mikill fjandskapur á milli Laugarmanna og Hjarðhyltinga eftir þetta. Maður að nafni Þórarinn bjó á bæ sem heitir Sælingsdalstunga eða Tunga og var bærinn staddur á milli Laugarmanna og Hjarðhyltinga. Þórarinn var bæði mikill vinur Laugarmanna og Hjarðhyltinga en þar sem mikið ósætt var þar á milli vildi hann ekki lengur búa þar og ákvað að selja bæinn. Bolli og Guðrún sömdu um að kaupa Tungu en ekki voru nógu margir vottar viðstaddir til að samningurinn yrði löglegur. Kjartan Ólafsson ríður þá með tólf menn og hyggst kaupa Tungu. Þórarinn fellst svo á það og fréttist þetta um allan dal. Guðrún segir þá við Bolla að hann verði að fara gera eitthvað í málunum. Þegar Kjartan ríður vestur í Saurbæ með Þórarni og Án svarta hittir hann Þórhöllu málgu og spyr hún hann um leiðir hans. Hún fer strax til Laugamanna og segir frá tíðindunum. Þetta þykir Guðrúnu gullið tækifæri og sendir bræður sína og Bolla að hefna sín á Kjartani. Þeir sitja um fyrir honum þegar Kjartan og menn hans ríða til baka Svínadal.
Kjartan og Ósvífurssynir eigast við í nokkurn tíma og Án hinn svarti fellur en Bolli stendur hjá með sverðið Fótbrít. Þá spyr Kjartan hversvegna Bolli hafi farið að heiman ef hann ætli bara að standa hjá? Bolli lætur sem hann heyri ekkert en Ósvífurssynir eggja að Bolla og stekkur þá Bolli að Kjartani og veitir honum banasár. Kjartan fellur og andast á hnjám Bolla og iðraðist Bolli þegar verksins.
I once was lost but now I'm found