Mengele - The Complete Story
Fyrir skömmu síðan las ég bók sem heitir Mengele - The Complete Story. Höfundurinn er Gerald L. Posner og er bandarískur lögmaður, en hann er mér ekki alveg ókunnur því hann ritaði einnig bókina Hitlersbörnin, sem gefin var út í íslenskri þýðingu af bókaútgáfunni Fjölva fyrir nokkrum árum. Mengele - The Complete Story er á ensku eins og nafnið gefur til kynna, en ég komst yfir bókina á Amazon.com. Bókin fjallar um Jesef Mengele (1911 - 1979), þýskan lækni, sem á tímabili frá 1943 til 1945 er talinn hafa unnið ein mestu grimmdarverk í sögu mannkyns í fanga- og útrýmingabúðum þýskra nazista í Auschwitz-Birkenau í Póllandi. Mengele, sem gekk undir nafninu Engill dauðans, er talinn hafa sent um fjögur hundruð þúsund manns í gasklefana þar sem hann stóð við járnbrautarrampann og valdi úr hverja skyldi deyða og hverjum skyldi þyrmt. Enn fremur valdi hann sér þar úr fórnarlömb, sem hann tók sér alræðisvald yfir, og notaði í hin skelfilegu grimmdarverk er hann taldi sig vera að framkvæma í þágu læknavísindanna, gagngert til að sýna fram á yfirburði hins aríska stofns. Sérstakt dálæti hafði Mengle þó á tvíburum. Mengele komst með góðra vina hjálp undan réttvísinni að lokinni síðari heimstyrjöld; fyrstu árin náði hann að dyljast í Þýskalandi, en síðan flúði hann til Suður-Ameríku þar sem hann dvaldi fyrst í Argentínu, síðan Paragvæ og loks í Brasilíu þar sem hann lést. Þessi bók er alveg einstök og ég hvet alla þá sem áhuga hafa á þessu viðfangsefni; síðari heimsstyrjöldinni og helförinni, að lesa hana.