Skuggaleikir Mig langar að vekja athygli á bókinni Skuggaleikir (La caverna de las ideas) eftir kúbverska höfundinn José Carlos Somoza. Skuggaleikir er morðgáta og spennusaga sem gerist í Aþenu á fyrri hluta fjórðu aldar fyrir Krist. Ungur drengur að nafni Tramakos finnst látinn eitt kvöldið og aðalsöguhetjunni, Heraklesi Pontór, grunar strax að eitthvað sé ekki með felldu. Díagóras nokkur, kennari í Akademíunni, skóla Platons í útjaðri Aþenu þar sem Tramakos hafði verið nemandi, fær Herakles, sem er ráðgátumeistari, til þess að rannsaka kringumstæður dauða Tramakosar. Síðar finnast fleiri nemendur Akademíunnar látnir og spennan eykst.

Ég vil ekki segja meira um framvindu sögunnar til þess að skemma hana ekki fyrir hugsanlegum lesendum. Hins vegar má geta þess að sagan er sögð á tveimur sviðum, því Skuggaleikir á í bókinni að vera skáldsaga eftir óþekktan höfund úr fornöld sem verið er að þýða og í neðanmálsgreinum fáum við einnig söguna af þýðanda verksins. Þýðandinn fer að taka eftir ýmsum skírskotunum í textanum og fer smám saman að verða heltekinn þeirri hugmynd að í textanum leynist hulin merking og leynd skilaboð. Þráhyggjan nær svo endanlega tökum á honum þegar vísbendingarnar fara að beinast að honum sjálfum.

Bókin er prýðileg afþreying en einnig eru nokkrar sæmilegar pælingar í henni til að mynda um samband skáldskapar og veruleika. Þessar pælingar eru fléttaðar ágætlega inn í söguna en ef til vill ekki alveg eins djúpar og efnið bauð upp á.

Hermann Stefánsson þýddi Skuggaleiki yfir á íslensku. Þýðingin er prýðileg en þó virðist sem hún hafi ekki verið lesin nægilega vel yfir. Ef til vill lá útgefandanum, JPV útgáfunni, á að koma bókinni út fyrir bókmenntahátíðina. Hnökrar eru á málfari á stöku stað og auk þess ósamræmi í stafsetningu. Til að mynda er á einum stað ritað “dygð” en á öðrum “dyggð”. Ég er ekki heldur fyllilega sáttur við ritun grískra nafna. Eðlilegra væri til dæmis að Tramakos héti Tramakkos. Appolló og Díónísos ættu vitaskuld að heita Appollon og Díonýsos og svo framvegis. Að lokum koma af og til fyrir grísk orð en þá er rangt farið með þau. Svo dæmi sé nefnt kemur gríska orðið fyrir dygð fyrir en er þá ritað “arate” en ekki “arete”. Ég veit ekki til þess að orðið arate sé til í forngrísku. Ekki veit ég hvort þetta sé einnig svona í frumtextanum og þá frá höfundi komið eða frá þýðandanum. En þetta eru ekki veigamiklar aðfinnslur og sennilega fáir sem taka eftir þessu. Þetta skemmir engan veginn lestur bókarinnar.

Eins og áður kom fram heita Skuggaleikir á frummálinu La caverna de las ideas eða Hellir hugmyndanna. Er þar vísað til hinnar svonefndu Hellismannasögu eða hellislíkingar í upphafi sjöundu bókar Ríkisins eftir Platon. Platon lýsir þar mönnum sem eru hlekkjaðir fastir inni í helli en fyrir aftan þá er eldur. Fangarnir sjá einungis skugga raunverulegra hluta á veggjum hellisins en aldrei sjálfa hlutina. Af þessum skuggaleik dregur bókin íslenskan titil sinn. Þeir sem vilja geta lesið Hellismannasögu Platons í íslenskri þýðingu Eyjólfs Kjalars Emilssonar á Ríkinu en hún kom út hjá Hinu íslenzka bókmenntafélagi árið 1991.

Í stuttu máli er Skuggaleikir skemmtileg bók og prýðileg afþreying sem er vel þess verð að kynna sér.
___________________________________