Símon og eikurnar er eftir sænsku skáldkonuna Marianne Frederikson sem hefur einnig skrifað Anna, Hanna og Jóhanna og margar aðrar vinsælar bækur.
Bókin er þroskasaga Símonar og gerist á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Gyðingahatrið magnast upp í Evrópu og Símon verður stundum fyrir áreiti vegna þess að hann er dökkur og Gyðingslegur.
Foreldrar hans eru í verkamannastétt, faðirinn vinnusamur og duglegur en móðirin skarpgreind og góður hlustandi. Einn daginn láta foreldrar hans Símon vita að hann er ættleiddur, faðir hans var gyðingur og móðir hans er systir uppeldispabbans. Þá fer Símon að leita að uppruna sínum og einnig að sjálfum sér og tilgangi lífsins.
Þetta er fallega skrifuð og heimsspekileg bók um litríkar og skapmiklar persónur. Ég mæli með henni, bæði fyrir konur og karla þó að hún gæti kannski höfðað örlítið meira til kvenna. Annars veit ég ekki um neinn karl sem hefur lesið hana svo að ég get ekki sagt til um þetta.