Herra latur eftir Roger Hargreaves.
Endursögð á íslensku af Þrándi Thododdsen.
Gefin út af JPV útgáfu 2002.
Kostar 390 kr. í Hyrnunni, Borgarnesi
Í mínum mörgu sjoppuferðum rakst ég á nokkrar bækur mjög nálægt hillunni þar sem snakkið er geymt og þar sem ég átti auka pening ákvað ég að kaupa eina af þessum bókum.
Eins og titillinn gefur til kynna, þá er herra latur um lata manneskju, eða fígúru réttara sagt sem heitir herra Latur.
Herra latur á heima í Syfjulandi, landi þar sem allt gerist hægt, svo hægt að það eru bara 4 tölustafir á vekjaraklukkunni og fuglarnir eiga það stundum á hættu að detta úr loftinu vegna þess að þeir fljúga svo hægt.
Herra latur vaknar eitt miðdegið og fær sér síðbúinn morgunmat. Hann fer út í garð og fær sér blund á meðan brauðið er að ristast því það tekur 3 klukkustundir fyrir brauðið í Syfjulandi að ristast.
Herra latur er allt í einu vakinn upp af mönnum sem segjast heita herra Iðinn og herra Kvikur.
Herra Iðinn og herra Kvikur segja honum að fara að gera húsverk og fara út að skokka.
Söguþráðurinn er flóknari en þetta en mig langar ekki til að spilla fyrir ykkur sem lesa þessa grein með því að fara dýpra ofan í kjölinn.
Herra Latur er lítil, innihaldsrík, skemmtileg og ódýr bók fyrir fólk á öllum aldri sem hefur gaman að því að lesa bækur.
Þrjár og hálf stjarna af fimm mögulegum.