Skrítið er það að bækur virðast verða dýrari með degi hverjum, og alltaf hallast það að því að því minna sem þú græðir á lestrinum, því dýrari er bókin.

Í flestum góðum bókabúðum er hægt að finna hillu/rekka, oftast heldur nálægt búðarborðunum eða alveg aftast í búðinni (aldrei á milli) og þá alveg neðst í hillunni sem er kölluð “ýmislegt”. Þar er að finna bækur sem eru algerlega út úr venjulegri formúlu um stærðarhlutföll á bókum, sem sagt oftast lengri en þær eru háar, og oft fáránlega mikið. Þarna eru bækur um það hvernig eigi að segja og tala um ýmis málefni á ýmsum tungumálum, sem mun í raun aldrei koma að gagni, og þetta kostar meira en nokkur orðabók. Bækur um asnaleg föt, sem eru einfaldlega í bók af því þau eru asnaleg. Bækur eftir teiknara sem nenna ekki að gera meira en 3.bekkjar-nemanda teikningar á alltof stór blöð, og allt er þetta á verðinu 1.500 - 3.000kr.

En margt af þessu er afar sniðugt og ég játa að sumt af þessu kaupi ég, eins og “The world´s worst book” sem er lítil, en 60 bls. og eitt það fyndnasta sem ég hef lesið þó ekki tæki langan tíma. Hana keypti ég á 1.950kr ef ég man rétt. Og ég einmitt græddi ekkert á henni nema hláturinn, sem er mér þó dýrmætur. Og kannski telja sumir að eitthvað af þessu sé list, en ég tek líka ekki mark á þeim einstaklingum því ég hef hitt altof marga af þessum listamönnum og skyggnst nóg inn í þennan hugarheim. En það versta er það nýjasta, “images you will never forget” ef ég man nafnið rétt; lítil rauð bók, ábyggilega 50-70 bls. af auðum síðum, nema að stutt setning er á botni hverrar síðu, og útskýrir hvað þú átt að sjá fyrir þér, og flest er þetta útskýring á frægri fréttamynd eins og t.d. stráknum sem stendur fyrir skriðdrekunum á Tianamen-torgi (torgi himnesks friðar), og þessi bók er seld á rúman 2.000 kall.

En, það er þó skemmtilegt að kíkja öðru hverju á þessar hillur og líta á hvort eitthvað nýtt sé komið inn og glugga í það, en hugsið ykkur vel um áður en keypt er, því þetta er dýrara en 2 bíóferðir og tekur ekki lengri tíma en góð skita á klóstinu. Svo tillið ykkur bara í stól í búðinni með litla bók og lítið menningarlega út.