Life of Pi - Yann Martel Þessi bók hefur vakið mjög mikla athygli undanfarið og unnið til fjölda verðlauna eins og t.d. hinna virtu Booker verðlauna. Einnig var hún valin besta bók síðasta árs af amazon.com.

Life of Pi er mjög sérstök bók, þó ekki sé meira sagt. Þetta er aðeins önnur bók spænskættaða kanadíska rithöfundarins Yann Martel og var hann lengi að undirbúa hana. Í ferðalögum sínum til Indlands, þar sem hann leitaði að efni til að skrifa um, hitti hann gamlan mann á kaffihúsi sem sagðist ætla að segja honum sanna sögu sem myndi fá hann til að trúa á Guð. Þessi saga varð síðan að bókinni Life of Pi. Þrátt fyrir þetta þá er bókin ekki um Guð eða í neinum predikunartón.

*Mjög vægir spoilers - bara einfalt plot outline*

Bókin fjallar um ungan indverskan strák að nafni Piscine Patel. Strákurinn er mjög sérstakur og er þó ekki sé meira sagt með mjög sérstakar trúarlegar skoðanir. Hann er alinn upp í dýragarði, sem faðir hans rekur og þekkir því mjög vel inná dýr og hvernig þau haga sér. Fjölskyldan ákveður að flytja til Kanada og fær sér far með flutningaskipi, sem inniheldur einnig nokkur dýr úr dýragarðinum. Skipið lendir í sjóháska og endar Piscine (kallaður Pi) í björgunarbáti með Hýenu, Zebrahesti, Órangútan apa og stóru Bengal tígrisdýri sem heitir Richard Parker. Þessi bátsferð er aðalefni bókarinnar.

Dómur:

Mér fannst þessi bók mjög góð. Hún er alveg laus við tilgerð og er mjög læsileg. Martel hefur augljóslega unnið rannsóknarvinnuna mjög vel og er bókin full af mjög skemmtilegum fróðleik, sérstaklega í upphafi áður en bátsferðin hefst. Pi er mjög áhugaverð og skemmtileg persóna og nær Martel að koma því vel til skila. Sagan er vægast sagt sérstök og er bæði áhugaverð, skemmtileg og sorgleg. Mér fannst þó hún oft vera full ógeðsleg, þó að ég skilji fullkomlega afhverju það er nauðsynlegt. Mjög góð bók sem ég mæli hiklaust með fyrir jafnt unga sem aldna. Ég býst einnig sterklega við því að íslensk þýðing á henni sé á leiðinni, þar sem að hún hefur verið mjög vinsæl og fengið fjölda viðurkenninga.