(Þessi grein var upphaflega bókmenntaritgerð sem ég skrifaði í Íslensku :) )



Ég hef kosið að fjalla um bókina Röddina eftir Arnald Indriðason.
Arnaldur Indriðason hefur skrifað um myndir og erlendar bækur í Morgunblaðinu og notið fádæma vinsælda fyrir bækur sínar, Syni duftsins, Dauðarósir, Mýrina, Napóleonsskjölin og Grafarþögn. Röddin er fimmta skáldsaga hans. Eins og fyrri sögur Arnalds, er saga þessi morðsaga úr Reykjavík og skipa þær allar, utan Napóleonsskjölin, sama bókaflokk. Aðalpersónurnar eru sem fyrr rannsóknarlögreglumennirnir Erlendur, Sigurður Óli auk Elínborgar. Í þetta sinn hefur morð verið framið á stóru hóteli um jólaleitið í Reykjavík. Sá myrti var dyravörður á hótelinu og lék einnig jólasvein. Hann fannst dauður í kjallara hótelsins í jólasveinabúningnum, með gyrt niður um sig og smokk á sér. Fátt markvert fannst annað í herberginu nema Vínardrengjakórsplata og mynd af Shirley Temple á veggnum.
Erlendur Sigurðsson er rannsóknarlögreglumaður um fimmtugt. Hann er reyndastur og færastur allra samstarfsmanna sinna og annálaður fyir ályktunarhæfni. Erlendur er af gamla skólanum, fyrrum sveitamaður, og trúir á einfaldar lausnir. Hann er fráskilinn einstæðingur, býr einn í druslulegri íbúðarholu. Fyrrum kona hans fékk forræði yfir nú uppvöxnum börnunum og hefur ekki viljað talað við hann síðan að hann gekk út. Sonur hans er drykkjusjúklingur og dóttir hans eiturlyfjafíkill og var í vændi. Hann missti bróður sinn í hríðarbyl þegar þeir voru strákar, og þar eð hann missti tak á bróðurnum og sá fannst aldrei, hefur sjálfsásökunin fylgt Erlendi allt hans líf. Erlendur er óhamingjusamur og einmana og harmar örlög barna sinna, sérstaklega Evu Lindar. Hann reynir sífellt að draga hana upp úr óreglunni, en það stoðar ekki lengi. Hún hefur þegar misst fóstur vegna neyslunnar, og dó næstum. Erlendur á sér fá áhugamál, nema að hann les um mannskaða. Hann er líka málsvari hreinnar tungu og gamalla gilda, gagnvart dóttur sinni og samstarfsmanni sínum, Sigurði Óla. Það er fyrst, eftir að hann fær sér herbergi á hótelinu að hann kynnist öðrum aðila við rannsóknina, Valgerði meinatækni og laðast að henni.
Sigurður Óli er nánasti samstarfsmaður Erlendar og er hrein andstæða hans. Sigurður Óli er ungur og myndarlegur maður, ólíkt Erlendi er hann alltaf vel til fara, einsog nýsleginn túskildingur (Erlendur oftast illa til hafður), menntaður í glæpafræðum í Bandaríkjunum og dýrkar allt sem þaðan kemur. Hann býr í snoturri íbúð með tískuhúsgögnum ásamt sambýliskonu sinni, Bergþóru (sem var vitni að morðmáli í Dauðarósum). Þeir vinna þó afar vel saman, Erlendur með innsæi sitt, reynslu og fornfáleg vinnubrögð en Sigurður Óli með fullkomnunaráráttu, og nokkurn menntamannahroka.
Elínborg er þriðja aðalpersóna sögunnar. Hún er gift og á 3 börn, góð kona, umhyggjusöm og skörungsleg. Hún er líka afbragðskokkur. Hún rannsakar einnig annað mál. 8 ára drengur hefur verið barinn alvarlega og faðirinn grunaður. Fyrst var talið að hann hefði verið barinn af skólafélögum.Drengurinn bjó einn með föður sínum, sem neitaði sakargiftum. Móðirin á geðdeild.

Erlendur, Sigurður Óli og Elínborg fara að grafast fyrir um málið. Enginn af starfsmönnum hótelsins virðist hafa þekkt þann myrta, Guðlaug, sérlega vel, enginn virðist sakna hans. Þvert á móti virðist hótelstjóranum og öðru starfsfólki einungis vera umhugað um orðspor hótelsins. Honum hafði auk þess verið sagt upp nokkru áður. Þau reyna einnig að komast að því hvernig maður sá myrti var og kafa í fortíð hans. Erlendur hefur ekkert að fara heim til um jólin og af ástæðum sem hann veit varla sjálfur, tekur hann sér herbergi á hótelinu. Þar getur hann vissulega fylgst betur með. Hann kynnist líka þjónustustúlkunni Ösp og myndar ákveðin tengsl við hana, þar eð hún er einnig einmana sál. Hún er óhamingjusöm og vinnur á lúsarlaunum og komið fram við hana eins og skít. Hún trúir honum fyrir að ýmislegt vafasamt er á seyði á hótelinu. Til að mynda liggur grunur á að megi bendla hótelið við vændi.Eva Lind, dóttir Erlendar, reynir einnig að hjálpa föður sínum þegar hún getur, þar eð hún er kunnug ýmsu af eigin reynslu úr undirheimunum og Marion nokkur Briem ljær honum einnig lið. Marion er aldurhniginn fyrrum yfirmaður Erlendar, einstæðingur eins og hann og leiðist í ellinni. Erlendur kynnist einnig dularfullum breskum safnara, Henry Wapshott, og kemst þannig að því að Guðlaugur hafði verið barnastjarna og sungið inn á plötur. Spjall við fólk sem þekkti hann, gefur okkur innsýn í líf hans.
Guðlaugur hafði himneska rödd sem drengur, en var undir miklum þrýstingi frá föður sínum, sem ætlaði að gera hann að stjörnu. Álagið var mikið fyrir drenginn, of mikið á hann lagt svo ungan að aldri. Hannn vildi gleðja pabba sinn, og þótti til að byrja með gaman, en honum var strítt, hann einangraðist, og álagið varð honum nánast um megn. Það má segja að hann hafi alltaf lifað því lífi sem aðrir vildu, en fékk aldrei að lifa sínu eigin lífi. En þó má greina söknuð, því hann geymdi enn plöturnar. Faðirinn dáði hann, en systir hans stóð í skugganum og fylltist afbrýði. En örlagaríkt kvöld breytti lífi hans að eilífu. Hann átti að syngja fyrir fjölda fólks, en þegar síst varði, brast röddin og varð aldrei söm. Eftir rifrildi við föðurinn, þegar Guðlaugur var um tvítugt, gerðist það, hvort sem um slys var að ræða eða ekki, að Guðlaugur stjakaði við honum, svo hann féll niður stiga á heimilinu og lamaðist. Eftir það flutti Guðlaugur að heiman og allt samband þeirra á milli leið undir lok. Þau fyrirgáfu honum aldrei. Systir hans hafði alltaf verið honum góð, en fylltist smám saman biturð yfir atvikinu, að hann hafi alltaf fengið athyglina, og yfir þeirri ábyrgð sem hann ósjálfrátt fól henni. Smám saman leysist gátan, og flett er ofan af leyndarmálum, spillingu og sagan skýrist.
Mér þykir ekki við hæfi að ljóstra upp hver morðinginn er, eða ástæður fyrir morðinu, eða kafa meira í mikilvægar uppljóstranir sögunnar, þar eð lesandinn hefur e.tv. ekki lesið bókina og vildi ég þá síður ræna hann ánægjunni.
Mér fannst Röddin einstaklega hrífandi, skemmtileg, vel skrifuð og spennandi bók.
Hún veitir innsýn í þá biturð og einangrun sem því fylgir að vera barnið sem stendur í skugganum, og á það þegar börn þurfa að axla mikla ábyrgð og þola mikinn þrýsting ung að árum. Guðlaugur var rekinn áfram af metnaði föður síns, og endar sem fallin stjarna einn og yfirgefinn, einmana og vinalaus. Systir Guðlaugs þurfti hins vegar að kljást við móðurhlutverkið eftir að móðir þeirra dó , og eftir að Guðlaugur fór, þurfti hún að sjá um föður þeirra. Sagan kafar inn í líf einmana sálna, kannar heim spillingar og vændis, drauga fortíðar og brostinna drauma.