Um daginn tók ég bók á bókasafninu sem ég hafði aldrei heyrt um (og vinn ég samt í bókabúð yfir jólin og á haustin). Hún heitir Illskan (1999) og er eftir Jan Guillou.

Það kemur hvergi fram að bókin byggi á sannsögulegum atburðum en það er hins vegar talið að hún fjalli um atburði sem höfundurinn upplifði í æsku.

Aðalpersónan, Eiríkur, býr við stöðugt ofbeldi heima hjá sér. Eftir vandræði í skólanum er hann sendur í heimavistarskóla þar sem hann vonast til að geta byrjað nýtt líf - án slagsmála. En því miður gengur það ekki eftir því Stjarnberg heimavistarskólinn hefur sínar eigin reglur og lög. Hann lendir upp á kant við skólaráðið, sem er æðsta aflið á skólalóðinni, og þá er ekki aftur snúið.


Ég hreifst strax af þessari bók, þetta er mjög átakanlegt efni og ég var stundum nálægt því að gráta eða gubba. En aðallega vakti þetta hjá mér reiði. Bókin er vel skrifuð og mæli ég eindregið með henni. Ef þér fannst “gaman að” ‘Hann var kallaður þetta’ þá held ég að þessi bók sé eitthvað fyrir þig.
["gaman að" er innan gæsalappa því ég efast um að einhverjum finnist bókstaflega GAMAN að lesa um einhvern sem er næstum drepinn með barsmíðum]

snikkin