Jæja nú er maður búin að vera í páskafríi í viku og það hefur verið ansi þægilegt að geta slaka aðeins á skólanum og gluggað í bók. Undanfarna mánuði hef ég verið fremur latur við bókalestur og ekki getað komist yfir allar þær bækur sem ég vildi sökum anna í skólanum. Það hefur skiljanlega verið ákaflega pirrandi og lá við að ég spryngi á limminu og því kannski ekki furða að ég hef bókstaflega gleypt í mig bækurnar síðastliðna daga.
Ég byrjaði á því síðustu helgi að lesa 1984 sem er napurleg framtíðarsýn George Orwell, skrifuð stuttu eftir hildarleik Seinni Heimstyrjaldarinnar og er mjög lituð af þeirri vonlausu stöðu í heimsmálunum sem blasti við illa leiknu mannkyninu í sárum, að því virtist, hruninnar siðmenningar. Sagan á að gerast einhvern tíman um miðbik 9unda áratugarins og fjallar um einstæðing sem er svo óheppinn að geta ekki að því gert að hugsa öðruvísi og vera glöggari en aðrir í ströngu eftirlitsþjóðfélagi sem haldið er í heljagreipum “Flokksins” og Stóra bróður. Það þjóðfélagsskipulag sem Orwell sér fyrir sér eftir lok Heimstyrjaldarinnar er einhverskonar býflugnakúpu sósíalismi þar sem þegnunum er haldið í heljargreipum fáfræði, lyga og eilífs stríðsbrölts. Fasismi og stéttarskipting er búið að gera að eðlilegri skipan þjóðfélagsins og engin leið virðist til baka til þess tíma þar sem einstaklingurinn mátti einhvers megna sín. Sagan fjallar nefnilega ekki síst um algera niðurlægingu mannshugans og er svo áleitin að maður kiknar því sem næst undir lestrinum.
Önnur bók sem ég las um helgina var Fáfræðin eftir Milan Kundera. Kundera, sem ég hafði þegar lesið aðra bók eftir; Óbærilegur léttleiki tilverunnar, er Tékki sem hafði verið útlægur ger er heimaland hans var innlimað í Sovétríkin á 7unda áratugnum og hefur skrifað bækur á frönsku frá Frakklandi síðan. Hann heldur áfram að skrifa útlegðar bókmenntir sínar frá Frakklandi enn þann dag í dag þrátt fyrir að nær heill áratugur sé síðan Tékkaslóvakía losnaði undan oki kommúnismans, og er Fáfræðin frekar ný bók frá honum; útgefin árið 2000. Og kannski fjallar bókin einmitt helst um það; um fólk sem hefur verið í útlegð frá heimalandinu svo áratugum skiptir, eignast maka, börn og heimili; fest rætur og samlagað sig nýju þjóðfélagi, en finnst það fá allt í einu skilaboð frá samfélaginu að það beri skylda til að snúa aftur heim til upprunalega landsins í ljósi breyttra aðstæða, falli járntjaldsins, óháð því að þetta fólk er fyrir löngu búið að eignast nýtt heimaland. Það kom mér svolítið þægilega á óvart að rekast á fyrir miðbik bókarinnar kafla um góðskáldið okkar góða, Jónas Hallgrímsson, þar sem sögupersónan veltir fyrir sér furðulegum örlögum hans og ferðalagi beina dansk slátrara sem endaði í Kirkjugarði á Þingvöllum (eða hugsanlega í ómerktu leiði í Öxnardal), Kundera virtist þekkja vel til. Fáfræðin er bók sem fjallar um Nostalgíuna, söknuðinn, heimþránna, sem við öll höfum eða í sumum tilvikum ættum að hafa en höfum ekki, söknuð eftir heimili eða jafnvel fortíðinni.
Í lok helgarinnar las ég Hamskiptin eftir Franz Kafka, höfund sem ég hef verið forvitin um í svoldin tíma. Hamskiptin er frekar löng smásaga en stutt skáldsaga, 111 blaðsíður að lengd og skiptist í þrjá megin kafla. Það má með sanni segja að Hamskiptin sé ein af furðulegri sögum sem ég hef lesið í langan tíma. Hún fjallar í stuttu máli um þennan unga sölumann sem er í þeirri aðstöðu að vera í íþyngjandi vinnu til þess að geta framfleytt foreldrum sínum og systur og gerir það fúslega. Í byrjun sögunnar hefur hann sofið yfir sig en kemst ekki fram úr rúminu af þeirri fáranlegu orsök að hann hefur breyst í bjöllu. Hann virðist ekki kippa sér mikið upp við það að vera orðin að bjöllu og er staðráðin í að mæta til vinnu en fjölskylda hans og fulltrúi fyrirtækisins sem hann vinnur hjá eru ekki á sama máli og bregðast ósköp eðlilega við og panika. Þaðan í frá var drengurinn bjalla og ekkert virtist geta breytt því og hann varð einfaldlega að sætta sig við það. Þessar breyttu aðstæður setja eins og búast mátti við strik í reikninginn og tilneydd verður fjölskyldan að aðlaga sig að þessum breyttu aðstæðum við þessa ófyrirséðu umbreytingu sonarins. Fjölskyldan gerir sitt besta en sonurinn verður sífellt meira ógeðfelldari og að lokum sveltur hann til bana og deyr í bjöllu líki (Spoiler?).
Ég viðurkenni það að ég botnaði lítið sem ekkert í boðskapi þessarar sögu en varð samt sem áður heillaður af henni. Mér skilst að margt búi að baki og auglýsi hér eftir ásættanlegum túlkunum á Hamskiptum eftir Kafka ; )
Í gær var ég að klára seinni hlutann af Leiðinni til Swann, Í leit að glötuðum tíma eftir Marcel Proust sem ég hafði áður skrifað um fyrri hlutan. Báðar þessar bækur er mjög skemmtilegar aflestra og einfaldlega mjög, mjög góðar.
Í kjölfarið var ég núna að byrja á Illíonskviðu sem ásamt Odysseifskviðu mynda Hómerskviður. Hómerskviður er víst algert “möst” fyrir þá sem vilja á annað borð eitthvað kynna sér bókmenntir og fannst mér þess vegna að það væri því alveg tilvalið að demba sér í þær núna þegar ég hefði tímann fyrir mér, því kviðan er svimandi löng, rúmar fjögurhundruð blaðsíður. En mér sýnsit það ekki koma að sök, ég hef lesið fyrstu hundrað blaðsíðurnar og eins og öll “tolkiennörd” ættu að vita þá er hundruðir blaðsíðna engin fyrirstaða þegar virkilega skemmtilegar bókmenntir eru í boði.
Ef ég næ einhvern tíman að klára Illíonskviðu þá er margar bækur sem bíða og ég hef þegar tekið af bókasafninu: Ulysses eftir James Joyce, Birtingur eftir Voltaire, og Rómeó og Júlía eftir Shakespeare í nýrri þýðingu Hallgríms Helgasonar.
Páskarnir eru svo sannarlega skemmtilegasti tími ársins enda yndislegir til bókalesturs, nóg af frítíma til þess geta dormað lengi fram eftir í rekkju og lesið í bók, veðrið gott en ekki of gott og maður er í svo skemmtilegu lestraskapi til þess að njóta alls þess sem góð bók hefur að bjóða svona á mörkum vetrarins og vorsins.
Segið mér nú hvað þið hafið verið að lesa um páskana?!