Hér kemur fyrsti kaflinn en ég á eftir að klára að þýða annan kaflann og það gæti verið dálítil bið á honum því ég klára hann líklega ekki fyrr en eftir prófin. En það kemur bara í ljós. Annars er ég ekki búinn að taka endanlega ákvörðun um hvernig ég ætla að þýða sum hugtökin í þessu, ef til dæmis einhver gæti bent mér á góða þýðingu á orðinu hobgoblin (til dænmis úr Hobbitanum) þá væri það vel metið.




1. kafli
Gamlir vinir hittast.
Dónaleg truflun.

Flint Fireforge lét sig falla niður á mosagróinn steinhnullung. Gömlu dvergabeinin hans höfðu haldið honum uppi nógu lengi og neituðu að halda áfram möglunarlaust.
“Ég hefði aldrei átt að fara,” nöldraði Flint á meðan hann horfði niður í dalinn. Hann talaði upphátt þó að það væru engin merki um nokkurn lifandi mann nálægt. Löng ár sem hann hafði flakkað einsamall höfðu neytt hann til að taka upp á þeim ávana að tala við sjálfan sig. Hann sló báðum höndum á hné sér. “Og ég ætla sko ekki að fara aftur!” tilkynnti hann ákveðið.
Dvergnum fannst notalegt að sitja á hnullungnum, upphituðum í síðdegissólinni, eftir að hafa gengið allan daginn í svölu haustloftinu. Flint slakaði á og leyfði hlýjunni að streyma inn að beinum – hlýjunni frá sólinni og hlýjunni í hugsunum sínum. Því að hann var kominn heim.
Hann leit í kringum sig, augun hvíldu ástúðlega yfir kunnuglegu landslaginu. Fjallshlíðin fyrir neðan hann myndaði eina hlið á háum fjallgarði sem var þakinn haustskrúða. Vallenviðartrén í dalnum voru logandi í litum árstíðarinnar, og fjólublá Kharolis fjöllin í fjarska tóku við af rauðum og gylltum litum dalsins. Lýtalaus heiðblár himininn speglaðist í yfirborði Crystalmirvatns. Þunnir reykjastrókar sem liðuðust upp á milli trjátoppanna voru einu merkin um tilveru Solace. Létt þokuslæða lá yfir dalnum og fyllti loftið af hinum sæta ilmi sem barst frá heimiliseldunum í eldstæðunum.
Á meðan Flint sat og hvíldi lúin bein, tók hann viðarbút og glansandi hníf upp úr bakpokanum sínum án umhugsunar. Fólkið hans hafði alltaf haft þörf fyrir að móta umhverfi sitt eftir sínu eigin höfði. Hann hafði sjálfur verið dágóður málmsmiður áður en hann hafði sest í helgan stein nokkrum árum áður. Hann bar hnífinn að viðarbútnum en sat svo kyrr og fylgdist með reyknum liðast upp frá huldum reykháfunum fyrir neðan.
“Minn eigin heimiliseldur er slokknaður,” sagði Flint mjúklega. Hann hristi hausinn, reiður sjálfum sér fyrir að hafa verið væminn, og byrjaði að tálga viðarbútinn í hefndarskyni. Hann nöldraði hátt, “húsið mitt hefur staðið autt. Þakið lekur líklega og húsgögnin skemmd. Heimskuleg ferð. Það kjánalegasta sem ég hef nokkurn tíma gert. Eftir hundrað fjörutíu og átta ára ævi, þá ætti ég að hafa lært eitthvað.”
“Þú lærir aldrei, dvergur,” svaraði rödd honum úr dálítilli fjarlægð. “Ekki einu sinni þó að þú yrðir tvö hundruð fjörutíu og átta ára!”
Dvergurinn sleppti viðarbútnum og færði höndina með rólegri ákveðni frá hnífnum að handfanginu á öxinni sinni um leið og hann starði niður eftir stígnum. Þessi rödd hljómaði kunnuglega, fyrsta kunnuglega röddin sem hann hafði heyrt í langan tíma. En hann kom henni ekki fyrir sig.
Flint pírði augun í átt að sólsetrinu. Honum fannst hann sjá útlínurnar á manni skálmandi upp stíginn. Flint stóð upp og færði sig inn í skuggann af háu barrtré til að sjá betur. Léttur blær einkenndi göngulag mannsins – álfalegur blær, myndi Flint hafa sagt, en samt hafði líkami mannsins þykktina og þéttu vöðvana af manni og skeggvöxturinn var greinilega mannkyns. Það eina sem dvergurinn sá af andliti mannsins var sólbrún húð og rauðbrúnt skegg. Langbogi hékk yfir aðra öxlina og sverð hékk í slíðri við vinstri hlið hans. Hann var klæddur í mjúk leðurföt, vandlega mótuð eftir hinni margbrotnu hönnun sem álfarnir höfðu dálæti á. En enginn álfur á Krynn gat látið sér vaxa skegg… enginn álfur, en…
“Tanis?” sagði Flint hikandi þegar maðurinn nálgaðist.
“Sá sami.” Skeggjað andlit aðkomumannsins klofnaði í breitt bros. Hann breiddi út faðminn og, áður en dvergurinn gat stoppað hann, faðmaði Flint svo fast að hann lyfti honum upp af jörðinni. Dvergurinn faðmaði gamla vin sinn fast að sér í stutta stund, en mundi svo reisn sína og vatt sig úr faðmlagi hálfálfsins.
“Jæja, þú hefur allavega ekki lært neina mannasiði á þessum fimm árum,” nöldraði dvergurinn. “Berð ennþá enga virðingu fyrir aldri mínum eða stöðu. Sveiflar mér um eins og kartöflupoka.” Flint leit niður eftir stígnum. “Ég vona að enginn sem þekkir okkur hafi séð til okkar.”
“Ég efast um að það séu margir sem myndu muna eftir okkur,” sagði Tanis og horfði ástúðlega á þéttvaxinn vin sinn. “Tíminn líður ekki fyrir okkur tvo eins og hann líður fyrir menn. Fimm ár eru langur tími fyrir þá en aðeins sem nokkur andartök fyrir okkur.” Síðan brosti hann. “Þú hefur ekkert breyst.”
“Það sama er ekki hægt að segja um suma.” Flint settist aftur niður á steininn og hélt áfram að tálga. Hann hleypti brúnum í átt að Tanis. “Af hverju skeggið? Þú varst nógu ljótur fyrir.”
Tanis klóraði sér í skegginu. “Ég hef ferðast um lönd sem voru ekki vinsamleg þeim sem hafa álfablóð í æðum. Skeggið – gjöf frá mínum mannlega föður,” sagði hann með kaldhæðni í röddinni, “gerði mér auðveldara að leyna uppruna mínum.”
Flint rumdi. Hann vissi að þetta var ekki allur sannleikurinn. Þó að hann vissi að hálfálfinum bauð við að drepa, þá var Tanis samt ekki sú manngerð sem felur sig fyrir bardaga bak við skegg. Flísar flugu úr viðarbútnum sem hann var að tálga.
“Ég hef ferðast um lönd sem voru ekki vinsamleg neinum.” Flint sneri bútnum í höndunum og skoðaði hann. “En við erum komnir heim núna. Það er allt að baki.”
“Ekki miðað við það sem ég hef heyrt,” sagði Tanis á meðan hann dró hettuna sína aftur yfir andlitið til að hindra sólina í að skína í augun á sér. “Æðstu Leitararnir í Haven skipuðu mann að nafni Hederick til að stjórna sem Háklerkur í Solace, og hann er búinn að breyta bænum í trúarofstækisgróðrarstíu fyrir þessi nýju trúarbrögð sín.”
Tanis og dvergurinn sneru sér báðir og horfðu niður í hljóðlátan dalinn. Ljós voru farin að kvikna hér og þar og gerðu þannig húsin í trjánum sýnileg á meðal vallenviðartrjánna. Kvöldloftið var kyrrt og rólegt og angaði af brennandi viði í heimiliseldunum. Annað veifið heyrðu þeir ógreinilega rödd í móður að kalla á börnin sín í mat.
“Ég hef ekki frétt af neinu illu í Solace,” sagði Flint hljóðlega.
“Trúarlegar ofsóknir… réttarrannsóknir…” röddin í Tanis hljómaði ógnvænleg þegar hún barst svona innan úr hettunni. Hún var dýpri og þungbúnari heldur en Flint minnti. Dvergurinn hleypti brúnum. Vinur hans hafði breyst á þessum fimm árum. Og álfar breytast aldrei! En aftur á móti var Tanis bara hálfálfur – barn ofbeldis, móður hans hafði verið nauðgað af mennskum stríðsmanni í einu af hinum mörgu stríðum sem höfðu aðgreint hina mismunandi kynþætti á Krynn á glundroðaárunum í kjölfar Syndaflóðsins.
“Réttarrannsóknir! Þær eru bara fyrir þá sem bjóða nýja Háklerkinum byrginn, samkvæmt því sem ég hef heyrt.” Flint hnussaði. “Ég trúi ekki á guði Leitaranna – gerði það aldrei – en ég flíka ekki skoðunum mínum úti á götu. Haltu þér saman og þeir láta þig í friði – það er kjörorð mitt. Æðstu Leitararnir í Haven er ennþá vitrir og réttlátir menn. Það er bara þetta eina rotna epli í Solace sem spillir allri tunnunni. En meðan ég man, fannstu það sem þú leitaðir?”
“Einhver merki um gömlu, sönnu guðina?” spurði Tanis. “Eða frið og ró? Ég fór að leita beggja. Við hvort áttu?”
“Tjah, ég geri ráð fyrir að það fylgist að,” drundi í Flint. Hann sneri viðarbútnum í höndunum, ekki enn ánægður með lögun hans. “Ætlum við að standa hér úti í alla nótt og anda að okkur matarlyktinni? Eða ætlum við að koma okkur niður eftir og fá okkur að borða?”
“Koma okkur.” Tanis veifaði hendinni í átt að veginum og þeir lögðu af stað niður brekkuna saman. Tanis tók svo stór skref að dvergurinn þurfti að taka tvö skref fyrir hvert eitt sem Tanis tók. Þó að það höfðu liðið mörg ár síðan þeir höfðu ferðast saman, þá hægði Tanis samt ósjálfrátt á sér á meðan Flint jók hraðann líka ósjálfrátt.
“Svo að þú varðst einskis vísari?” hélt Flint áfram.
“Einskis,” svaraði Tanis. “Eins og við komumst að fyrir löngu, þá þjóna einu klerkarnir og prestarnir á Krynn fölskum guðum. Ég heyrði sögur af lækningum, en það voru allt brögð eða galdrar. Sem betur fer kenndi Raistlin, vinur okkar, mér hvað ber að varast –“
“Raistlin!” másaði Flint. “Sá andlitsföli, horaði bragðarefur. Hann er hálfgerður loddari sjálfur. Alltaf kjökrandi og volandi og með nefið ofan í því sem kom honum ekki við. Ef tvíburabróðir hans hefði ekki alltaf gætt hans svona vel, hefði einhver verið búinn að binda endi á þessa galdra hans fyrir löngu.”
Tanis var þakklátur fyrir að skeggið huldi brosið á andlitinu á sér. “Mér fannst hann nú vera færari töframaður en þú lætur uppi,” sagði hann. “Og þú verður að viðurkenna að hann hafði mikið fyrir því að hjálpa þeim sem platklerkarnir göbbuðu – eins og ég gerði.” Hann andvarpaði.
“Sem þú fékkst án efa litlar þakkir fyrir,” muldraði dvergurinn.
“Mjög litlar,” sagði Tanis. “Fólk langar að hafa eitthvað til að trúa á – jafnvel þó að það viti, innst inni, að það sé ekki það rétta. En hvað um þig? Hvernig var ferðalag þitt til heimalands þíns?”
Flint þrammaði áfram án þess að svara, yggldur á svip. Að lokum muldraði hann, “ég hefði aldrei átt að fara,” og leit síðan upp á Tanis, með augnaráði – varla sýnilegu undir þykkum, hvítum augabrúnunum – sem gaf hálfálfinum til kynna að þessi stefna í samræðunum var ekki velkomin. Tanis sá það en hélt samt áfram.
“Hvað um dvergaklerkana? Sögurnar sem við heyrðum?”
“Ósannar. Klerkarnir hurfu fyrir þrjú hundruð árum í Syndaflóðinu. Eða svo segja öldungarnir.”
“Alveg eins og hjá álfunum,” tautaði Tanis fyrir munni sér.
“Ég sá –“
“Uss!” Tanis hélt hendinni út til viðvörunar.
Flint snarstoppaði. “Hvað?” hvíslaði hann.
Tanis benti. “Þarna í trjáþyrpingunni.”
Flint leit í áttina að trjánum, um leið og hann teygði sig í stríðsöxina sem var spennt aftan á bakið á honum.
Rauðir geislar sólarinnar sem var að setjast spegluðust augnablik í glansandi málmhlut á milli trjánna. Tanis sá það einu sinni, týndi því síðan en sá það síðan aftur. En einmitt á því andartaki sökk sólin á bak við fjöllin og skildi himininn eftir í skínandi fjólubláum lit en olli um leið skuggum næturinnar til að læðast gegnum skóginn.
Flint pírði augun inn í myrkrið. “Ég sé ekkert.”
“Ég sá eitthvað,” sagði Tanis. Hann hélt áfram að stara á staðinn þar sem hann hafði séð málminum bregða fyrir, og smám saman fór álfasjónin hans að taka greina hlýju rauðu áruna sem umlykur allar lifandi verur en er aðeins sýnileg álfum. “Hver fer þar?” kallaði Tanis.
Eina svarið í drykklanga stund var óhugnanlegt hljóð sem fékk hárið til að rísa á hnakka hálfálfsins. Það var holt, suðandi hljóð sem var fyrst djúpt, en hækkaði svo og hækkaði þangað til það varð smám saman að háu, æpandi ýlfri. Rísandi með því, kom rödd.
“Álfaferðalangur, snúðu af leið þinni og skildu dverginn eftir. Við erum andar þeirra aumu sála sem Flint Fireforge skildi eftir á kráargólfinu. Dóum við í bardaga?”
Rödd andans reis ennþá hærra, og það sama gerði ýlfrandi, suðandi hljóðið sem fylgdi henni.
“Nei! Við dóum úr skömm, bölvaðir af vofu vínviðarins fyrir að hafa ekki getað drukkið meira en hæðadvergur.”
Skeggið á Flint titraði af reiði, og Tanis, sem hafði skellt upp úr af hlátri, varð að grípa í öxlina á reiðum dvergnum til að hindra hann í að fleygja sér inn í runnann .
“Bölvuð séu augu álfanna!” Draugaleg röddin tók á sig glaðlegan blæ. “Og bölvuð séu skegg dverganna!”
“Ég hefði mátt vita þetta!” Flint stundi. “Tasslehoff Burrfoot!”
Það heyrðist dauft skrjáf í kjarrinu, síðan stóð lítil vera á stígnum. Það var kender, einn af kynþætti fólks sem af mörgum á Krynn var talinn vera jafn mikil plága og moskítóflugur. Kenderar voru smábeinóttir að eðlisfari og urðu sjaldan meira en hundrað og tuttugu sentimetrar á hæð. Þessi tiltekni kender var á hæð við Flint, en smágerður líkaminn og eilífi barnalegi svipurinn á andlitinu á honum gerði það að verkum að hann virtist vera minni. Hann var í skærbláum joggingbuxum sem stungu algerlega í stúf við loðið vestið og látlausan, heimagerðan kyrtilinn. Það brá fyrir glettnisglampa í brúnum augunum og brosið virtist ná út í enda á báðum oddmjóum eyrunum. Hann beygði hausinn í uppgerðarhneigingu, þannig að síður skúfur á brúnu hári – stolt hans og gleði – féll fram yfir nefið á honum. Síðan rétti hann úr sér, skellihlæjandi. Málmhluturinn sem Tanis hafði séð glampa á var sylgja á einum af mörgum pokum sem voru gyrtir um mitti hans og axlir.
Tas brosti til þeirra og hallaði sér fram á húpakstafinn sinn. Það var þessi stafur sem hafði búið til þetta óhugnanlega hljóð. Tanis hefði átt að bera kennsl á það undir eins, eftir að hafa séð kenderinn hræða frá marga árásarmenn með því að sveifla stafnum út í loftið og búa til þetta æpandi ýlfur. Húpakstafurinn var uppfinning kendera og var þannig úr garði gerður að neðri endinn var koparklæddur og beittur en á efri endann var fest teygjubyssa. Stafurinn sjálfur var gerður úr einu sveigjanlegu pílviðarpriki. Þó að engum öðrum kynþætti á Krynn þætti mikið til stafsins koma, þá var húpakstafurinn meira en nytsamlegt tól eða vopn fyrir kendera – hann var einkennistákn þeirra. “Nýjar götur þurfa húpak,” var vinsæll málsháttur meðal kendera. Honum var alltaf fylgt eftir með öðrum málshætti: “Engin gata er nokkurn tíma gömul.”
Tasslehoff tók skyndilega á rás með opinn faðminn.
“Flint!” Kenderinn fleygði örmunum utan um dverginn og faðmaði hann að sér. Flint fór hjá sér og endurgalt faðmlagið treglega, en steig síðan fljótt aftur á bak. Tasslehoff glotti og leit upp á hálfálfinn.
“Hver er þetta?” Hann tók andköf. “Tanis! Ég þekkti þig ekki með þetta skegg!” Hann teygði út stutta handleggina.
“Nei, þakka þér fyrir,” sagði Tanis, brosandi. Hann ýtti kendernum frá sér. “Mig langar að halda peningapyngjunni minni.”
Flint var skyndilega órólegur á svipinn og teygði hendina inn undir kyrtilinn sinn. “Hrekkjalómurinn þinn!” öskraði hann og stökk á kenderinn, sem veltist um af hlátri. Þeir voru umluktir rykskýi.
Tanis byrjaði hlæjandi að draga Flint af kendernum. Síðan hætti hann og sneri sér við felmtri sleginn. Hann heyrði of seint glamrið í reiðtygjunum og beislinu og henggið í hestinum. Hálfáflurinn greip um meðalkaflann á sverðinu sínu, en hann hafði þegar misst það forskot sem hann hefði getað áunnið sér með því að vera á verði.
Tanis bölvaði í hljóði en gat ekkert gert nema standa og stara á veruna sem kom í ljós úr skuggunum. Hún sat lítinn, fótloðinn smáhest sem tölti með höfuðið niður eins og hann skammaðist sín fyrir reiðmann sinn. Grátt flekkótt hold lafði í lögum á andliti reiðmannsins. Tvö svínbleik augu störðu á þá undan hermannahjálmi. Feitur linur líkaminn lak út á milli parta af íburðarmikilli, hégómlegri brynju.
Einkennileg lykt barst að vitum Tanis og hann gretti sig af viðbjóði. “Drýsill!” skráði heilinn hans. Hann losaði um sverðið sitt í slíðrinu og sparkaði í Flint, en um leið hnerraði dvergurinn kröftuglega og settist ofan á kenderinn.
“Hestur!” sagði Flint og hnerraði aftur.
“Fyrir aftan þig,” svaraði Tanis hljóðlega.
Flint heyrði viðvörunartóninn í rödd vinar síns og brölti á fætur. Tasslehoff var fljótur að gera það sama.
Drýsillinn sat klofvega á smáhestinum og horfði á þá með hrokafullum fyrirlitningarsvip á flötu andlitinu. Síðustu geislar sólarinnar spegluðust í bleikum augunum.
“Sjáði, strákar,” sagði drýsillinn á almenna tungumálinu með þykkum hreimi, “hvers konar fábjána við erum að fást við hérna í Solace.”
Það barst háðslegur hlátur innan úr trjánum fyrir aftan drýsilinn. Fimm svartálfaverðir, klæddir í grófgerða einkennisbúninga, komu gangandi út úr skógarþykkninu. Þeir tóku sér stöðu umhverfist hest leiðtoga þeirra.
“Jæja…” Drýsillinn hallaði sér fram í sætinu. Tanis fylgdist með í eins konar ömurlegri hrifningu þegar risastór ýstra skepnunnar huldi hnakknefið eins og það lagði sig. “Ég heiti Fewmaster Toede, foringi þess liðs sem sér um að halda óæskilegu fólki frá Solace. Þið hafið engan rétt til að þvælast um á útjaðri borgarinnar eftir sólsetur. Hér með eruð þið handteknir.” Fewmaster Toede hallaði sér niður að einum svartálfinum. “Færðu mér bláa kristalstafinn ef þú finnur hann á þeim,” sagði hann á kvakandi svartálfatungumálinu. Tanis, Flint og Tasslehoff litu hver á annan spurnaraugum. Þeir skildu allir dálítið í svartálfatungu – Tas meira en hinir. Hafði þeim misheyrst? Blár kristalstafur?
“Ef þeir veita mótspyrnu,” bætti Fewmaster Toede við á almenna tungumálinu til að ná sem mestum áhrifum, “þá drepiði þá.”
Að því loknu kippti hann í tauminn, sló reiðskjóta sinn með pískrinum og þeysti niður stíginn í átt að bænum.
“Svartálfar! Í Solace! Þessi nýji Háklerkur hefur mikið á samviskunni.” Flint hrækti á jörðina. Hann teygði sig upp, dró stríðsöxina sína úr hulstrinu á bakinu, kom fótunum í fastar skorður á stígnum og ruggaði sér fram og aftur þangað til hann hafði náð góðu jafnvægi. “Jæja,” kallaði hann. “Komiði þá.”
“Ég ráðlegg ykkur að hörfa,” sagði Tanis, um leið og hann fleygði yfirhöfninni sinni yfir aðra öxlina og brá sverðinu á loft. “Við eigum langt ferðalag að baki. Við erum svangir og þreyttir og seinir á stefnumót við vini sem við höfum ekki hitt í langan tíma. Við höfum alls ekki í hyggju að vera teknir fastir.”
“Eða drepnir,” bætti Tasslehoff við. Hann hafði ekki brugðið neinu vopni en stóð og einblíndi á svartálfana af áhuga.
Þetta virtist koma heldur flatt upp á svartálfana og þeir litu hver á annan ráðvilltir á svip. Einn þeirra horfði reiðilega í þá átt sem foringi hans hafði horfið. Svartálfarnir voru vanir að kúga farandsala og bændur á leið til litla bæjarins – ekki að skora á augljóslega færa bardagamenn. En hatur þeirra í garð annarra kynþátta á Krynn réði úrslitum. Þeir brugðu löngum, bognum sverðum sínum.
Flint æddi áfram um leið og hann greip föstum tökum um handfangið á öxinni. “Það er aðeins ein tegund af skepnum sem ég hata meira en ræsisdverga,” muldraði hann, “og það eru svartálfar!”
Svartálfurinn steypti sér á Flint í von um að ná að fella hann. Flint sveiflaði öxinni sinni af mikilli nákvæmni á hárréttu augnabliki. Svartálfahaus rúllaði í burtu og líkaminn féll líflaus í götuna.
“Hvað eru úrhrök eins og þið að gera í Solace?” spurði Tanis um leið og hann varðist klaufalegri stungu frá öðrum svartálfi af færni. Sverðin mættust og héldust andartak, en síðan hrinti Tanis svartálfinum aftur á bak. “Vinniði fyrir Háklerkinn?”
“Háklerkinn?” Svartálfurinn öskraði af hlátri. Hann sveiflaði sverðinu út í loftið og hljóp að Tanis. “Þann erkihálfvita? Hann Fewmaster okkar vinnur sko fyrir – ugh!” Skepnan rak sig í gegn á sverði Tanis. Hún stundi og rann svo af sverðinu á jörðina.
“Fjárinn!” Tanis blótaði og starði vonsvikinn á dauðan svartálfinn. “Þessi klaufalegi fáviti! Ég ætlaði ekki að drepa hann – bara komast að því hver réð hann.”
“Þú munt komast að því hver réð okkur – fyrr en þú myndir kjósa!” urraði annar svartálfur og æddi að óviðbúnum hálfálfinum. Tanis sneri sér undir eins og afvopnaði skepnuna. Hann sparkaði í magann á henni svo að svartálfurinn valt um koll.
Annar svartálfur stökk á Flint áður en dvergurinn hafði náð sér eftir banvæna sveifluna. Hann riðaði aftur á bak og reyndi að ná jafnvægi.
Þá kallaði Tasslehoff með sinni skæru rödd: “Þessi úrhrök myndu berjast fyrir hvern sem er, Tanis. Ef maður hendir smá hundamat til þeirra annað veifið verða þeir þínir að eilíf –“
“Hundamat!” Svartálfurinn orgaði og sneri sér frá Flint í bræði sinni. “Hvað um kenderakjöt, þú þarna litla tístudýr!” Svartálfurinn kjagaði í áttina að að því er virtist óvopnuðum kendernum og teygði út hendurnar til að ná taki á hálsinum á honum. Tas teygði sig inn undir ullarvestið sitt, dró fram hníf, og kastaði honum – allt í einni hreyfingu, án þess að tapa saklausa barnalega svipnum af andlitinu. Svartálfurinn greip um bringuna á sér og féll stynjandi til jarðar. Það heyrðist skvabbandi fótatak þegar síðasti svartálfurinn flúði. Bardaginn var yfirstaðinn.
Tanis slíðraði sverðið sitt og gretti sig af viðbjóði yfir líflausum líkunum, fnykurinn minnti hann á úldinn fisk. Flint þurrkaði svart svartálfablóð af axarblaðinu sínu. Tas starði með eftirsjá á líkið af svartálfinum sem hann hafði drepið. Hann hafði dottið á magann svo að hnífurinn hans var grafinn undir honum.
“Ég skal ná honum fyrir þig,” bauð Tanis og bjó sig undir að velta líkinu við.
“Nei.” Tas geiflaði sig. “Ég vil ekki fá hann aftur. Maður losnar aldrei við lyktina, eins og þú veist.”
Tanis kinkaði kolli. Flint festi öxina sína aftur í hulstrið, og þeir þrír héldu áfram niður stíginn.
Ljósin í Solace urðu bjartari eftir því sem dimmdi. Ilmurinn af viðarreyk í köldu næturloftinu minnti þá á mat og hlýju – og öryggi. Félagarnir hertu á göngunni. Þeir sögðu ekkert í langan tíma, allir þrír heyrðu orð Flints bergmála inni í hausnum á sér: Svartálfar. Í Solace.
Að lokum, aftur á móti, flissaði kenderinn, sem lét ekkert koma sér í vont skap.
“Auk þess,” sagði hann, “var þetta hnífurinn hans Flints!”