Ég var að lesa bókina Óvinafagnað fyrir íslensku í skólanum.
Þessi bók kom mér virkilega óvart. Hún byrjar á því að Þórður Kakali fréttir af dauða Sturlunganna (fjölskyldu sinnar) og snýr heim frá Noregi. Bókin er um heimkomu hans og hvernig hann ætlar sér að leysa allt á friðsamlegan hátt án þess að fá tækifæri til þess og þá er bara að grípa til vopna.
Bókin kom mér sérstaklega á óvart vegna þess hvernig henni var skipt, “kaflarnir” eru mjög stuttir (nokkrar blaðsíður) og er upplifun eins einstaklings tekin fyrir í hverjum kafla, t.d. byrjar bókin á kafla sem heitir Þórður og þá er Þórður að tala, næsti kafli heitir Halldóra og þar talar Halldóra, mamma Þórðar - þriðji kaflinn heitir svo Þórður og þar talar Þórður aftur o.s.frv.
Helsti kostur bókarinnar er að hún er skrifuð á nútíma-íslensku og er þar afleiðandi auðlesin.
Ég mæli óhikað með þessari bók, hún er ekki bara um íslenska fornsögu heldur er hún líka mjög skemmtileg. Ég gat allavega ekki slitið mig frá henni og það var gaman að vita hvernig fór fyrir Svarthöfða, Þórði og Kolbeini unga í endann.
Ég held að það ætti að gefa út fleiri bækur með svipaðri uppskrift - þ.e. íslenskar fornsögur á nútímamáli. Þessi bók vakti allavega áhuga minn á íslenskum fornsögum en því miður finnst mér mjög leiðinlegt að lesa þessa forníslensku sem t.d. Egils saga og Njála eru skrifaðar á.