Efnisyfirlit:
• Inngangur bls 2
• Endursögn sögunnar bls 2
• Umfjöllun um höfund bls 4
• Frásagnaraðferð bls 5
• Bygging bls 5
• Persónur bls 6
• Tími bls 8
• Umhverfi bls 8
• Stíll bls 9
• Minni og tákn bls 9
• Álit bls 10
• Boðskapur bls 10
Sjálfstætt fólk
Sjálfstætt fólk fjallar fyrst og fremst um Guðbjart Jónsson, sem ævinlega var kallaður Bjartur. Eftir margra ára þrotlausa vinnu á Útirauðsmýri tekst honum að festa kaup á Sumarhúsum, eyðibýli á heiðinni. Sagan er skrifuð af Halldóri Kiljan Laxness sem við munum fjalla um síðar.
Sagan sjálfstætt fólk byrjar á lítilli sögu, um Kólumkilla og Gunnvöru, til að útskýra draugagang á heiðinni. Segir þar meðal annars frá dys Gunnvarar, sem fólk kastar steinum í, í þeirri trú um að draugur hennar láti fólk vera þegar það ferðast yfir heiðina.
Svo víkur sögunni að Bjarti, sem er að tala við tíkina sína. Bjartur er maður með mikið stolt og biður engann um hjálp, nema með því að borga fullt gjald fyrir.
Hann giftist Rósu, konu sem var í vist hjá hreppstjóranum á Útirauðsmýri. Þau flytja svo í kot Bjarts, Sumarhús, sem hann hefur keypt af hreppstjóranum.
Hjónabandið, miðað við nútímann, gengur alveg afskaplega stirðlega. Vandræðin byrja strax á heimleið frá giftingarveislunni. Rósa vill kasta steini í dys Gunnvarar, en Bjartur bannar henni það, enda trúir hann aðeins á sjálfan sig og ærnar.
Þegar göngur byrja, og Bjartur ætlar að leggja af stað, neitar Rósa að verða ein eftir. Hún hótar að fara á aðra bæi og leita félagsskaps þar, og bregst Bjartur mjög illa við því. Lyktar málum þannig að Bjartur sækir eina gimbur, sem Rósa getur notið félagsskapar með. Þegar hann svo er farinn, verður Rósa sturluð af hræðslu vegna slæms veðurs og hávaða í kindinni. Hún telur sjálfri sér trú um að þar sé einhver draugur á ferð, og að kindinn sé haldin illum öndum. Hún felur sig undir sænginni alla nóttina, hálf meðvitundarlaus af hræðslu. Þegar hún svo vaknar, fer sækir hún ljáinn og slátrar kindinni án þess að hika. Þegar Bjartur snýr aftur, segir hún honum að kindin hafi hlaupist á brott. Hann heldur að kindin hafi lifað af, enda af hinu fræga séra Guðmundar kyni, sem þótti einstaklega gott kyn kinda.
Því fer hann seinna í ferðalag til að leita að kindinni. Fer þó ekki betur en svo að hann strandar vitlausu megin Jökulsár á Heiði og er að heiman í 5 daga.
Þegar hann svo kemur heim hefur konan fætt barn, og dáið út frá því. Barnið hélt þó lífi, og var það líklegast tíkinni gulu að þakka, sem hélt hita á barninu.
Bjartur fær þá hjálp frá Útirauðsmýri, og tekst að bjarga barninu sem hann nefnir Ástu Sóllilju.
Séra Guðmundur lætur Bjart fá tvær konur til að hjálpa sér, unga konu og móður hennar, Finna og Hallbera sem reynast honum mjög vel, og eignast Bjartur 3 syni með Finnu. Þeir hétu Helgi, Gvendur og Jón. Seinna deyr Finna útfrá veikindum, en synirnir kenna Ástu um. Ásta á að hafa haldið sig innifyrir og í hlýjum klæðnaði meðan Finna klæddi sig afar illa og vann mjög mikið útifyrir þrátt fyrir veikindi sín.
Seinna gerist það að Helgi, elsti sonurinn, fer upp á heiði og verður þar úti.
Því næst byrja undarlegir atburðir að gerast á Sumarhúsum. Fé Bjarts er misþyrmt á hrottalegan hátt, og missir hann mikið af fé. Sögusagnir ganga manna á milli að þar sé draugur að verki.
Bjartur nær því næst í kennara handa börnunum þremur. Kennarinn virðist vera góður maður, en reynist vera allt annar eftir að hafa eytt smávegis af tíma sínum í kotinu. Hann er veikur stóran hluta vistarinnar og gerir meðal annars Ástu ólétta.
Jón, sonur Bjarts, fer til Bandaríkjanna en ólétta Ástu uppgötvast á Útirauðsmýri þar sem hún stundar fermingarfræðslu.
Bjartur bregst vægast sagt mjög illa við þessum fregnum, lemur Ástu og rekur hana að heiman. Hún neyðist til að labba til byggða á sokkaleistunum. Þar hittir hún skáld, flytur inn til hans og mömmu hans og eignast með honum annað barn stuttu seinna.
Gvendur, miðsonurinn fær bréf frá Ameríku sem inniheldur vænan pening og bréf.
Í bréfinu er honum lofað öllu góðu ef hann bara kæmi til Ameríku. Hann ákveður að slá til og fara til Ameríku daginn eftir. En í kaupstaðnum hittir hann dóttur þingmanns. Dregur hún hann á tálar, fer með hann upp á heiði og skilur hann þar eftir. Missir hann af skipinu og fer því aftur heim. En stelpa þessi elskaði hann aldrei, þótti hann aðeins áhugaverður vegna hugsanlegs ferðalags til Ameríku.
Bjartur ákveður að byggja sér hús á jörð sinni, en það kostar hann mikið og ekki varð húsið gott. Einnig réð hann sér ráðskonu sem hann svo rak þegar í ljós kom að hún hafði keypt ýmsar nauðsynjar og þannig sært stolt Bjarts.
Núna var Bjartur orðinn stórskuldugur, enda með ónýtt hús og stríðið búið. Stríðið hafði í raun séð fyrir öllu þar sem bændur gátu selt kindur á okurverði. Núna fengu þeir ekkert fyrir þeirra búskap og því varð Bjartur að selja jörðina á nauðungaruppboði. Einnig flutti maður Ástu frá henni.
Hallbera átti jörð og fluttu þau þangað eftir að Bjartur hafði gert gamla kotið hennar upp. Var það þó ekki annað en rústir. Í einni kaupstaðaferð sinni, tók hann Bjartur Gvend með sér, en skildi hann þar eftir hjá verkfallsmönnum. Í þessari sömu ferð hitti Bjartur Ástu eftir margra ára aðskilnað og flutti hún til hans, með dætrum sínum og tengdamóður. Þannig endar sagan á því að Bjartur er einn eftir með fárveikri dótur sinni, 2 börnum hennar, 2 öldruðum konum og 26 ára gömlum hesti.
Sjálfstætt fólk var skrifað af Halldóri Guðjónssyni sem fæddist í Reykjavík þann 23. apríl 1902. Þegar Halldór er á þriðja ári, flyst fjölskylda Halldórs frá Laugavegi til Laxness í Mosfellssveit. Halldór kenndi sig síðar við bæinn en Kiljan nafnið kom ekki fyrr en hann lét skíra sig til kaþólskrar trúar. Árið 1918 hóf Halldór nám við Menntaskólann í Reykjavík. Ári síðar kemur út hans fyrsta bók er nefndist Barn náttúrunnar en þá er Halldór 17 ára gamall. Bókin hlaut lofsamlega dóma og menn spáðu Halldóri miklum frama. Halldór var mjög ferðaglaður og heimsótti margan staðinn, dvaldist t.d. í tvö ár í munkaklaustri í Luxemborg, kom við í Los Angeles þar sem hann reyndi fyrir sér sem handritshöfundur í Hollywood, skrifaði meðal annars Alþýðubókina þar, kíkti í kommúnista Rússland, sem fékk hann til að missa trúnna á kommúnisma, ferðaðist um á Ítalíu og fór til Kína í leit að munkaklaustri sem fann hann. Alls gaf Halldór út 62. bækur ásamt smásögum, ljóðum, ritgerðum og alls kyns bréfum.
Halldór Laxness var einnig mjög virkur í þjófélagslegri umræðu og harður andstæðingur herstöðvarinnar. Hans mesta afrek á glæstum ferli er án vafa bókmenntaverðlaun Nóbels sem Halldór hlaut árið 1955. Hans rómuðustu verk eru Sjálfstætt fólk, Salka Valka, Íslandsklukkan og Kristnihald undir jökli svo fátt sé nefnt. Halldór lést 8. febrúar árið 1998, hann var 95 ára er hann lést.
Halldór notast við 3. persónu frásögn í Sjálfstæðu fólki. Hann notar hlutlæga lýsingu til að segja frá atburðum sem hafa áhrif á gang mála.
Sagan notast við hina hefðbundnu efnisskiptingu, sem eru: a) kynning aðstæðna, b) flækja, c) ris og d) lausn.
Hún byrjar á kynningu aðstæðna, þar sem draugaganginum á Sumarhúsum er lýst. Svo er farið inn í flækjuna, sem er brúðkaup Bjarts og eftirmálar þess. Dauði Rósu, sem og fæðing Ástu Sóllilju er svo risið í sögunni og tap Sumarhúsa svo lausnin.
Bókin er kaflaskipt og er í heild 74 kaflar. Annars er henni skipt í 4 lög, sem skiptast svoleiðis þar sem Halldór skrifaði söguna í 4 hlutum og tók sér smávegis frí á milli.
Persónurnar í sögunni eru eins og hér segir:
Kólumkilli
Í sögunni segir að áður en norrænir menn komu hingað til lands hafi verið hér fyrir menn frá Írlandi. Þetta áttu að hafa verið heiðnir menn sem voru galdramenn. Fyrirliði þessara manna hét Kólumkilli og er sagt að hann hafi lagt bölvun á þessa menn sem tóku af þeim þetta land.
Gunnvör
Gunnvör er sögð hafa búið á Albogastöðum í Heiði sem er sá staður sem Bjartur á eftir að
kaupa. Þessi kona er sögð hafa verið “hneigð til forneskju”. Gunnvör á að hafa drepið nokkur af börnum sínum vegna þess að þau ólust ekki rétt upp og drukkið blóð úr þeim sem lifðu af. Talið var að hún hafi verið illkvendi mikið.
Bjartur
Er aðalpersónan í sögunni. Hann fór á Útirauðsmýri þegar hann var 18 ára og vann þar í 18 ár meir og átti þá nóg fyrir því að kaupa bæinn Vetrarhús sem hann svo skírði Sumarhús. Hann giftist Rósu í sömu mund og hann flytur í Sumarhús. Bjartur er maður sem reynir alltaf að leita að sjálfstæði í lífinu. Hann eignast 1 dóttur með Rósu sem heitir Ásta Sóllilja. Eftir andlát Rósu giftist hann Finnu og eignast með henni 3 syni. Hann hrekur burt Ástu í sögunni en finnur hana svo aftur er allir synirnir hans eru farnir í burtu.
Rósa
Er fyrri kona Bjarts, hún var í vist á Útirauðsmýri og hitti Bjartur hana þar. Þau giftast þegar Bjartur er að flytja til Sumarhúsa. Hún hafði litlar mætur á þessu sveita- og fjárdýrkun Bjarts og vildi helst komast þaðan. Ekki sýndi Bjartur mikla ástúð til hennar nema í einu tilviki, þegar Bjartur fer að leita að kindinni og segir við Rósu. “Vertu nú sæl, rósin mín“. Þegar Bjartur fer að leita að kindinni er Rósa ófrísk með Ástu Sóllilju, en þegar Bjartur kemur aftur er Rósa dáinn.
Ásta Sóllilja
Ásta er dóttir Bjarts og Rósu. Hún er lagleg telpa, og hafði verið alin upp við mjög gott bókmenntavit. Hún laðast að kennara sínum sem átti að kenna henni svo hún gæti fermst. En þau löðuðust nú að hvoru öðru og varð Ásta ólétt af því ævintýri. Hún leynir þessu fyrir föður sínum en þegar hún var í fermingarfræðslu í Útirauðsmýri þá sá fólkið á bænum að hún var ólétt. Þegar faðirinn fréttir þetta, slær hann hana og Ásta hleypur á brot úr dalnum. Hún giftist listamanni og eignast annað barn með honum. Hún hittir Bjart ekki aftur fyrr en í endi sögunnar þegar hún er orðin veik og í endanum þarf Bjartur að halda á henni áleiðis til þeirra nýju heimkynna.
Finna og Hallbera
Þau koma í söguna vegna þess að þau eru hjá séra Guðmundi eftir að eiginmaður Hallberu er dáinn og þau hröktust úr bænum þeira. Séra Guðmundur gefur Bjarti þær til þess að losna við þær úr sínum húsum. Bjartur giftist þeim bara vegna þess að hann þurfti nú að ala upp dóttur sína og þurfti hann hjálp við það. Ekki lætur Bjartur mikið í ljós að hann elski hana Finnu. Hallbera er móðir Finnu og lætur sem Ásta sé barnabarn sitt og eru þau nokkuð náin.
Helgi
Helgi er elsti sonur Bjarts og Finnu. Hann verður mjög andsnúinn föður sínum og kennir henni Ástu um það að faðir hans gaf henni kápu en ekki móður sinni. Telur hann að móðir sín hafi orðið veik útaf því og dáið.
Gvendur
Gvendur er miðsonur Bjarts og Finnu. Gvendur er rólegi strákurinn og er oftast að lenda á milli í rifrildum bræðra sinna. Hann er sá eini sem á eftir að vera hjá föður sínum þar til í lokin þegar Bjartur lætur hann vera eftir hjá verkfallsmönunum. Gvendur átti einu sinni tækifæri í að fara til Ameríku en í hafnarbænum lokkar fögur stelpa hann upp á heiði og skilur hann svo þar eftir og missir þá Gvendur af skipinu til Ameríku.
Jón
Jón er yngsti sonur Bjarts og Finnu. Jón er mesti draumóramaðurinn í fjölskyldunni. Hann er mjög náinn bróður sínum Helga og sést það er Gvendur og Helgi
lenda í rifrildi vegna föður síns, að hann stendur með Helga. Kennarinn þeirra skrifaði bréf til frænku þeirra og stendur þar að hún ætti að reyna að koma honum til Ameríku.
Hún gerir það og siglir Jón svo til Ameríku.
Rauðsmýrarkonan.
Hún kemur oft við sögu þegar Bjartur lendir í vandamálum og kemur hún oft að hjálpa honum. Bjartur afþakkar þeim þó eiginlega alltaf þegar hún bauð honum hjálp en fór oftast til þeirra í hjálparleit. Þó hún komi mikið við sögu, á hún sér ekki nafn í sögunni.
Sagan gerist á Austurlandi þó að ekki séu nákvæm hnit gefin upp á staðsetningu kotsins. Þó má gera ráð fyrir að kotið sé vestan megin við Jökulsá. Sagan gerist í hinu íslenska bændasamfélagi sem hafði haldist nokkuð óbreytt í nokkrar aldir. Vistarbandið er enn við lýði og stórbændur ráða ferðinni, eða réttara sagt bremsunni þar sem að þeir komu í veg fyrir þéttbýlismyndun og öðrum framþróunum í landinu. Karlar ráða ríkjum og konurnur voru óhikað hið veikara kyn sem átti að halda kjafti og sinna skyldum sínum. Mikil fátækt og stöðnun ríkti í landinu og var Ísland nokkuð á eftir öðrum nágrannaþjóðum hvað varðar tækni og skipulag. Í bók Halldórs virðist lýðurinn ekki vera sérstaklega iðinn við að rækta trúnna þrátt fyrir að flest allir gátu hreytt út úr sér einum til tveimur Passíusálmum.
Sagan gerist sa.1899-1921. Eins og áður kom fram ríkti mikil fátækt í landinu á þessum tíma þótt að þetta hafi verið róstursamir tímar. Sjálfstæðisbaráttan var í fullum gangi ásamt vélvæðingu skipaflotans, kvenréttindabaráttan, verkalýðsbaráttan og fólks-flutningar til vesturheima voru einkennandi ásamt stofnunum kaupfélaga og þéttbýlið jókst. Ísland fékk heimastjórn(1904) og loks fullveldi(1918) svo má ekki gleyma fyrri heimsstyjöldinni sem setti svip sinn á söguna.
Sjálfstætt fólk kom út í tveimur bindum haustin 1934 og 1935 en hvort bindi skiptist í tvo hluta eða bækur. Sagan var í bígerð árum saman. Halldór Laxness langaði til að skrifa lofgjörð um íslenska kotunginn eins og hann sagði og árið 1920 birtist smásagan Þórður í Kálfakoti i Berlinske tidende. Landnámsmaður Íslands og Heiðin voru skrifaðar á Laugarvatni og í Barcelóna árið 1933. Skuldlaust bú og Erfiðir tímar voru skrifaðar í Barcelóna, Kaupmannahöfn, Róm og Nice á árunum 1933-1935. Veltiár og Sögulok voru skrifaðar í Reykjahlíð og á Laugarvatni árið 1935. Erfiðlega gekk að fá bókina gefna út á Íslandi. Að lokum fékkst Eggert P. Briem bóksali til að gefa hana út en Menningarsjóður stóð á bak við tjöldin og sá um fjárhagshliðina.
Ef nöfnin í Sjálfstæðu fólki eru skoðuð, má glögglega sjá að Bjartur ber nafn sem er tengt birtu og bjartsýni. Ásta Sóllilja minnir á ástina og fleira sem tengist fegurð. Ingólfur Arnarsson Jónsson ber nafn landnámsmannsins fræga.
Bjartur í Sumarhúsum er mótaður af íslenskri náttúru, aldarlangri einangrun, lífsbaráttu þrjátíu ættliða og stríði við kúgunaröfl. Þessi fátæki, einþykki einyrki, sem fórnar öllu fyrir drauminn um sjálfstæði, táknar því íslensku þjóðina, hvernig hún hefur gengið í gegnum súrt og sætt í gegnum aldirnar og reynt að berjast fyrir sjálfstæði sínu.
Stíleinkenni Laxnesar er, eftir því sem að undirritaðir best vita, mikið undan hans rifjum komið, en þó finnst okkur hann sækja einstaka stíl í fornsögurnar. Halldór notar mikið af einskonar málsháttum sem hann tvinnar inn í söguna á skemmtilegan hátt.
Það er dálítil einþykkja í honum hvað stíl hans viðkemur því í raun og veru er hann að skrifa sögur með ,,hans útgáfu”af íslenskri stafsetningu, þó við séum ekki nógu fróðir um hvernig íslenskri stafsetningu var háttað fyrir rúmlega hálfri öld síðan. Þó megum við til með að benda á nokkur atriði. Til að mynda skrifar hann orðið skemmtun með einu M-i, ,,Hann gengur áfram” Þar sem sögnin að ganga er skrifað geingur. Máli okkar til enn frekari stuðnings langar okkur til að vísa í brot úr kafla 16. Rímnakvæði:
-,,Fari ég þá í helvíti, sagði Bjartur, þar sem hann var staðinn upp í fönninni og hafði hrundið hinum tálarfullu hvílubrögðum þessarar siðspiltu drotníngar, eða hefur nokkur heyrt frá því sagt að hetjur rímnanna hafi látið tæla sig til hórdóms og frillulifnaðar og til þeirrar ragmensku í stríði sem jafnan einkennir þá sem mestar eru hetjur í faðmi kvenna? Slíkt skyldi aldrei spyrjast um Bjart í Sumarhúsum að hann hefði snúið bakinu við óvinum sínum á miðjum vígvellinum til þess að leggjast einu skitnu drotníngargægsni. Nú var hann reiður. Hann braust um hatramlega í snjónum og barði sér af öllum kröftum, settist ekki aftur um kyrt fyren hann hafði borið sigurorð af öllum þeim tilfinníngum líkamans sem kalla á hvíld og munað, öllu sem mælir með uppgjöf og hlýðir á fortölur hinna undanhaldssömu ragna. Þegar hann hafði barist þannig leingi stakk hann gaddfreðnum blómursiðrunum inní buxnaklaufina sína og þíddi þau á berum sér, stýfði þau síðan úr hnefa í myrkri þessarar harðfylgnu skammdegisnætur og át hríðina sem viðbit.”
Í þessu broti má greina nokkur orð sem ekki væru viðurkennd af neinum íslenskukennara ef einhver nemandi ætlaði að vera sniðugur eða einfaldlega vissi ekki betur. Þar má sem dæmi nefna orðin Drotníng, Drotníngargægsni, Kyrt, Fyren, Tilfiníngum, Leingi, Blómursiður, Inní. Eftir að hafa lesið nokkur verk eftir Halldór Laxnes þá mætti telja að hann skrifi orðin meira eins og þau eru sögð. Það er að segja við segjum ,,Hann geingur leingi” og ,,Það er lángt síðan” nema hvað að flest allir Íslendingar tala um blóðmör en ekki blómur. Þetta olli talsverðu fjaðrafoki í den, þar sem málfræðingar voru æfareiðir vegna þessa. Einnig var reynt að kæra Halldór vegna þessarar stafsetningar, en málið var ekki tekið fyrir. En utan þess er eitthvað til í þessu stafsetningar-stíleinkenni hans þó það það komi samt aldrei í staðinn fyrir þetta fallega mál og stafsetningu sem við höfum skapað okkur hér á landi í gegnum aldirnar.
Sjálfstætt fólk er eins og samsetning margra gerða sagna, hún er allt í senn, fyndin, sorgleg, óhugnanleg og raunveruleg. Okkur fannst frábært hvernig stolt Bjarts kom honum í klípu hvívetna, en einnig hversu harðgerður hann var og hélt sér þannig á lífi þrátt fyrir mikla erfiðleika. Skemmtilegt fannst okkur hvernig Halldór lék sér með orðin og bjó til ýmsa litla málshætti og frábær samtöl. Bókin kom í raun skemmtilega á óvart þar sem við bjuggumst við leiðinlegri lesningu miðað við umsögn annarra nemenda. Það gat jafnvel verið erfitt að slíta sig frá henni á kvöldin og bitnaði það helst á öðrum áföngum. Fólk ætti kannski að gefa sér tíma í lesninguna þar sem þetta er mikið efni, og ekki beinlínis hentugt til lesningar yfir helgi, eins og sumir fengu að kynnast. Það að lesa þessa bók var hvatning til að taka meira efni eftir Halldór, en þá aðeins léttara efni eins og smásögusafn eftir hann.
Við teljum boðskapinn vera þann að fólk geti ekki lifað af án þess að fá hjálp frá öðrum. Það er það sem gerir okkur að manneskjum, og það að reyna að loka sig af frá umheiminum til þess eins að verða eins sjálfstæður og hægt er, er illmögulegt. Það er það sem Bjartur reyndi og það fór illa með þá sem komust nálægt honum. Það er nákvæmlega ekkert að því að leita til annara í neyð, það er í raun nauðsynlegt fyrir báða aðila þar sem hinn þurfandi ekki getur verið án umhyggju og sá sem hjálpar finnur þá að það er þörf á sér í þessu lífi.
Heimildaskrá:
Halldór Laxness, Sjálfstætt fólk, Vaka-Helgafell, Reykjavík 1998
http://www.mmedia.is/~ggisl/sjalfstaettfolk2.ht ml
http://www.mmedia.is/~ggisl/thordur.html
http://ww w.mmedia.is/~ggisl/landnamsmadur.html
http://www.mmedi a.is/~ggisl/heidin.html
http://www.fva.is/harpa/sjfolk /sjmenu.htm
http://www.msund.is/SigurrosE/Laxness/Laxn ess.htm
Flensborgarskólinn í Hafnarfirði 2003
Ágúst Sigurjónsson, Björgvin Már Pálsson og Einar Már Áskelsson
______________________________________________________ __
Það besta sem guð hefur skapað er nýr dagur.