Ég var að lesa bókina Kristnihald undir Jökli, eftir Nóbelsverðlaunahafann Halldór Laxness, í skólanum um daginn og átti að skila ritgerð um hana. Svo ég ákveð að birta hana hérna. Hvað finnst ykkur um hana, þið sem hafið lesið þessa bók???
KRISTNIHALD UNDIR JÖKLI
e. Halldór Laxness
Kristnihald undir Jökli er saga um sendiferð. Umboðsmaður biskups, sem er einfaldlega kallaður Umbi, er sendur út á Snæfellsnes til að rannsaka kristnihaldið undir Jökli. Hann á að gera skýrslu. Frést hafði að presturinn, sr. Jón Prímus, hafi hvorki jarðað, fermt, skírt, né messað, ekki einu sinni á jólunum, í langan tíma. Einnig hafði biskup frétt af ferðum nokkurra manna upp í Jökul með grunsamlegan kassa. Var eitthvað til í því og hvað var þá í kassanum? Og af hverju hefur presturinn ekki náð í launin sín í mörg ár? Þetta átti að koma fram í skýrslu Umba.
Umbi er ungur guðfræðingur en hefur ekki mikið álit á sér sem slíkum. Hann kann þó á segulband og er nákvæmur í skrifum sínum, og var þess vegna valinn til að sinna málum fyrir biskup. Fyrir vestan kynnist hann ótrúlegum persónum og dregst inn í dularfulla atburðarás. Hann vill ekki skipta sér af neinu og reynir að vera hlutlaus við skýrslugerð sína, en blandast fljótt inn í gang mála.
Sú fyrsta sem hann hitti á ferð sinni var Hnallþóra, ráðskona hjá Jóni Prímus. Hún var þekkt fyrir sínar kökur og kræsingar en hellti upp á ódrekkandi kaffi. Eftir að hafa kannað gang mála komst Umbi að því að hurðar og gluggar kirkjunnar voru negld aftur og var sóknarbörnum nokk sama. Hann talaði því við Tuma Jónsen, safnaðarformanninn í sveitinni. Tuma sjálfum fannst lítið til starfsins koma og var sérstaklega rólegur yfir öllu saman. Hann var einkar laginn við að snúa út úr spurningum, sér í lagi ef að þær snérust um sr. Jón Prímus. Af honum var lítið að hafa og sjálfur sagði hann að vesælli svargikkur findist ekki undir Jökli. Hjá Tuma dvaldist einnig stjúpdóttir hans, frú Fína Jónsen. Hún var öllu málglaðari en faðir hennar. Umbi fékk að heyra alls konar sögur af kynlegum konum og velktist í vafa um hverju hann ætti eiginlega að trúa.
Presturinn sjálfur, sr. Jón Prímus, var hæglátur maður og sérlega orðheppinn. Hann var orðinn eitthvað ruglaður og trúlega búinn að missa trúna. Hann var farinn að halda að þegar fólk dæi, færi það í jökulinn. Líkt og Tumi, var hann mjög laginn við að koma sér undan spurningum, og tók það dágóðan tíma fyrir Umba að ná einhverju markverðu út úr honum. Aðspurður um kistuna grunsamlegu sagðist hann ekkert vita en hann sagði Umba allt um brúði sínu, hina dularfullu Úu, sem horfið hafði á braut með fornvini hans, prófessor dr. Sýngmann. Jón Prímus taldi Úu ekki mennska, enda þurfti hún aldrei að borða eða sofa, og vissi allt án þess að hafa litið í bók.
Svona heldur ferð Umba áfram. Hann hefur komist að því að kristnihaldið undir Jökli sé í algjöru lágmarki, og auk þess sé ástand kirkjunnar sjálfrar ekki gott.
Sagan berst aftur að Úu sem hafði ferðast um lönd og höf. Hún hafði sent prófessor dr. Sýngmann símskeyti um að hún væri dáin en kom svo skyndilega aftur til Íslands þegar Sýngmann dó. Þá sagði hún Umba alla sögu sína sem varð til þess að hann varð ástfanginn að henni. Hún hafði engin samskipti við bónda sinn, Jón Prímus, og vonaði að hann væri ekki reiður út í sig fyrir að hafa verið svona lengi í burtu.
Ferð Umba endar svo þannig að Úa ætlar að skutla honum heim, á glæsilega Imperíalnum hans Sýngmanns. Þau óku í þokunni í átt að Neðratraðkoti þar sem foreldrar hennar bjuggu. Úa fór inn í húsið og bað Umba að bíða sín. Þegar hún kom ekki aftur leitaði Umbi hennar en hún var horfin út í myrkrið og Umbi flúði tilbaka.
Kristnihald undir Jökli er mjög skemmtileg saga en heldur flókin. Hún kom fyrst út árið 1968 og vakti mikla hrifningu. Sjálf var ég lengi að komast inn í hana en þegar ég var farin að átta mig betur á hlutunum þá varð hún virkilega skemmtileg. Atburðarásin er furðuleg, persónurnar eru sérstakar, en hver og ein á sinn þátt í að gera söguna skemmtilega. Bókin gæti verið torskilin fyrir suma, en annars mæli ég eindregið með henni.
(ATH. að efnisgreinarnar eru ekkert að alveg að virka þannig að ég hef þetta bara svona)
Takk fyrir!