Í bókinni, sem kom út að Ventris látnum, segir Chadwick okkur ýmislegt um hinn hæfileikaríka en hógværa samstarfsmann sinn, sem átti hvað mestan þátt í að ráða línuletur B þrátt fyrir að vera arkitekt að mennt en en ekki fornleifa- eða textafræðingur eða málvísindamaður, líkt og flestir þeir sem höfðu spreytt sig á því. En Ventris var mikill málamaður og kunni m.a. pólsku frá sex ára aldri en einnig frönsku, þýsku og sænsku. Þar að auki hafði hann lært einhverja forngrísku í skóla. Hann mun einnig gafa borið af öðrum hvað gáfur varðar.
Chadwick rekur einnig stuttlega fyrir okkur söguna af uppgötvun Sir Arthur John Evans á leirtöflunum með línuletri B (og eldri gerð þess, línuletri A, sem enn er óráðið) en Evans stjórnaði uppgreftrinum í Knossos á Krít og einnig víðar. Chadwick fræðir okkur líka um fyrri kenningar um línuletur B, en sumir fræðimenn höfðu gefið út bækur þar sem þeir þóttust hafa ráðið línuletur B og lýstu jafnvel hinum undurfagra skáldskap sem ritaður var með letrinu á leirtöflurnar. Það gerði F.G. Gordon árið 1931 er hann reyndi að sýna fram á skyldleika línuleturs B við mál Baska á N-Spáni. Síðar reyndist skáldskapur þessi vera skýrslur um kornbirgðir og annað þess háttar. Letrið reyndist líka hafa verið notað til að skrifa grísku en ekki mál þjóðar sem ekki var indóevrópsk eins og Gordon hafði talið og raunar Evans einnig. Enn einn fræðimaðurinn hafði talið að málið væri semískt. En nú er svo komið að niðurstöður Chadwicks og Ventris hafa hlotið almenna viðurkenningu hvar sem lögð er stund á forngrísku eða fornfræði.
The Decipherment of Linear B er skemmtileg og fræðandi bók og ég mæli með henni. Ég læt að lokum fylgja bókfræðilegar upplýsingar.
Höfundur: John Chadwick.
Titill: The Decipherment of Linear B.
Útgefandi: Cambridge University Press / Canto.
Útgáfustaður: Cambridge.
Útgáfuár: 1. útg. 1958, 2. útg. 1967; fyrst útgefin hjá Canto 1990.
Band: Kilja.
Blaðsíðufjöldi: 164 bls.
ISBN: 521398304
___________________________________