Örlagasystur gerist í Lanker, litlu konungsríki í Hrútafjöllum, sem eru fjöll í Diskheiminum. Þar telst það gæfa ef norn býr í þorpinu því þær “slétta úr ýmsum misfellum mannlífsins” og í Lanker búa þrjár nornir; Amma Veðurvax, fremst meðal norna, Mútta Ogg og Maggrét Geirlauks. Nornirnar vilja helst ekki skipta sér af gangi lífsins en tekst þó að flækja sér í yfirtöku hins illa hertoga, Ljónhalls Felmets og konu hans, Lafði Felmet. Inn í þetta fléttast svo draugur gamla konungsins, hirðfífl, farandleikhús, réttmætur erfingi krúnunnar og fleiri. Í Örlagasystrum er mikið vísað í Shakespeare en örlagasysturnar og Felmet hjónin eru til dæmis náskyld Macbeth hjónunum og örlaganornum þar.
Leikstjórarnir okkar í ár eru leikarahjónin Atli Rafn Sigurðarson og Brynhildur Guðjónsdóttir.
Leikhússtjóri er Bergur Þór Ingólfsson og frumsamin tónlist er eftir Guðmund Stein Steinsson, gítarleikara í KUAI.
Sýningin höfðar til allra aldurshópa, hvort sem þeir hafa lesið bækur eftir Terry Pratchett eða ekki, séu Shakespeare aðdáendur eða hafi einfaldlega gaman af því að fara á vel gerða og skemmtilega sýningu.
<a href=www.nfmh.is/orlagasystur>Heimasíða Örlagasystra</a>
www.nfmh.is/orlagasystu