Ég las fyrir skemmstu nýjustu bók Arnaldar Indriðasonar, Röddina, en hún fjallar um sömu lögreglumenn og verið hafa í síðustu bókum hans, þá Erlend og Sigurð Óla, sem að þessu sinni reyna að leysa morðmál þar sem gömul barnastjarna finnst myrt með buxurnar á hælunum í ógeðslegri kjallarakompu.

Í þessari bók fær lesandi samt mun meiri upplýsingar um Erlend heldur en í fyrri bókum. Við fáum t.d. að vita af hverju hann hefur svona gríðarlega mikinn áhuga á hrakningarveðrum og því þegar að fólk verður úti. Ekki kemur þó fram í þessari bók frekar heldur en hinum hvort fyrrverandi yfirmaður Erlends, Marion Briem, sé karl eða kvenmaður.

Arnaldur hefur í gegnum tíðina komið með ákveðna samfélagsádeilu í bókum sínum og það breytist ekki með þessari. Hér fjallar hann um ofbeldi gagnvart börnum, bæði líkamlegt og andlegt, og einnig (reyndar líka í hinum bókum hans) um það hvernig samfélagið útskúfar eiturlyfjaneytendum.

Að mínu mati hörkugóð afþreying, með nógu mikilli ádeilu á samfélagið til að fá mann til að hugsa.

Eva

Endilega sendið ykkar álit