Mér hafði lengi langað til að lesa þessa bók; Óbæranlegur léttleiki tilverunnar eftir Milan Kundera. Ég veit ekki af hverju… ég hafði heyrt einhvern tíman á hana minnst og nafnið hljómaði eitthvað svo kunnulega. Ég stóð í þeirri trú að þetta væri eldgömul fræg bók þegar ég tók hana á bóksafninu, eitthvað í líkingu við Gleðileikinn guðdómlega eða eitthvað.
Svo reyndist aldeilis ekki vera… bókin reyndist vera gefin út árið 1984 og þannig því sem næst í nútímanum. Ég vissi því varla hvað ég væri með í höndunum né hvort hún væri eitthvað fræg eða eitthvað. Og veit í rauninni ekki enn þá nema nafnið hljómar eitthvað svo kunnulega, eins og einhver ofnotuðu en þó sönn heimspekileg klisja.
Svona var ósjálfrátt viðmót mitt þegar ég byrjaði að lesa bókina. Þegar maður hefur bitið eitthvað í sig getur verið erfitt að skipta um skoðun. Sagan gerist aðalega í Tékklandi, Prag og fannst mér til að byrja með að hún ætti að gerast á tímum góða dátans Svejks og stakk það rosalega í augun þegar nútímaleg fyrirbrigði eins og símar og sjónvörp voru óspart brúkuð.
Málið er nefnilega að sagan hefði allt eins getað gerst á tímum Svejks, frekar nútímalegt Tékkland í byrjun sögunnar er hernumið af Sovétríkjunum (raunverulegur atburður sem gerðist árið 1968 að mig minnir, árum blómabarna og Bítlanna), og fer samfélagi persónanna verulega að hnigna við þetta. Fólkið varð ekki sjálfrátt þegar það varð innlyksa í kommúnista bjúrakrata/lögreglu-stýrðu þjóðfélagi sem sparkaði því lengst aftur í aldir.
Óbærilegur léttleiki tilverunnar var kannski í aðra röndina þesskonar þjóðfélagsádeila (Kundera sjálfur skrifar söguna í upphafi níunda áratugarins í útlegð í Vestur-Evrópu) en virðist þó jafnframt ekki vera beint að deila á stjórnarfarið svo sem. Bókin fjallar meira bara um örvæntingu mannkynsins sem er grátt leikið af heimspekilegum spurningum og virðist gera ýmislegt til þess að svara þeim, eða þegar það sér að það að svara er vita vonlaust, að flýja þær.
Eftirfarandi er brot út bókinni;
,,Afturkoman eilífa er dularfull hugmynd, og með henni kom Nietzche ýmsum heimspekingum í bobba: að láta sér detta í hug að dag einn mun allt endurtaka sig eins og við upplifðum það, og að sú endurtekning muni alla tíð endurtaka sig! Hvað merkir þessi stórskrýtna goðsögn?
Neikvætt séð þýðir goðsögnin um afturkomuna eilífu að lífið, sem hverfur í eitt skipti fyrir öll og ekki kemur aftur, sé líkast skugga, vegi ekkert, sé fyrirfram dautt, og að það skipti engu máli hversu hörmulegt, fagurt eða glæsilegt það hafi verið, því hvorki hörmung þess, fegurð né glæsileiki hafa neina merkingu. Það tekur því ekki að minnast á það, ekki frekar en stríð milli tveggja afrískra konungsríkja á fjórtándu öld, sem engin áhrif hafði á gang heimsins, jafnvel þó þrjú hundruð þúsund svertingjar hafi látið þar lífið á ósegjanlega kvalarfullan hátt.
En breytir það einhverju um stríðið milli afrísku konungsríkjanna á fjórtándu öld, ef það endurtekur sig ótal sinnum í afturkomunni eilífu?
Já, vissulega: það breytist í vegg sem rís til að standa um alla eilífð, og heimska þess verður ekki aftur tekin.
Ef franska byltingin endurtæki sig í sífellu, yrðu franskir sagnfræðingar líklegast ekki eins hróðugir af Robespierre og þeir eru nú. En þar sem þeir fást við eitthvað sem ekki kemur aftur, verður þetta blóðuga tímabil aðeins að orðum, kenningum, umræðum, það verður léttara en dúnn, vekur engan ótta. Reginmunur er á þeim Robespierre sem aðeins birtist einu sinni í sögunni og þeim Robespierre sem eilíflega kæmi aftur til að hálshöggva Frakka. “
Þarna er sögumaðurinn að tala. Sögumaðurinn er mjög sýnilegur í sögunni, kannski meira að segja of sýnilegur á köflum, það er óþarfi að mata mann algjörlega.
Sögupersónur eru mjög þjakaðar af tilverunni. Þær eru þjakaðir af tilgangsleysi hennar, duttlungum og vægðarleysi. Þær eru þjakaðar af ábyrgð sinni, köllunum, förunum sem líf þeirra er fast í, þeim böggum sem maður axlar í lífinu. Þær veigra sér við því að festa ráð sitt eða halda tryggð við eitthvað til þess að skerða ekki frelsi sitt.
Allt þetta finnst þeim vera eins og farg á sér. Og þau keppast við að losna undan þessu fargi.Ganga sífellt lengra, lengra og lengra. Missa virðinguna fyrir öllu, svíkja allt og alla.
En hvað gerist þegar takmarkinu er náð. Þegar fólkið hefur losað sig undan hinu óbærilega fargi tilverunnar og ekkert heldur lengur í það. Líður því betur? Hefur eitthvað breyst, er tilveran orðin bærilegri fyrir vikið? Nei, það kemur á daginn að léttleiki tilverunnar er nefnilega ekki síður óbærilegur.
Sagan er sífellt að klofna. Aukasögupersónur krefjast þess að sín saga sé líka sögð. En öll eru þau að kljást við það sama. Við fylgjumst með lífi þeirra og framvindu sögunar en síðan fara þær að deyja ein af annarri og engin lausn fæst. Sagan gerist í nokkrum þráðum sem eru á mismunandi tímum sem virkar vel, söguþræðirnir sem gerast töluvert seinna hafa svona spásagnargildi og ljóstra upp hvernig mun enda í öðrum söguþræði.
Við fáum t.d. að vita það frekar snemma að tvær aðalsöguperónurnar deyja í bílslysi eftir heimsókn sína á hótel nokkuð. Svo þegar allir aðrir þræðir hafa dáið út fylgjumst við með í lok bókarinnar hvernig parið fer á hótelið og fer að sofa, eftir það lýkur sagan. Sagan skilur okkur ekki eftir í lausu lofti eins og ætla mætti heldur vitum við að þau deyja stuttu seinna. Mjög áhrifamikið bragð.
Eftir að hafa brigslast mikið í lífinu og reynt ýmislegt fara aðalsögupersónurnar ein af annarri að deyja. Þetta virðist vera eðlilegur hluti framvindunar og ekki há söguþræðinum en brátt fer maður að hugsa þegar maður veit orðið hvernig fer fyrir öllum persónunum hversu lengi sagan gæti haft úthald til að endast þegar hún drepur allar persónurnar. Enda kemur það á daginn að hún lognast út með endalokum þeirra.
Þetta er ekki verra. Þetta er einfaldlega magnað. Hluti af áhrifamætti sögunnar, þessi skortu á lausn er alveg í stíl við það viðfangsefni sem hrjáir persónurnar. Maður býst við upphafningu mannsandans eins og ósjaldan gerist í svona skáldsögum, en þessi bók er samkvæm sjálfri sér.
Bókin er 347 blaðsíður að lengd (í kiljuformi) og er þýdd prýðilega af Friðriki Rafnssyni. Þrátt fyrir að vera löng að blaðsíðutali er hún fljótlesin. Kaflarnir eru stuttir, stundum jafnvel aðeins hálf blaðsíða að lengd.