Ég hef verið að endurlesa Heimsljós eftir Laxness undanfarna daga og var búin með tæplega 2/3 sögunnar þegar svo óheppilega vildi til að ég gleymdi bókinni upp í rútu í dag. Ég hafði verið að lesa hana á leiðinni heim og hún var meira að segja betri en mig minnti en því miður, vegna fyrrnefndra orsaka, verður grein um hana að bíða betri tíma.
Það að týna bókasafnsbókum er ekkert grín, og varð ég skiljanlega miður mín:( En ekki út af bókarmissinum sjálfum þannig sosum, heldur öllu frekar þeirri staðreynd að ég stóð slyppur og snauður eftir, án alls lesefnis.
Svo ég ákveð að kíkja á bókasafnið utan bæjarfélags míns, til þess rétt aðeins að glugga í eitthvað uppbyggilegt.
Þá fann ég Bréf til Láru eftir Þórberg Þórðarson. Það er skömm frá því að segja að ég hef aldrei lesið Þórberg að ráði, kannski aðallega vegna þess að það litla sem ég hafði lesið höfðaði svo sterkt til mín að ég varð hræddur um að ef ég læsi meistarastykki hans yrði mér fyrirmunað í framtíðinni að skrifa eitthvað að viti (ég hef verið að dunda mér sjálfur við að skrifa eitthvað). Maður vill ógjarnan verða fyrir það sterkum áhrifum að maður missir sinn eigin frumleika.
En einhverra hluta vegna var ég búin að gleyma þessari staðreynd í dag og ég byrjaði að lesa hana. Ætlaði reyndar að bara rétt að glugga í hana og taka hana svo seinna þegar ég skilaði þeim bókum sem ég væri þegar með inni (þ.e.a.s. ef ég finn þær).
En ég festist. Og áður en ég vissi var klukkan orðin kortér yfir sjö, sólin fyrir utan gluggann var horfinn og bókasafnið hafði verið lokað í sextán mínútur.
Já hann er skemmtilegur, skemmtilegri en orð fá lýst, hann Þórbergur. Ég fann það fljótlega á mér og aflýsti öllu fyrirhuguðu og dembi mér bara að klára þessar stuttu tvöhundruðsjötíuogþrjár blaðsíður.
…
Þetta virðist byrja allt saman sem bréf til Láru, andlega þenkjandi konu sem hann hafði hitt á einhverskonar spíritisma móti á Akureyri eitthvað fyrr. Þórbergur lætur gamminn geysa um allt milli himins og jarðar. Maðurinn talar augljóslega af mikilli sannfæringu. Sósíalisma (hann daðrar djarft við kommúnisma jafnvel) og andleg málefni eru honum greinilega hugleikin.
En brátt verður maður var við það að bréfið hættir að vera bréf og verður að einhverju öðru. En hverju?
Bréf til Láru olli víst straumhvörfum í íslenskum bókmenntum á sínum tíma. Hann brýtur upp stílinn, prófar margt sem aldrei hafði verið prófað áður á íslenskri tungu og fer um víðan völl.
Þetta er ekki skáldsaga, ekki ævisaga né smásagnasafn, þó margir kaflarnir gætu vel sómað sér einir og sér sem smásögur.
Eftir að hafa talað til Láru um stund fer hann að lýsa sjálfum sér í æsku og aðdraganda sinna fullorðinsára, þótt allt þetta sé vafið prédikunum hans á skoðunum sínum upp allt milli himins og jarðar. Bókin fer á virkilegt flug þegar hann byrjar að lýsa kenjum sínum sem fullorðins manns. Ýktar sögur um skelfingu lostinn mann sem var sífellt hræddur við morðingja, skrímsli, ketti og allra síst ekki; ála. Þetta eru þeir baggar sem hann hefur þurft að kljást við allt sitt líf, sem strákpatti í Suðursveit til jógameistarans í 101.
Eins og ég hef sagt fyrr þá fer hann útum víðan völl og lætur fátt sig óvarðað, hann meira að segja lýsir fyrir okkur hvernig hann skrifar þessa bók; sem fræðslu og skemmtun. Hann segir okkur frá því þegar hann varð óléttur og daginn sem hann vaknaði í Himnaríki, hvernig hann var geldur af áli sem teygði sig uppúr tjörninni og hvernig það er að verða drepinn. Bókin er kröftug ádeila á þjóðfélagsskipulag millistríðsáranna, þá ekki síst trúsamfélagið og kapitalískt auðvaldið, þeim íhaldsöflum sem eru víst orsök alls hins illa sem til er í heiminum.
Maðurinn er svo dásamlega viss í sinni sannfæringu að unun er af þó ekki takist honum að snúa mér. Kannski vegna þess að sagan hefur úrelt boðskap hans. Og þó…. Hinn innsti boðskapur kenninga hans breytist ekki þótt aðstæður og umhverfi geri það.
Það er auðvelt að standa á öxlum mikilmenna og hreykja sér yfir betra útsýni (meiri víðsýni).
Á blaðsíðu 150, ef ég man rétt, lýkur hinu formlega bréfi til Láru og 120 blaðsíðna viðaukar taka við. Bókin olli skjálfta í íslensku þjóðfélagi á sínum tíma og spruttum af henni miklar umræður. Þarna fáum við heilan hellingur af fleiri bréfum frá Þórbergi, þar sem hann stendur í ritdeilum við ýmsa menn í sambandi við útgáfu Bréf til Láru.
Í lokin fáum við enn eitt bréfið, og það síðasta, ritað 1951, 26 árum eftir útgáfu Bréfs til Láru. Þar er Þórbergur orðin gamall, það er greinilegt, stíllin er svo gjörsamlega útspýjaður af tökuorðum (ólíkt Bréfi til Láru) og miklu stirðara flæði á textanum. Þar hljómar hann bitur og bölsótast í æskulýðinn sem notar svo mikið af slangri og tyggjói o.s.frv. (þetta var árið 1951, áður en foreldrar flest okkar voru fæddir, jújú: hið svokallaða unglingavandamál hefur lengi verið til). Kannski er sárt fyrir hann að hugsa til baka, til sinna bestu ára, þar sem hann skrifaði stór orð um byltingu á Ílsandi undir sinni forystu, það var ekki hvort heldur hvenær. En úr slíku, eins og við öll vitum, varð þó ekki neitt.
Þórbergur var afar umdeildur maður á sinni tíð. Óumdeilanlegt þótti að hann skeikaði ekki á ritvellinum en persóna hans var víst eitthvað reikul. Fólk átti erfitt með að átta sig á því hvort honum væri alvara eða hvort hann væri einhver trúður. Hann var í augum þjóðarinnar svolítið eins og Ástþór Magnússon er í dag. Fyrir utan það að fyrir honum var náttúrulega borin mikil virðing, fólk vissi að þarna stæði allsérstakur maður upp úr hjörðinni, en hvort hann ætti að taka alvarlega eður ei var vafamál.
Tíminn hefur dæmd manninn vel. Hann var vafalaust snillingur sem sá víðara en margur og ónískur að deila því með öðrum.