Ég var að lesa bók nýverið sem heitir konan í köflótta stólnum og er eftir Þórunni Stefánsdóttur, og mig langar aðeins að segja ykkur frá henni. Þess má einnig til gamans geta að hún var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Þetta er sem sagt reynslusaga þunglyndrar konu, en eins og hún réttilega kemur inn á þá lýsir enginn þunglyndi á sama hátt því það hefur svo mismunandi áhrif á fólk. En hún reynir að lýsa því hvernig henni leið og svo bataferli sínu, því að í dag er hún nokkurn veginn heil manneskja.
Hún var svo lánssöm að hafa tækifæri, og efni, á því að kljást við þunglyndi sitt með sálgreiningaraðferðinni, en þá reynir hún að læra inn á sinn eigin huga og takast á við líðan sína smátt og smátt. Hún fer í gegnum þau 10 ár sem hún var hjá geðlækni, en til að byrja með fór hún til hans 3 í viku (sem var náttúrulega mjög dýrt). Hún lýsir því á einstakan hátt hvernig henni leið þegar hún vann sína litlu sigra á leiðinni, en dregur heldur ekkert undan þegar henni mistókst, þegar hún gafst upp og steyptist aftur út í vonleysið.
En á endanum tekst henni að sigrast á sínum djöfli, og er bókin því uppörvandi lesning fyrir þá sem eiga við sama vandamál að stríða.

Mitt álit er því það að þessi frábærlega skrifaða bók sé skyldulesning fyrir alla þá sem kljást (nú eða áður) við þunglyndi, en einnig alla þá sem þekkja þessa einstaklinga.

Látið samt ekki hugfallast á lýsingu minni því ég gleymdi alveg að minnast á að bókin er líka uppfull af húmor, þannig að hún verður ekki kannski eins niðurdrepandi og hún hljómar í minni lýsingu.

Góð lesning, mæli með henni.

Eva