Í leit að glötuðum tíma – Leiðin til Swann Í leit að glötuðum tíma – Leiðin til Swann
Marcel Proust.

Nú, rétt áðan, var ég að klára fyrri bók Leiðarinnar til Swann, en bókin atarna var gefin út í tveimur bindum í íslenskri þýðingu en í rauninni eru þessi 2 bindi bara hið fyrsta af sjö bindum sögunnar.
Í þessari bók náði Proust snilldarlega að spandela hundrað síðum í það eitt að fá söguhetjuna til þess að festa blund, og öðru eins í það að vakna. Síðan er bókin búin. Þætti mörgum þetta eflaust fráhrindandi.
En það liggur í hlutarins eðli, svona er þessi bók bara og er meira að segja fyrir vikið hvorki meira né minna en meistaraverk; eitt af höfuðverkum heimsbókmennta 20.aldar (hljómar eins og höfuðverkur heimsbókmennta 20.aldar og er það ekki fjarri lagi) og að mati margra bókmenntavita eitt frægasta skáldverk sem ritað hefur verið (þótt ég þekki persónulega ekki einasta mann sem hefur heyrt á það minnst).
Ég rakst fyrst á kauða í umfjöllun Laxness heitins, maður getur vart en orðið forvitin við þann lofsöng. Minntist hann oft og margsinnis á Proust kallinn alla sína ævi, og aldrei breytist sú skoðun hans (sem var frekar óvenjulegt hjá Laxnesi sem hafði þann furðulega sið að taka endaskiptum reglulega).

Verk Proust er… einmalig; það er bók sem samin er í eitt skipti fyrir öll… og mun hverfa… án þess að eignast sinn líka. (Halldór Kiljan Laxness; Skáldatími).

Proust var sérvitringur sem gaf ekkert út fyrr en um fimmtugsaldurinn. Fram að því hafði hann endurskrifað allar mörg þúsund síður bóka sinna margoft, má finna þúsund blaðsíðna doðranta frá því fyrir “Swann” sem voru keimlíkar endalegu verkunum og þó ekki. Það vantaði einhvern neista sem hann sóttist eftir.
Hann gaf allt sitt líf ritun þessara verka; það þarf hvorki meira né minna. Hann lifði á föðurarfi sínum enda ekki vinnufær, fársjúkur maðurinn. Í umsjá vinnustúlku svaf hann á daginn og skrifaði alla nóttinna, alla ævina.
Líkir Laxness bókum hans á við snilldarlega sett saman vél þar sem að baki hverju atrið, hverri setningu, hverju orði bjó endalausar pælingar og fágun. Útkoman var fáranleg… –a góð.

Þetta fyrra bindi Leiðarinnar til Swann hefur legið sem mara á mér. Það hefur tekið mig upp undir þrjá mánuði að lesa hana, þrátt fyrir að vera aðeins 188 blaðsíður á lengd. Fjölda annarra bóka hef ég lesið á meðan og oft hefur hún farið í hvíld. Það er ekki út af því að hún er leiðinleg eða óáhugaverð eða langdregin, nei, heldur þvert á móti. Ég var hugfangin, hvert smáatriði greip mig heljartökum og kom mér í furðulegt skap. Hættuleg skap. Síðan var ég vanur að lesa blaðsíðuna aftur og ég hafði það á tilfinningunni að ég hefði aldrei lesið hana, svo gjörsamlega ný var hún fyrir mér. Þetta er einfaldlega bók sem maður les ekki hratt ef maður ætlar að nema hana.
Það liggur svo mikið að baki sem grípur mann. Proust lýsir þessu ef til vill best sjálfur þar sem hann segir okkur af hverju það að upplifa bók sé oftar en ekki margfalt öflugri en alvöru tilfinningar, vegna þess að alvöru, holdi klætt fólk er hjúpað efni sem að eilífu fyrirgerir okkur því að nálgast það raunverulega, en persónur bóka eru gagnsæjar, opnar fyrir lesandanum, maður heyrir hugsanir þeirra, maður verður sögupersónurnar sjálfur og þeirra tilfinningar verða manns sjálfs.
Í þeim efnum ná fáir tánum þar sem Proust er með hælanna. Persónan, sem maður sekkur í og verður að, er svo raunveruleg og nær það miklu tangarhaldi á manni að manni sundlar.

Ekki er auðvelt að lýsa söguþræði fyrstu bókarinnar, enda varla um söguþráð að ræða. Maður veit vel að þetta er aðeins byrjunin. Í upphafi hugsar sá sem hugsar í svefnrofunum aftur til þeirra svefnherbergja sem hann hefur sofið í um ævina. Hann minnist æsku sinnar í föðurhúsum og hjá frænku sinni í Combray. Minningarnar hlaðast upp eitt af öðru og sömuleiðis útskýrist persónan fyrir okkur smá saman. Margar eftirminnilegar persónur standa honum ljóslifandi fyrir sjónum og lesandanum jafnframt eftir lestur bókarinnar.
Ég satt best að segja veit vart hvernig best sé að lýsa sögunni fyrir öðrum og hvet þess í stað fólk bara, ef það hefur áhuga á, að lesa söguna.

Sagan er fyrst og fremst óður til horfinnar paradísar, eitthvað sem margoft hefur um verið skrifað enda minni sem margir þekkja af eigin raun. Mikil skáldverk eru tilbrigði við þetta stef; eins og t.d. Pardísarminni og Í Suðursveit. Það sem maður fær á tilfinninguna að boðskapur Proust hafi verið er sá að vissulega sé eftirsjá í horfinni paradís en kannski er hún einmitt paradís út af því að hún er horfin.

Í Suðursveit eftir Þóberg Þórðarson er skáldskapur af svipuðu meiði og hafa margir meir að segja haft það á orði að Í leit að glötuðum tíma hafi ekki verið síst áhrifavaldur að þeirri bók. Sem skýtur skökku við í ljósi þess að Þórbergur, sem fyrirleit allt sem gat kallast snobb og slík, áleit marga íslendinga of mikið snobba fyrir þessari sögu, og fannst hún ekki merkileg fyrir vikið.
Svaraði þá Laxnes honum það til:
“Vertu óhræddur Þórbergur, sá dagur kemur aldrei að íslendíngar fari að lesa Proust. Íslendíngar mundu ekki einusinni fara að lesa Proust þó þeir feingju hann á dönsku.”


Útgáfa bókarinnar á íslensku er með mikilli prýði. Sagan er snilldarlega þýdd (sem er víst meiri en mikill vandi) og smekkleg í útlit. Bókin er gefin út af Bjarti ’97 og ekki að undra, enda hefur Bjartur staðið sig einna best síðastliðin ár að færa okkur íslendingum heimsbókmenntirnar sem hafa okkur hingað til ekki staðið okkur til boða á móðurmálinu.
Það sem má helst að finna er kannski hversu alveg eins bækurnar eru, fyrra og seinna bindi að það þarf þjálfað auga til að finna út hvort er hvað. Alveg eins kápa með sama texta aftan á og eini merkjanlegi munurinn er þessu rómversku 2 sem smellt er aftan á undirtitillinn Leiðin til Swann á seinni bókinni. Vegna þessa tók það mig þó nokkurn tíma að uppgötva að sú seinni væri yfirleitt til á bókasafninu mínu þar sem þær litu eins út.

Sofið rótt;
nologo