Eftir að í ljós kom ,ekki fyrir alls löngu, að Don Kíkótí eftir Miguel Cervantes væri besta skáldsaga allra tíma, hef ég verið að velta fyrir mér hvaða bækur hugara hefðu fest ástfóstri við.
Að mínu mati er ´,,Ævintýri Góða Dátans Svejks" langbesta bók sem ég hef lesið.
Saga sú byggir á gríðarlegri ádeilu á hervæðingu og heimsstyrjöld, en hún gerist í byrjun heimsstyrjaldarinnar fyrri.
Aðalpersónan er Jósef Svejk sem verslar með hunda og falsar ættartölur þeirra.
Sögusviðið er Prag, sem er heltekin af ofsóknaræði gagnvart byltingarhug og föðurlandssvikum Tékka. Yfirvaldið er svo rosalegt að menn þora ekki að ræða stjórnmál eða nefna keisarann á nafn af hræðslu við rannsóknarlögreglu, sem hendir mönnum í fangelsi fyrir minnstu sakir.
Svejk, sem er mikill einfeldningur, er bæði aðalpersóna og sögumaður þrátt fyrir að sagan sé 3.pers. frásögn. Sögumannshlutverkið lýsir sér í því að Svejk segir endalausar sögur af kunningjum og kunningjum kunnigja í gegnum alla söguna. Þetta eru ævinlega dæmisögur sem virðast í fyrstu koma umræðuefninu við, en enda ævinlega í tómri steypu. Þessar sögur auk heimsku Svejk eru það sem gerir bókina frábæra.
Eitt stendur í manni eftir að hafa lesið þessa bók, sem ég er hálfnaður með í annað skipti, er það að Svejk tekst að leika á alla sem standa í vegi fyrir honum með heimsku sinni. Svo virðist sem þetta sé allt óvart hjá kallinum en þó er maður aldrei viss hvort heimskan sé hrein uppgerð eða hvort hann sé eins vitlaus og raun ber vitni. Svejk er í senn snillingur og Hálfbjáni.
Höfundur bókarinnar er Jaroslav Hasek, en hann lést áður en þessu verki hans var lokið og því hefur sagan engan raunverulegan endi, en það kemur ekki að sök. Söguþráðurinn er ekki það sem skiptir raunverulegu máli heldur ævintýrin sem Svejk lendir í hverju sinni.
Þetta er sú bók sem ég mæli með á óskalista fyrir jólin. Hverjar eru ykkar uppáhaldsbækur, eða öllu heldur, hver er besta bók í heimi?