Margur er illa svikinn af Apple. Ég þekki í það minnsta nokkra sem hafa snúið bakinu við Apple vegna tilhneigingar fyrirtækisins til að gera byltingar sbr. OSX.
Sjálfur hef ég ekki notað kerfið, sem maður heyrir misjafna hluti um og þá gjarnan upphrópanir um ágæti þess eða hversu glatað það sé. E.t.v. álíka mikið að marka og rifrildið Mac vs. PC.
Ég býst reyndar ekki við að kynnast OSX þar sem ég er alvarlega að íhuga að segja skilið við Apple. Mig hryllir reyndar við Windowsinu, en ég er samt að hugsa um að fara þá leiðina. Það sem vegur e.t.v. þyngst er það að ég treysti Apple ekki lengur. Aldrei að vita hvað þeim dettur næst í hug að gera. Mér finnst frekar fúlt hvernig farið er með þá sem eru að vinna á “eldri vélum”. Það verður varla mikið af forritum þróað fyrir þá sem komust að því að vélarnar þeirra voru orðnar úreltar þegar OSX-ið kom.
Það er auðvitað margt sem hægt er að segja gott um makkann. Ég hef góða reynslu af mínum PowerMakka sem ég keypti fyrir tæplega fjórum árum síðan, en mér finnst það frekar dapurlegt að þurfa að kaupa mér nýja vél til að geta verið áfram á makkanum. Er að vinna tónlist og þessar vélar eru ekki beint ódýrar!
Í dag get er þessi vél komin að niðurlotum hvað ýmsa vinnslu varðar. Tónlistarforritin eru það þung í keyrslu að nýjasta iBook ræður við fæst af því sem er eitthvað spennandi. Og ég ætla mér ekki að eyða 300 eða 400 þúsundum á 3ja ára fresti.
Ég gerði athugun á því í dag hvað góður pési kostaði og kom á óvart að hann er undir 200.000. Þar með verður tæplega aftur snúið - held ég.
Þegar allt kemur til alls er þetta spurning um krónur og aura og ég held að ég taki stökkið núna. Maður getur þá komið með skottið á milli lappanna eftir tvö ár eða þrjú ef makkinn lifir svo lengi.