Ég hef verið að velta fyrir mér, í ljósi þess að búfénaður orsakar um 18% gróðurhúsalofttegundaútblásturs (samkvæmt SciAm), hvort ekki sé heppilegri leið til kjötframleiðslu. Að auki sé ég ekki fyrir mér að við munum til allrar framtíðar drepa “æðri” dýr (þ.e. dýr sem finna til sársauka eða eru meðvituð um ástand sitt sem búfénaður). Mér detta tvær leiðir í hug, sem í raun eru ósköp svipaðar.
Vöðvar af stofnfrumum er ein leiðin, sú sem mér datt fyrst í hug. Ef einföld leið verður fundin til að fjölga stofnfrumum þarf ekki mikið til að breyta þeim í vöðvavef, hafi maður lítinn strimil viðeigandi vefs sem þær geta vaxið á og af. Tvö vandamál blasa strax við. Þar sem vöðvavefur er ekki einger er ekki víst að frumurnar myndu leggjast saman á réttan máta sem myndi leiða af sér ógirnilegan og linan vöðvafrumugraut. Það mætti leysa með því að nota viðeigandi fósturstofnfrumuvefi; miðlag kímlagsins (mesoderm of the germ layer). Þá hefur hagkvæmni fjöldaframleiðslu stofnfrumna þó verið kastað fyrir róða. Hitt vandamálið er að krabbamein er nokkuð títt í manngerðum stofnfrumuvefjum. Þó reikna ég með því að það vandamál verði leyst innan tíðar, enda eiga sér miklar rannsóknir stað á því sviði.
Hin leiðin, sem væri heppilegri, væri að rækta upp vöðva af svipuðum strimlum og í fyrra dæminu in vitro, án stofnfrumna. Frumurnar væru þá hvattar til að fjölga sér með viðeigandi hormónum (að því gefnu að það virki þannig) í næringarefnalausn.
Það sem ég vildi gjarnan vita er, fyrir utan allar athugasemdir og hluti sem ég hef gleymt að reikna með eða ekki þekkt, hvernig ykkur litist á að borða kjöt ex vitro, að vandamálunum sem það leysti gefnum?
Bætt við 21. júní 2009 - 14:07
“borða kjöt e vitro” vildi ég sagt hafa.