Þessi skipting á sér sögulegar rætur, það er bara staðreynd. Og það gildir líka á Íslandi. Hins vegar var sálfræði ekki til þegar greinarmunurinn á tekhne og episteme / ars og scientia varð til og það sama á við um margar aðrar greinar. Þess vegna hafa þær skipað sér í fylkingar eftir því hvað skyldar greinar liggja; og það fer eftir skólum hvaða gráður eru veittar fyrir hvaða greinar. En heiti greinanna breytir engu um kennsluna svo sem.
Ég held að almenna reglan í Bandaríkjunum sé sú að BA gráða (eða AB gráða) er veitt fyrir grunnám, nema í verkfræðinámi, kennaranámi og slíku. Í Princeton er t.d. veitt AB gráða fyrir allt nema verkfræði, þar sem er veitt BSE gráða. Það þýðir að það er veitt AB gráða fyrir stærðfræði, eðlisfræði, efnafræði, geimvísindi (astrophysical sciences), sameindalíffræði og sálfræði óháð því hvað menn reikna mikið í þessum greinum, óháð því hvaða mikilvægi tilraunir skipa í greinunum og óháð hagnýtingargildi greinanna. Í sumum skólum (t.d. Brown) er veitt bæði AB og SB gráða fyrir sálfræði, en um 60% nemendanna brautskrást með AB gráðu. Á Íslandi er líka hægt að fá bæði BA og BS gráðu í sumum greinum (t.d. hagfræði).
Það má vel vera að það mætti auka þátt raunvísinda í sálfræði, en heiti gráðunnar sem er veitt fyrir nám í greininni þarf ekki að endurspegla mikilvægi stærðfræðinnar í henni. Og það er stórundarleg ástæða fyrir að vilja auka stærðfræði í sálfræðinámi - finnst mér - að þá sé hægt að kalla gráðuna BS frekar en BA, eins og það skipti einhverju máli. Það er t.d. ekkert sem bendir til þess að það sé minni áhersla á stærðfræði og tölfræði í sálfræði í Princeton bara af því að þar er veitt AB gráða frekar en BS gráða.
___________________________________