Ég tel að sumir séu myndarlegir eða ómyndarlegir skv. áliti annarra, þ.e. að allir hafi ekki sama álit um útlit viðkomandi, og að það sé svo til fólk sem er náttúrulega myndarlegt eða ómyndarlegt, þar sem allir hafa sama álit um útlit viðkomandi.
Tökum smá dæmi, t.d. Elliott Yamin, sem ég myndi nú segja að væri frekar ómyndarlegur maður. Elliott tók þátt í American Idol nú nýverið og fordæmdu flestir söng hans út frá útlitinu, og verð ég að viðurkenna að ég gerði það líka. Svo byrjaði hann að syngja og hann söng eins og engill. Þessi maður hefur gífurlega fallega söngrödd og er gæddur stórkostlegum sönghæfileikum. Svo er þetta víst mjög hress og skemmtilegur maður, og þessu öllu var maður búinn að afneita vegna fordóma.
Hér er mynd af þeim Elliott og Ryan Seacrest…
http://msnbcmedia1.msn.com/j/msnbc/Components/Photos/060522/060522_idol_yamin_seacrest_vmed_10a.widec.jpg
Áður en Elliott varð frægur var hann með skelfilegar tennur. Allar tennurnar hans voru skakkar og skemmdar. Á því tímabili vildi engin stelpa líta við honum, en nú í dag er hann búinn að fara í tannaðgerð og búið er að skipta um allar tennurnar hans. Hann er kominn með glænýtt stell! Nú dýrka allar stelpurnar hann og hann er með þeim heitustu í tónlistarbransanum í dag! Hvers vegna þurfti hann að breyta náttúrulega útliti sínu? Til þess að öðlast vinsældir, þar sem ljótt útlit fælir oft frá.
Það er bara staðreynd að fallegt útlit laðar að. Tökum til dæmis módel. Þau eru nú flest myndarleg, sæt eða falleg. Það yrði nú ekki mikil sala hjá Calvin Klein ef ljótur maður myndi prýða auglýsingar og vörur þeirra.
Skoðaðu þetta…
http://www.uglypeople.com/uploaded/104969/nicesmile.jpg
Þú yrðir nú ekki beint æstur í vörur ef þú sæjir þessa auglýsa eitthvað sem fallegt kvenfólk auglýsir nú í dag - er það nokkuð?
Þetta er sem sagt eins konar lottó happa glappa dæmi, þar sem ef þú ert óheppin/n og færð ljótt útlit í fæðingargjöf geturu ekki orðið módel og fólk fordæmir þig út frá útliti þínu einu saman - án þess að kynnast þér! En hins vegar ef þú verður heppinn og dettur í lukkupottinn, og færð fallegt útlit við fæðingu muntu eiga kost á því að verða módel og auðvinsæl/l af hinu kyninu.
Ég segi nú ekki að ég sé sá sem kynnist öllu í kringum mig án þess að dæma út frá útliti. Síður en svo! Ég er einn af þeim verstu í þessu, en ég er þó farinn að gera mér grein fyrir þessum fordómum. Ég er líka byrjaður að sjá að fólk, sem er fallegt, veit að það er fallegt og nýtir sér það oft á tíðum. Ég tala nú ekki um stelpur á djamminu. Fríir drykkir hægri vinstri - bara út á útlitið!
Ef tvær stelpur, ein ljót og ein falleg, myndu fara í keppni inni á skemmtistað, hvor fengi fleiri drykki gefins um kvöldið. Hver myndi vinna? Það er vitað mál!
Gott dæmi um fordóma er t.d. timbrið í vinnunni minni. Það koma oft kúnnar sem eru að finna undirstöður fyrir palla o.s.frv. og eru heillangan tíma að velja bara til að fá sem fallegustu spíturnar. Útlitið á spítunum skiptir samt engu máli, þar sem þetta sést ekki einu sinni. En ég skil þá svo sem alveg, þar sem útlitið skiptir alltaf höfuðmáli! Ég myndi ekki vilja hugsa til þess að það væru ljótar, bognar, sprungnar og hálfónýtar spítur undir nýja fína pallinum mínum - ekki séns!
Mér finnst svo sorglegt að fólk fari á mis við góða og skemmtilega hluti bara vegna útlits þess og fordóma hjá viðkomandi. Ég ætla að koma með mjög gott dæmi, sem er mér oft ofarlega í huga. Ég er að tala um ef þú fengir að velja á milli tveggja gjafa. Ein gjöf sem væri í ógeðslegum umbúðum og önnur sem væri í gullfallegum umbúðum. Þú myndir ekki vita hvert innihaldið væri en þú myndir án efa velja gjöfina sem væri í fallegu umbúðunum. Af hverju? Fallegt útlit heillar okkur, þó við vitum ekkert um innihaldið! En hvað ef demantshringurinn væri í gjöfinni með ljótu umbúðunum?
Hér er annað (vá mörg dæmi í þessu bloggi). Ef þú fengir færi á því að fara annað hvort til sólarlands eða til kuldabeltislands, hvort myndiru velja? Ég geri nú ráð fyrir því að þú hafir valið sólarlandið, þar sem oftast fordæmir maður kulda sem eitthvað leiðinlegt. Hvað ef sólarlandaferðin hefði verið ömurleg, þú ein/n úti í 40°C hita, þekktir engan og ekkert hægt að gera. Og hvað ef hin ferðin hefði verið skíðaferð með bestu vinunum og þið hefðuð skemmt ykkur sem aldrei fyrr? Svekkjandi að fordæma hluti, þar sem þá missir maður oftast af skemmtilegustu hlutunum.
Áðan spurði stelpa mig að því hvort að einn vinur minn væri á lausu. Það fékk mig til að pæla enn meira í þessu öllu saman. Hvað ef vinur minn væri hinn mesti sóði og dóni, og hundleiðinlegur í þokkabót? Stelpan myndi ekkert vita það fyrr en hún kynntist honum. Það er aldrei að vita hvort hún myndi líta fram hjá þessum ímynduðu ókostum hjá vini mínum bara fyrir útlitið, en ég efast nú stórlega um það.
En hver kannast nú ekki við að sjá heitu gæjana fara með aðal gellunum á skemmtistöðunum eftir djammið? Ég hef nú satt að segja aldrei séð heita gellu fara með gaur heim eftir djammið sem er ekki fallegur, massaður eða frægur. Skrítið?
Er staðreynd að fallegt fólk sé skemmtilegt? Nei. Er staðreynd að „ljótt“ fólk sé leiðinlegt? Nei.
Það er sorglegt að strákur eða stelpa, sem eru hress, fyndin og skemmtileg í daglegu lífi, fái „ómyndarlegt“ útlit við fæðingu og séu út frá því fordæmd sem ljót og leiðinleg.
Ég er ekki að segja að ég fari alltaf og reyni við feitu og ljótu stelpurnar, þar sem ég geri ráð fyrir því að þær séu hressar, fyndnar og skemmtilegar - alls ekki! Ég er bara að segja með þessu öllu saman að maður á að gefa hlutum séns, þó þeir séu illa útlítandi, afmyndaðir, o.s.frv. Þetta væri svo mikið auðveldara ef allir væru með spurningarmerki í staðinn fyrir andlit.
En svo kemur bitinn sem er einna erfiðast að kyngja, en það er það að útlitið er bara pakkningin. Það segir ekkert til um innihaldið!
Gaui