Til að fólk fatti þessa frásögn hjá mér vil ég taka það fram að ég er í menntaskóla á heimavist.

Í gær var þvottadagur hjá mér. Þvottavélarnar eru kannski ekki í neitt svakalega góðu standi, enda gengur fólk illa um þær, en þær eru nothæfar. Ég setti í þvottavél og prófaði nýja fína þurrkarann, sem virkaði vel. Hin þvottavélin sem ég notaði er aðeins eldri og auðvitað stoppaði hú 5 sinnum! Fyrst opnaði ég þegar hún stoppaði og vatnið fossaði út. Þá smellti ég einn áfram (þetta er svona takki sem snýst, endar efst þegar vélin er búin að þvo). Aftur opnaði ég og pollurinn á gólfinu stækkaði, og sokkarnir voru orðnir frekar blautir. Næst þegar ég kíkti var hún ekki full af vatni en þvotturinn var rennandi. Þá þurfti ég að setja á auka vindingu. Svo loksins þegar hún kláraði að þvo setti ég í annan eldri þurrkara en leist ekkert svo vel á hljóðið í honum svo ég slökkti. Ég kíkti hvort fötin mín væru í lagi og þá voru ryð-blettir úti um allt! Ég fékk auðvitað hálfgert sjokk en fattaði svo að þetta náðist úr. Þegar ég var búin að ná blettunum úr setti ég aftur í vél og hún stoppaði nokkrum sinnum. Ég byrjaði um hádegi og eftir kvöldmat var ég enn að reyna að fá gömlu þvottavélina til að klára að þvo. Ég bý 2 hæðum ofar og var búin að hlaupa upp og niður stigana nokkuð oft!

Jæja, loksins virtist þetta ætla að virka. Ég settist aðeins niður og fattaði þá hvað ég var komin með slæma vöðvabólgu í aðra öxlina og hausverk útfrá því. Apótekið var auðvitað lokað svo og ég átti engar verkjatöflur svo ég fór að spurja alla og enginn átti verkjatöflur. Þegar ég var farin að fá sársaukabylgju í gegnum höfuðið í hvert sinn sem ég leit til hliðar var ég búin að fá nóg. Ég skokkaði í hundraðasta skipti niður stigana og leitaði að húsfreyjunni (sem er virkilega leiðinleg, en á stundum verkjatöflur og annað nauðsynlegt) Hún var auðvitað nýbúin með verkjatöflurnar sínar. Ég þurfti þess vegna að labba upp alla stigana, með harðsperrur og dúndrandi hausverk. Þá var komið að Rockstar Supernova og hausverkurinn hvarf alveg ;)

Í morgun vaknaði ég kl. hálf 8 til að fara í skólann. Ég var að pæla alvarlega í því hvort ég ætti að vera veik heima, því ég fann til í öllum líkamanum (hef ekki náð að sofa mikið nýlega) Ég er búin að standa við afgreiðslu og gera ekki neitt í allt sumar svo ég er ennþá að komast í form fyrir íþróttir, sund og þannig svo ég er búin að vera með stanslausar harðsperrur í nokkra daga, fyrir utan það að það gengur ekkert svakalega vel að snúa sólarhringnum rétt. Ég ákvað nú að fara á fætur og fara í mat. Þegar ég kom fram sá ég að allt þetta var þess virði … BUSAR!!

Fullt af busum, klæddir eins og hálfvitar (stelpurnar í skærum bolum öfugum og sokkabuxum með sundgleraugu og strákar í kjólum með varalit um allt andlit) Í allan dag hafa eldri nemendur skólans skemmt sér við söng, upplestur og dans busanna. Þeir mega heldur ekki nota stiga fyrir “æðri nemendur” og mega ekki sitja í sófum. Alveg yndislegur dagur!