Ég hef alltaf verið með eina rusl-skúffu. Það er yfirleitt efsta skúffan í skrifborðinu mínu. Þessi skúffa þjónar mjög mikilvægu hlutverki.
Ef maður er með einhverja hluti sem maður veit ekki alveg hvað á að gera við, dót, drasl, pappíra og þar eftir götunum sem þú kannski vilt ekki henda, er mjög þægilegt að koma því bara fyrir í rusl-skúffunni.
Ekki misskilja mig. Ég er ekki að tala um rusl í orðsins fyllstu merkingu. Það fer náttúrulega beint í rulsa-fötuna. Til þess er hún.
Svo þegar þig vantar eitthvað af þessu tilgangslausa drasli þá kíkir maður bara í þessa skúffu og finnur það, oftast.
En nú er mál með vexti að ég fékk nýtt skrifborð í jólagjöf. Þetta skrifborð er alveg frábært en hefur þann galla að hafa ENGAR skúffur. Hvar á ég að hafa nýju rusla-skúffuna mína? Eða öllu heldur: Hvað á ég að gera við allt ruslið sem var í gömlu ruslaskúffunni? Ég tók allt úr rusl-skúffunni á gamla borðinu og setti það í poka.
Sá poki liggur enn ósnertur á gólfinu í herberginu mínu. Ég nenni ekki að sortera hann. Hann er bara þarna. Meirihlutinn af þessu er rusl sem ég á aldrei eftir að nota aftur en samt kem ég mér ekki til þess að henda honum. Hefur eitthvað persónulegt gildi…?
Ég er nefnilega kominn í dálitla hnetu með þetta mál……