Þau höfðu verið að keyra uppi í fjöllunum tímunum saman og það var orðið verulega dimmt. Nonni litli var orðinn svangur og hann sá til þess að allir vissu það. Fyrir um það bil einum og hálfum klukkutíma síðan hafði hann kurteisislega tilkynnt foreldrum sínum og eldri systur sinni, Rítu, hversu svangur hann var en núna var ekki arða af kurteisi eftir. Hann var orðinn mjög reiður og byrjaður að gráta: “Ég vil fá mat.”
“Við getum ekkert í þessu gert,” sagði faðir hans, Jóhann. Þau voru hátt uppi í fjöllunum og því líklega enginn veitingastaður hér rétt hjá. “Farðu bara að sofa, litli kall,” sagði mamma Nonna, Elsa. “Ég vil það ekki, ég vil mat.” Allt í einu rak Nonni augun í hús þarna utan í vegkantinum. “Stoppaðu pabbi,” sagði hann, “þarna getum við borðað.”
Jóhann leit þangað sem Nonni benti og sá lítið hús. Hann beygði að því og keyrði inná malarflötina fyrir utan staðinn. “Ég skal fara inn og sjá hvort þetta sé veitingastaður og ef svo er, hvort eitthvað sé varið í hann,” sagði Jóhann. Hann stökk út úr bílnum og inn að veitingastaðnum. Fyrir utan veitingastaðinn stóð stórt skilti sem á stóð The Licabanns. “Örugglega Ítalir,” tautaði Jóhann. Húsið var frekar gamalt, viðarklætt og þakið hellulagt. Hann var næstum því kafnaður í vinalegu andrúmsloftinu sem tók á móti honum þegar hann kom inn. Eldgamalt parket á gólfinu og gamlar myndir af veitingastaðnum á sínu yngri árum. Allt í einu, næstum því upp úr þurru kom maður klæddur í þjónsföt út úr herbergi á hægri hönd Jóhanns. “Get ég hjálpað þér?” spurði maðurinn. “Ja…já,” sagði Jóhann sem greinilega var brugðið, “ég var bara að pæla hvort þetta væri veitingastaður,” spurði Jóhann hikandi. “Jájá, hér geturðu fengið að borða hvað sem er,” svaraði þjónninn um hæl og glotti. Jóhanni virtist vera létt við þetta og sagðist ætla út að ná í fjölskylduna. “Gerðu það,” svaraði maðurinn.
Jóhann fór út og að Volkswagen-inum þeirra. Nonni var hættur að gráta en það sást á honum að hann var ekki sáttur. Jóhann opnaðir hurðina og sagði: “Þetta virðist ekki vera neitt fínt, held að þetta sé gamaldags ítalskur staður. Nafnið, The Licabanns virðist allvega benda til þess.”
“Ég held að við ættum bara að borða hér, við eigum ekki eftir að rekast á annan stað hérna í fjöllunum,” sagði Elsa.
“Komum þá inn. Nonni?”
“Já, ég er að koma,” sagði hann og losaði bílbeltið. “Ég held að ég verði bara hér úti í bíl,” sagði Ríta, “ég er ekkert svöng.”
“Ekki þessa vitleysu,” sagði pabbi hennar, “við getum ekki borðað aftur fyrr en á morgun, þegar við komum á gistihúsið.”
“Vá,” sagði Ríta með sínu gelgjulega viðmóti og fór út úr bílnum, “ég kem þá inn.”
Nonni, Elsa og Jóhann gengu að staðnum á meðan Ríta strunsaði fýlulega á eftir þeim. Maðurinn sem Jóhann hafði talað við áðan var greinilega þjónn. Hann bauð þau velkomin um leið og þau stigu inn. “Velkomin á The Licabanns,” sagði hann með fremur skuggalegri röddu, “má ekki bjóða ykkur sæti?”
Þau þáðu það, greinilega fegin. Þau eltu þjóninn að stofunni þar sem maturinn var borðaður. Þetta gæti næstum því verið heimahús, ekki matsölustaður, svo heimilislegt var þetta. Þetta var greinilega hvorki stór né vinsæll staður þar sem einungis fimm matarborð voru þarna og engir gestir. Á öllum borðunum lágu rauðir og hvítir, köflóttir dúkar. Þjónninn leiddi þau að borði sem var nálægt glugga og eins langt frá eldhúsinu og hægt var inni í þessu litla herbergi. Þjóninn fór inn í eldhúsið og kom út skömmu síðar með fjóra, stóra, græna matseðla. Á matseðlunum stóð með gylltri skrautskrif nafn veitingastaðarins og fyrir neðan það, Matseðill. “Þetta lítur ekkert svo illa út, ha?” Enginn svaraði en þögnin gaf til kynna að þau væru ekkert ægilega spennt. “Látiði ekki svona,” sagði Jóhann og þóttist vera eldhress sem hann var samt sem áður greinilega ekki. “Hvað má svo bjóða ykkur?” sagði þjónninn. “Ég kannast ekkert við þennan mat,” sagði Elsa “mælirðu með einhverju sérstöku?”
“Vitiði hvað?” sagði þjónninn, “ég skal bara koma ykkur á óvart. Vel bara máltíð fyrir hvert og eitt ykkar, hvað segið þið?” Þeim fannst þetta ágætis hugmynd þar sem þau skildu hvorki upp né niður á því sem stóð á matseðlinum. “Ég ábyrgist að þið verðið ekki fyrir vonbrigðum,” sagði hann, glotti við tönn og fór svo inn í eldhúsið. “Mér líst illa á þetta,” sagði Elsa við manninn sinn, “þjónninn finnst mér hálf ógeðslegur og mér finnst staðurinn heldur ekkert merkilegur, eiginlega bara frekar ógeðslegur.”
“Já, ég er sammála mömmu,” sagði Ríta, “höldum áfram að keyra og vonumst eftir því að hitta á annað veitingahús.” Jóhann sagði þeim að hætta þessu, þau væru komin hér og ætluðu að borða hér.
Þjónninn kom fljótlega til baka með drykki handa þeim. Krakkarnir höfðu bæði pantað Coke en Elsa og Jóhann sitthvort rauðvínsglasið. “Maturinn verður tilbúinn eftir smástund,” sagði þjónninn. “Spjöllum aðeins, ég fæ sjaldan gesti, og þegar þeir koma þá staldra þeir sjaldnast lengi við. Hvað eruði annars að gera hér lengst uppi í fjöllum?”
“Við ætluðum að stytta okkur leið til gistihússins sem við eigum bókað á hér yfir fjöllin, við hefðum betur tekið smá hring. Svo varð hann Nonni,” sagði Jóhann og benti á Nonna, “orðinn vel svangur. Þá rákumst við á þessa himnasendingu sem þessi veitingastaður er og ákváðum að láta slag standa.”
“Gott að heyra,” sagði þjónninn, “þið verðið ekki fyrir vonbrigðum.” Hann fór inn í eldhús en kom fljótlega aftur með tvo diska. “Handa krökkunum,” sagði hann hálfsyngjandi og setti diskana á borðið svo hvarf hann aftur inn í eldhúsið. “Hvað er þetta?” spurði Ríta pabba sinn og fitjaði upp á nefið. “Ég veit það ekki, smakkaðu bara.” Þjónninn kom fljótlega aftur með tvo diska til viðbótar sem hann setti fyrir framan Jóhann og Elsu. “Þið fáið bæði rétt númer þrettán.”
“Og hvaða réttur skyldi það nú vera?” spurði Jóhann.
“Réttur númer þrettán, tjahh…hann er sá vinsælasti hér. Verði ykkur að góðu,” sagði þjónninn, glotti og lét sig svo hverfa aftur inn í eldhús.
“Ojj, þetta er ógeðslegt,” sagði Ríta og gelgjan leyndi sér ekki. “Hættu þessu og borðaðu matinn þinn,” svaraði mamma hennar. Ríta hlýddi. “Er það bara ég eða er þetta rauðvín eitthvað þykkt?”
“Mér finnst það eiginlega líka,” svaraði Elsa, “en þó þetta sé öðruvísi en það sem maður er vanur þá finnst mér þetta mjög bragðgott. Hvernig er ykkar matur, krakkar?”
“Mitt er ógeðslegt, það mætti halda að ég væri að borða heila eða einhvern viðbjóð.”
“Mitt er gott,” sagði Nonni hæstánægður með sinn mat. Ríta leit á hann með fyrirlitningu.
Honum finnst það ekki, hann er bara að þykjast vera flottari en hann er!
“Heyrðu, ég þarf eiginlega að fara á klósettið,” sagði Ríta.
“Á ég að koma með þér?” spurði mamma hennar. “Nei, nei, ég redda mér.”
Hún stóð upp og gekk fram að ganginum sem þau gengu inn áðan. Ekki sá hún klósett þar, hún ákvað því að fara fram í eldhús og spyrja þjóninn eða einhvern starfsmann hvar klósettið væri. Hún gekk að eldhúsinu og opnaði hurðina sem var virkilega stór og þykk miðað við eldhúshurð. “Vá, hvað þetta eldhús er ekki í takt við restina af húsinu, svo hvítt og stórt.” Allt í einu heyrði hún hátt öskur. “Ekki gera þetta, látiði mig vera…nei…ekki í hálsinn!” Rítu brá mikið við þetta og ætlaði að fara til baka til fjölskyldunnar en þegar hún snéri sér við og gerði sig tilbúna að hlaupa í örugga arma föður síns hljóp hún beint á flasið á þjóninum. “Hva, ertu að fara eitthvað?”
“Hva…hvað var þetta?” spurði Ríta, “hvaða öskur voru þetta?”
“Já, þetta. Við félagarnir hér á staðnum höfum okkar áhugamál eins og flest annað fólk, okkur finnst gaman að gera stuttmyndir. Þetta var bara hann Jósep að leika atriði í nýjustu myndinni okkar.”
“Er það já, ég held ég fari bara aftur að borða.” Ríta bakkaði frá þjóninum en steig þá um leið í rauðan vökva sem var að leka niður í niðurfallið á dúkalögðu gólfinu. Hún leit upp á þjóninn sem glotti svo sást í skjannahvítar og glansandi tennurnar. Hún sá það á honum að hann ætlaði sér ekki neitt gott.