[Fyrirvari: Farið er frjálslega með sagnfræðilegar staðreyndir. Reyndar mætti segja að ég níðist algerlega á öllu sem heitir sagnfræðilegar staðreyndir.]
„Komdu nú Grímur minn, farðu ekki of nálægt brúninni,“ sagði Jón Sæmundsson nýorðin doktor í læknisfræði blíðlega við son sinn. Það var mollulegt úti, heiðskýrt og glaðasólskin. Heitir suðrænir vindar höfðu fylgt bátnum upp með golfstraumnum. Jón þóttist þó finna af og til fyrir köldum blástri af norðan sem minnti hann á móðurland sitt.
Heldri farþegar skipsins spókuðu sig á þilfarinu í góða veðrinu og flíkuðu klæðskerasniðnum útivistarfatnaði sínu. Sumar konurnar gerðust svo djarfar að afklæðast jakkanum og liggja einungis á blússunni í sólbaði með sólhlífina yfir nefinu. Fyrir fáeinum árum hefði þetta þótt ótilhlíðilegt en þessar dömur fóru flestar að snúa aftur frá heimsborgunum og vissu mæta vel að það var farið að vera dálítið í tísku að vera ekki alveg hefðarhvít í framan.
Kona hans var þó ekki á þessum buxunum. Björg sat bara á dekkinu og lét goluna blása um hárið á sér og gældi við litla stúlkuna þeirra, hana Særúnu. Björg var nútímaleg kona með axlarsítt hnotubrúnt hár, óíslenskuleg möndullaga augu og fáeinar freknur yfir þrýstnum vörunum. Íklædd hnésíðu pilsi og aðsniðnum amerískum jakka og nælonsokkum sást greinilega að hún hafði dvalið lengi í útlöndum. Hendur hennar báru þessi vitni að hún hafði aldrei þurft að vinna erfiðisverk á ævinni.
Jón elskaði hana. Hún var svo hrein og falleg með gott hjarta, hann gat ekki hugsað sér að missa hana. Þau höfðu dvalist í New York nú í 6 ár og ekki átt kost á því að heimsækja Ísland allan þennan tíma. Hann hafði þó fylgst með þjóðmálunum og skrifaði gjarnan í íslensk blöð, ásamt því að taka þátt í starfi Vestur – Íslendinga ef eitthvað var um það. Síðan þau fóru út höfðu þau eignast þrjú lítil börn, tvo drengi og stúlku. Þrátt fyrir að hafa aldrei heimsótt föðurlandið voru þau öll altalandi á íslensku. Jón var stoltur af greind þeirra. Fátt þótti honum merkilegra í heimi hér en þessi þrjú litlu furðuverk.
Honum hlakkaði til að sýna tengdarforeldrunum þau. Hann var orðin þrjátíu og eins árs og loksins búin að klára nám sitt og tilbúin til að sýna tengdarföður sínum hvað í honum bjó.
Meira hlakkaði honum þó til að hitta bróðir sinn og móður aftur. Hann hafði verið afskaplega hændur að þeim en hafði nú ekki sé þau síðan hann var tuttugu og fjagra ára og sneri heim frá Kaupmannahöfn. Bróðir hans bjó nú einhverstaðar á Suðurnesjum og hafði víst komið sér vel fyrir og byggt hús handa sér og móður þeirra. Þetta þótti Jóni aðdáunarvert og var mjög stoltur af bróður sínum. Í gegnum árin hafði Jón alltaf haft það markmið að koma ár sinni nógu vel fyrir borð til þess að geta séð um móður þeirra í ellinni en svo hafði Sævar bróðir hans tekið af skarið og það sýndi greinilega hvaða dugur í honum bjó.
Hann strauk vangann á Sævari, yngsta syni sínum. Hann var nýfarin að geta staðið í lappirnar en sóttist fast eftir því að fá að halda um hendurnar á pabba sínum. Litli kúturinn vaggaði með skipinu og átti augljóslega bágt með að halda jafnvægi. Hann vildi láta taka sig upp en Jón lét það ekki eftir honum heldur hélt áfram að fylgjast með vandræðum hans eitt augnablik. Þá setti drengurinn upp skeifu og gerði sig líklegan til þess að fara að gráta.
„Æi, ekki fara að vola, grey mitt,“ sagði Jón og flýtti sér að taka hann í fangið. Það dugði ekki til því barnsgráturinn var þegar hafinn og það er alltaf erfiðara að stoppa hann en að koma honum af stað. Jón reyndi að hugga hann en hann snökti ámátlega með miklum ekkasogum. Heldur vandræðalegur reyndi Jón að sefa hann.
Björg leit til þeirra og brosti. Henni fannst þetta fyndið.
„Því ertu að græta drenginn svona Jón,“ sagði hún og stríddi honum.
Jón hugðist svara en sá þá að Grímur, eldri sonur hans, var í þann mund að klifra yfir borðstokkinn og útbyrðis.
„Grímur!“ kallaði hann með reiðitón. Grímur sneri aftur til hans sneyptur.
„Hagaðu þér eins og maður, annars hleypi ég þér ekki úr káetunni,“ sagði Jón.
„Guði sé lof að Særún er jafn pen og góð og raun ber vitni,“ sagði Jón við Björgu.
Hann leit að bekknum þar sem Særún sat og var nú sofnuð. Tíminn á miðjum rúmsjó er eilítið öðruvísi en við eigum að venjast á landi. Þar renna klukkustundirnar saman og rútína hversdagsins hrynur til grunna. Þá fer líkamsklukkan bráðum að hunsa hvað tími sólarhringsins er og gerist duttlungafull. Jón gerði sig líklegan til að bera Særúnu upp í koju og fann þá að hann var sjálfur orðin syfjaður. Samt var þetta ekki nema rétt eftir hádegi. Hann sá að það sakaði ekki fá sér eilítinn blund við hlið dóttur sinnar og lagðist því við hliðin á henni eftir að hafa komið henni fyrir.
Stuttu seinna rumskaði hann við skarkala fram á gangi. Hann rauk út. Það þyrmdi yfir hann þegar hann sá hvar Ísland var innan seilingar. Þau voru rétt í fjöruborðinu í einhverri íslenskri sveit. Brátt sá hann hvað hafði ollið uppnáminu. Á stjórnborða gnæfði yfir Goðafossi risastórt sökkvandi olíuskip í björtu báli. Menn voru að nálgast litla fleka í grenndinni sem á voru fáeinir skipbrotsmenn. Alltof fáir til þess að þetta gæti verið öll áhöfnin. Jón fékk sting í magann við tilhugsunina um það að í sjónum umhverfis þá væri líkast til lík hundruða manna.
Íslenskur mektarmaður með uppsnúið yfirvaraskegg kom úr lúkarnum til þess sjá hvað væri að gerast.
„Ég trúi ekki að skipstjórinn hafi gefið fyrirskipun um að draga skipið úr lestinni og herfylgdinni, til þess eins að bjarga einhverjum útlenskum ræflum,“ sagði hann og var bersýnilega yfir sig hneykslaður.
„Láttu ekki svona maður, hér eru menn í neyð, auk þess sem varla færi nokkur sála að ráðast á okkur hérna, við erum svo gott sem í fjöruborðinu á Íslandi,“ sagði Jón.
„Annað eins hefur nú gerst,“ sagði maðurinn hugsi og horfði á Jón. „Þú ert Jón Sæmundsson, ekki satt? Ég kannast við þig. Afar myndarlegur maður. Hef verið að fylgjast með þér hér um borð og verð að hrósa þér fyrir fallega fjölskyldu,“ sagði maðurinn.
„Þakka þér fyrir,“ sagði Jón annars hugar.
„Konráð Friðriksson heiti ég, konsúll íslensku ríkisstjórnarinnar,“ sagði maðurinn.
„Nú jæja,“ sagði Jón. „Þá veit ég hver þú ert.“ Jón kannaðist við nafnið úr blöðunum. Konráð þessi var mikill athafnamaður.
„Þú verður að viðurkenna að þetta er mikið ábyrgðarleysi hjá skipstjóranum,“ sagði Konráð, „að hörfa svona úr skipalestinni. Íslenska Eimskipafélagið ber ábyrgð á miklum verðmætum sem eru hér um borð.“
„Hvaða verðmæti eru hér sem eru mikilvægari en líf þessara aumingja manna?“ Spurði Jón.
„Ó, ég gerist ekki svo djarfur að fara að verðleggja líf þessara útlendinga. En hinu er ekki hægt að neita að um borð er margt muna. Með í för eru m.a. heilu kílómetrarnir af rándýrum koparþræði sem ætlunin er að leggja um allt Reykjanes í þágu framfaranna. Svo ekki sé minnst á verkefni mitt, en mér var fólgið að fara til Bandaríkjanna og fjárfesta í forlátum glæsibíl handa forsetaembætti hins nýstofnaða lýðveldis okkar. Mér þætti það leitt ef hann endaði á hafsbotni,“ sagði Konráð.
„Allt eru þetta nú bara hlutir, herra Konráð,“ sagði Jón.
„Æjæjajú, það er víst satt. Enda annað sem ég hef meiri áhyggjur af, en það eru líf þeirra fjölmörgu íslendinga sem hér eru um borð. Ef það er rétt að hér í grenndinni séu á sveimi þjóðverjar eins og ég hef heyrt fleygt þá er þetta vissulega hið mesta glæfraspil. Það er alls ekki réttlætanlegt að stefna í voða lífi tuga manna fyrir fáeinar hræður,“ sagði Konráð.
Jón var að vissu leiti honum samsinni. Honum varð hugsað til barnanna sinna þriggja sem lágu sofandi niðri í káetu og eiginkonu sinnar og átti sér nú enga aðra ósk heitari en að skipstjórinn hefði látið það vera að gera þau að eftirlegu kindum.
„Nú fer ég upp í stýrishús og læt skipstjórann kurteislega vita óvild mína og bið hann um að flýta sér sem mest hann getur að ná aftur skipalestinni. Þó tel ég það vitavonlaust, enda værum við komin langleiðina til Reykjavíkur ef við hefðum ekki dokað við,“ sagði Konráð. Jón hefði fylgt honum ef það hefði ekki verið fyrir það að áhafnarmeðlimir Goðafoss byrjuðu nú að æpa að fyrsti flekinn væri nú innan seilingar. Jón gleymdi þá öllum úrtölum og þaust til hjálpar.
Á sjónum fáeina metra í burtu velktist einn lítill fleki, sem virtist vera fyrrverandi málmhlemmur af einhverju ótilgreindu. Á honum hýrðust fimm illasærðir menn og mændu á þá.
Reynt var að kasta líflínu til þeirra og tókst það í þriðja kasti. Sá sem var minnst slasaðastur skipbrotsmannanna tók um línuna og með erfiðismunum reyndi nú að toga sig að bátnum. Þetta var átakanleg sjón en hafðist að lokum. Ekki seinna vænna köstuðu björgunarmennirnir kaðalstiga niður til þeirra og þrír þeirra fóru niður því lítil von var á að skipbrotsmennirnir væru þess sjálfir megnugir að klifra upp. Þeir tóku einn í einu á öxl sér og kipptu upp í skipið. Brátt voru allir komnir.
Jón kom aðvífandi og sagði viðstöddum að hann væri læknir og krefðist þess að fá að líta á mennina. Sjálfkrafa fann hann virðinguna spretta fram og menn veittu honum svigrúm.
Það sem hrjáði mennina var aðallega svöðusár og tiltölulega meinlaus brunasár auk þess máttleysis sem volkið veldur manni. Ljóst var að mikið hafði gengið á áður en að mennirnir höfðu náð að komast á fyrrgreindan fleka. Engin sagði þó neitt heldur störðu einungis fram fyrir sig tómu augnaráði augljóslega í losti.
Hann bað um sárabindi og sótthreinsandi og byrjaði að gera að sárum þeirra eftir bestu getu. Í þessu var hann þrautþjálfaður en aðstaðan var á hinn bóginn af skornum skammti. Honum sýndist þeir flestir vera Rússar nema kannski einn sem var ábyggilega bandaríkjamaður en þá þekkti Jón orðið nokkuð vel eftir dvöl sína.
„Excuse me sir, excuse me,“ sagði Jón og reyndi að ná sambandi við piltinn. „Can you tell me what happened?“
Strákurinn svaraði engu og virtist varla heyra í Jóni. Honum að óvörum tók þá til máls einn Rússanna sem sat álengdar honum.
„Þú átt ekki eftir að heyra búfs frá honum framar,“ sagði hann. „Það er miður auðvelt fyrir sálina að sjá eftir bestu vinu sínum hverfa í maga Ægis.“
„En þú talar?“ sagði Jón.
„Já, ég tala. Ég er með harðari skel en þessi brjóstmylkingar,“ sagði rússinn.
„Hvað heitirðu?“ spurði þá Jón.
„Ég heiti Alexander en er kallaður Sasha,“ sagði Alex.
Hann vissi ekki af hverju hann sagði þetta. Hann er venjulega kallaður Alex. Það kallaði engin hann Sasha nema mamma hans sáluga og fáeinir fyrrverandi elskhugar hans. Hann var hrifinn af þessum unga norræna lækni. Eftir að hinn kristni guð hafði lostið skip hans og hrifsað til sína nær alla vini hans hafði þetta norræna goð tekið hann í faðm sér og hjúkrað honum. Alex dýrkaði að fylgjast með ákafanum og einlægninni í augnbliki hans þegar hann reyndi að laga þessa skipbrotsmenn sem hann hafði fengið upp í hendurnar. Alex skyldi þó að þessir flekafélagar hans yrðu trauðla lagaðir enda aðallega skemmdir á sál, frekar en líkama,og lítið hægt að gera úr því héðan af.
Allir vissu að engin gat lagað sálina.
1. hluti
2. hluti