Ákvað að setja hérna inn ræðuna sem ég flutti þegar ég útskrifaðist úr 10. bekk um daginn. Hún allavega vakti lukku í salnum.
Góða kvöldið. Ég heiti *Nafnið mitt* og var beðinn um að flytja hérna smá ræðu sem fulltrúi bekkjarins.
Ég kom hingað í *nafn á skólanum* í 8. bekk og ég bara get ekki lýst því hvað ég er feginn að ég kom hingað. Hér hef ég svo sannarlega átt góða tíma og ég vona að aðrir hafi notið tímans hér jafn vel og ég. Hér höfum við öll eignast góða vini, haft góða kennara og alltaf getað treyst á starfsfólk skólans ef eitthvað bjátar á.
En núna eru mikil kaflaskil í lífi okkar sem við eigum aldrei eftir að gleyma. Hér í *nafn á skólanum* höfum við svo sannarlega fengið góðan grunn fyrir framtíðina og eigum ávallt eftir að minnast tímans hér. En nú þegar honum er lokið taka við nýjar og spennandi áskoranir hjá okkur öllum og má segja að alvaran byrji frá og með þessari stundu, hér eftir kemst maður ekki upp með neitt múður.
Ég vil nota tækifærið og óska samnemendum mínum góðs gengis í því sem þau taka sér fyrir hendur í framtíðinni og ég vona að þau geti látið drauma sína rætast.
Ég vil einnig skila þakklæti til þeirra sem skipulögðu útskriftarferðina okkar sem heppnaðist í alla staði mjög vel og auðvitað þeim kennurum sem komu með. Það er bara eitthvað við það að heyra þá *Nafn á kennara* og *Nafn á kennara* öskrandi í Adrenalíngarðinum. En ég held að ég tali fyrir alla þegar ég segi að flúðasiglingin hafi verið toppurinn í ferðinni. Allir skemmtu sér mjög vel þó svo að sumir hafi þurft að busla aðeins meira en aðrir.
Ég vil að lokum þakka kærlega fyrir þessi þrjú ár sem ég hef verið í *Nafn á skólanum* og ég vildi að ég hefði getað komið hingað fyrr. Ég vil þakka samnemendum mínum fyrir liðnu árin og auðvitað þeim kennurum sem hafa reynt að fela gráu hárin sem líklega hafa sprottið eftir að hafa kennt okkur allan þennan tíma.
Takk fyrir
Endilega segið ykkar skoðanir um hana :)