Jæja ég er ekki vanur gagnrýnandi, en hér kemur mín gagnrýni á RotS.
—
Loksins.
Það eru ekki margar myndir sem ég hef beðið eftir með jafn mikilli eftirvæntingu og þessi. Held engin. Ég er búinn að vera gjörsamlega háður þessari mynd í meira en tvö ár. Hef lesið um hana á hverjum einasta degi, skoðað myndir úr henni, stolist til að lesa spoilera, og að sjálfsögðu horft á trailerana og hin sýnishornin nú í vetur. Þetta er einfaldlega myndin sem ég hef beðið eftir frá því ég uppgötvaði þessar myndir árið 1997, þegar ég fór á Star Wars: A New Hope í bíó.
Revenge of the Sith fjallar um lokaskref Anakins Skywalker að myrku hliðinni, og verður Darth Vader. Það má segja að þetta fall Anakins sé nokkuð ‘smekklega’ gert (þó svo að ýmsir hlutir sem hann gerir í myndinni teljist seint smekklegir), og get ég sagt með góðri samvisku að Hayden Christensen standi sig mjög vel í þessu hlutverki, en mér fannst hann óþarflega stífur og mónótónískur í Attack of the Clones. Í þessari er hann gjörbreyttur og mjög sannfærandi karakter. Það sama má segja um rómantísku atriðin milli Anakins og Padmé. Þau atriði í mynd nr. 2 voru harðlega gagnrýnd fyrir illa skrifuð samtöl og stífan leik. Í ‘Sith’ er þetta mikið betra, og ekkert af þessum atriðum fær mann til þess að líta undan, en nokkuð var um það í fyrri myndinni. Í raun má segja að allt það sem fór í taugarnar á mér við fyrri myndirnar tvær, þ.e. lélegur leikur og illa skrifuð samtöl, hafi stórbatnað í þessari mynd.
Ewan McGregor (Obi-Wan Kenobi), Samuel L. Jackson (Mace Windu) og Jimmy Smits (Bail Organa) standa sig mjög vel í sínum hlutverkum, en sá leikari sem stendur uppúr er Ian McDiarmid, sem Palpatine keisari. Hann er frábær í sínu hlutverki, betri en hann var í Return of the Jedi, og ekki var hann lélegur þar! Annar leikari sem á líka skilið mikið hrós er Frank Oz, ásamt teiknurum ILM, sem glæddu Yoda lífi af mikilli fagmennsku. Hrein unun var að fylgjast með honum alla myndina.
Það eina sem ég hef útá myndina að segja, er nýi ‘vondikallinn’ General Grievous. Mér fannst hann ekki virka nægilega vel, ekki eins vel og hefði getað orðið. Röddin í honum var tilgerðarleg, og ekki skildist alltaf hvað hann sagði. En að öðru leyti stóð ILM sig mjög vel varðandi þennan karakter, enda algjörlega tölvugerður.
Tónlistin í myndinni er frábær! Þó svo að margir telji John Williams alltaf vera eins og að hann þori ekki að taka áhættur, þá verða þeir hinir sömu að viðurkenna að það sem hann gerir, gerir hann vel. Og það gerir hann í þessari mynd. Hann nær að blanda tónlistinni úr gömlu og nýju myndunum fullkomlega saman, og myndar úr því mjög góða heild. Auk þess eru nýju stefin mjög góð, og fanga anda myndarinnar mjög vel.
Aðrir hlutir, eins og kvikmyndataka, hljóðvinnsla, tæknibrellur, handrit og leikstjórn, sleppa alveg til, og hef ég lítið útá það að setja. Ekkert af þessu var fullkomið, en það var allt vel unnið, enda fagmenn á borð við Ben Burtt, David Tattersall, Rob Coleman og John Knoll að störfum, að ógleymdum George Lucas, sem ætti nú að hafa slegið á allar efasemdir um leikstjórnarhæfileika sína.
Þegar öllu er á botninn hvolft er þessi síðasta kvikmynd Star Wars-seríunnar mikið afrek, og frábær endir á þessari 30 ára ferð sem George Lucas hóf um miðjan 8. áratuginn. Fullt hús!
****