Pinochet Smá viðbót við greinina um Chile… Hér sést Augusto Pinochet ásamt herforingjaklíku sinni skömmu eftir valdaránið. Berið þetta saman við myndina sem fylgir greininni (þar sem hann spjallar við Allende skömmu fyrir valdaránið), og takið eftir hversu gjörbreytt hans fas er hér orðið. Hér er hann skyndilega orðinn hinn erkitýpíski Suður-Ameríski einræðisherra. Hann hafði allan sinn feril verið úlfur í sauðagæru.

Af honum er það annars að segja að hann er enn á lífi, kominn yfir nírætt. Hann lét friðsamlega af völdum árið 1990, gegn því að verða ekki sóttur til neinna saka. Hann var þó handtekinn í London árið 1998, (þar sem hann var að heimsækja Margaret Thatcher, sem frægt varð) en sleppt eftir miklar lagadeilur. Síðan þá hefur hann verið stjórnmálamönnum og lögfræðingum þriggja landa (Bretlands, Spánar og Chile) endalaus höfuðverkur, og ekki hefur reynst unnt að dæma þetta gamalmenni. Líklega verður mörgum létt þegar hann kveður þennan heim, sem hlýtur að verða bráðlega.
_______________________