Og til að bæta gráu ofan á svart þá var stór hluti DD skriðdreka Hobarts einnig sjósettur of langt frá landi, þannig að stór hluti þeirra sökk ásamt áhöfn sinni áður en þeir komust í land.
Aftur á móti er ekki einungis hægt að kenna um “heimsku” Bandaríkjamanna. Aðstæður á Omaha strönd voru mun erfiðari en á nokkurri hinna strandanna. Há björg, sem gnæfðu yfir innrásarsvæðinu, gerðu Þjóðverjunum kleyft að hafa allt innrásarsvæðið í skotlínu sinni. Auk þess var 352. herdeild Þjóðverja, sem sá um vörn Omaha-svæðisins, best vopnum búin allra herdeila sem í Normandie voru. Að lokum voru aðeins örfáir, þröngir troðningar sem lágu upp í land. Þess vegna var lengi vel var tvísýnt um það, hvort Omaha ströndin yrði hluti af fyrirhuguðu innrásarsvæði Bandamanna á innrásardaginn en að lokum var ákveðið að halda henni inni, enda væri vart óhætt að skilja svo langt, óvarið svæði eftir í höndum Þjóðverja, sem skildi þá algjörlega að strendur Utah og Gold.
Á Utah strönd gekk innrásin aftur á móti mun betur (að því gefnu, auðvitað, að gengið var á land á röngum stað). Þegar Theodore Roosevelt, hershöfðingi og aðstoðaryfirmaður 4. fótgönguliðsdeildarinnar gerði sér grein fyrir mistökunum, tók hann þá áhættu að beina þeim hersveitum sem enn voru ekki komnar í land, að landgöngustað sínum. Þetta átti eftir að borga sig, því þrátt fyrir það að Þjóðverjar hefðu hleypt vatni inn á akra yfir ströndinni og flætt hefði yfir stóran hluta svæðisins, þá komst landgöngulið á Utah nokkuð auðveldlega í land.
Sömu sögu er þó ekki að segja um kanadísku hersveitirnar sem gengu á land á Juno strönd, og tel ég það ofsögum sagt að landgangan sjálf hafi gengið frábærlega. Mannfall þar (fallnir og særðir) var um 50%, eða næsthæst á eftir Omaha strönd. Þrátt fyrir þessi vandkvæði voru Kanadamennirnir þeir einu sem náðu öllum markmiðum sem þeim höfðu verið sett á D-Dag. Eru þeir ófáir sem vilja þakka baráttuþreki og vilja kanadamannanna þessi afrek, enda höfðu margir þeirra harma að hefna síðan Dieppe, 1942.
Og enn og aftur hef ég eytt mun meiri tíma í skrif hér á huga en ég ætlaði mér.