Þetta er löng grein, aðallega af því hún var ekki skrifuð sem grein fyrir huga heldur sem ritgerð upp í skóla. Ég ætla að henda henni hérna upp ef ske kynni að einhverjir séu jafn áhugasamir um víkinga og ég. :)
GALDRAMÁTTUR SKÁLDSKAPARINS
…eða hvernig Óðinn stal ljóðunum
Þegar kveðskapur var fluttur í höllum fornkonunganna gat hann tekið talsverðan tíma í flutningi, að minnsta kosti miðað við lengd kvæðanna. Atburðirnir sem kvæðin lýsa eru vissulega spennandi og uppfullar flóknum táknum, en til þess að fólk gæti haldið út að hlusta á kvæðamanninn þá hlaut hann að þurfa að flytja þetta líflega. Sumir voru betur metnir en aðrir vegna hæfileika sinna til að flytja kveðskap. Þess vegna tel ég ljóst að þetta getur ekki bara hafa verið þurr textaflutningur heldur hlýtur hann að hafa verið uppfullur af mögnuðum leiktilþrifum. En þar sem einu heimildirnar eru bókmenntalegs eðlis og að auki með knöppum lýsingum sem lýsa einungis grunngjörðum nánast eins og leikhandrit, þá geta þau ekki gefið okkur góða mynd af þessu. Í öðru lagi þá voru munkarnir sem rituðu lýsingarnar vanalega fjarri konungshirðunum og sögðu frá atburðum sem þeir höfðu ekki upplifað, jafnvel atburðum sem gerðust mörg hundruð árum fyrir fæðingu þeirra. Þótt að kveðskapurinn lifði ennþá í formi textans þá gátu klausturritararnir ekki vitað hvernig hann átti að vera fluttur. Ekkert frekar en við vitum nokkuð um hvernig Shakespeare leikrit voru sett upp á sextándu öld. Við höfum í það minnsta ritaðar heimildir frá sextándu öld, en munkarnir byggðu öll skrif sín á munnmælasögum. Auk þess virtust munkarnir flestir, ekki skilja merkingu textans enda er oft misræmi í handritunum.
Til þess að við getum gert okkur betur í hugarlund hvernig kveðskapurinn var fluttur þá verðum við að skoða þær heimildir sem við höfum um hann og flutning hans. Við verðum að sjá hver tilgangur hans hefur verið og hvert upphaf hans var. Ef við skoðum hann nánar þá komumst við að því að skáldskapur var tengdur við galdra og með því að virða hann fyrir okkur þá getum við jafnvel varpað ljósi á hvernig galdraathafnir og seiður hafa farið fram til forna.
Hlutverk ljóðskáldsins
Kveðskaparhefð norrænna manna hefur að einhverju leyti varðveist inn í okkar samfélag. Enn er til fólk sem notast við stuðla og höfuðstafi við að skapa kvæði, en þó er kvæðaformið allt annað, en það var á tímum heiðninnar.
„Konungur þakkaði honum kvæðið og kallaði til sín féhirði sinn og mælti svo: „Hverju skal launa kvæðið?”
Hann svarar: „hverju viljið þér herra” segir hann.
„Hversu er launað,” segir konungur, „ef ég gef honum knörru tvo?”
Féhirslumaður svarar: „Of mikið er það herra,” segir hann. „Aðrir konungar gefa að bragarlaunum gripi góða, sverð góð eða gullhringa góða.”
Þessi úrdráttur er úr Gunnlaugssögu Ormstungu. Gunnlaugur kemur til Írlands og flytur Sigtryggi konungi kvæði samið honum til lofs. Sigtryggur er nýorðinn konungur og veit ekki hversu vel hann á að launa kvæðið þótt honum líki það. Hann spyr því ráðgjafa sinn hvort tvö skip séu full mikið. Eflaust hafði féhirðirinn rétt fyrir sér, að tveir knerrir væru fullmikið. En augljóst er að það þótti ekki mikið tiltökumál að veita góðum kvæðamanni tvo gullhringi að launum.
Á tímabilinu 800-1000 lögðu konungar á norrænum slóðum mjög mikla áherslu á að hafa hirðskáld. Það er þó mikilvægt að mínu mati að það sé ekki einvörðungu litið á þessi skáld sem höfunda heldur líka sem flytjendur.
Mikilvægi kvæðanna var líka mikið. Fyrir það fyrsta voru vel samin kvæði flutt út um allt ríkið. Og í heimi þar sem engin les og engir fjölmiðlar eru, þá hefur kvæði sem sýnir konunginn í jákvæðu ljósi svipuð áhrif og góð auglýsingaherferð í dag.
„Kom gríðar læ
að Gjalpar skæ:
bauð úlfum hræ
Eiríkur af sæ.
Lætur snót saka
sverð-Frey vaka,
en skers Haka
skíðgarð braka;
brustu broddar,
en bitu örvar…”
Þetta kvæði lýsir því hvernig Eiríkur konungur „Blóðexi” fer í stríð, orðstír um að vera hættulegur stríðsmaður hefur komið sér vel þegar aðrir konungar velta fyrir sér hvort þeir ættu að hætta á átök við hann. Kvæðin gegndu mikilvægu hlutverki sem sagnfræðilegar heimildir, þegar norrænir menn seinna hófu að rita sögu sína. Reyndar var hluti af ástæðunni fyrir því að konungar höfðu skáld við hirð sína sú að þeir vildu tryggja að einhver myndi muna sig eftir þeirra dag. Góður kveðskapur verður aldrei of gamall. Eða eins og segir í Hávamálum:
„Deyr fé, deyja frændur,
deyr sjálfur hið sama.
en góður orðstír deyr aldrei.”
Mikil áhersla var á formið, og því flóknara sem kvæði var í tilvísunum og orðaflækjum, því betur þótti það ort. Það segir þó ekkert til um vinsældir þess á meðal alþýðunnar, en svo mikið er víst að í efri stéttum samfélagsins þóttu torskildari kvæði fínni pappír. Þessu er lýst í Heimskringlu, nánar til tekið, í Haraldar sögu harðráða:
„…Svo segja menn að Haraldur konungur Sigurðarson kvað vísu þessa:
Fram göngum vér
í fylkingu
brynjulausir
und bláar eggjar;
hjálmar skína;
hef-k-at mína.
Nú liggur skrúð vort
að skipum niðri.
Emma hét brynja hans. Hún var svo síð og svo sterk að aldrei [aldri] hafði vopn á fest.- Þá mælti Haraldur konungur Sigurðarson: „Þetta er illa kveðið og mun verða að gera aðra vísu betri.” Þá kvað hann þetta:
Krjúpum vér fyr vopna,
valteigs, brökun eigi,
svo bauð Hildr, að hjaldri,
haldorð, í bug skjaldar.
Hátt bað mig, þar-s mættust,
menskorð bera forðum,
Hlakkar ís og hausar,
hjálmstofn í gný málma.”
Þessi bútur úr Heimskringlu segir okkur margt um afstöðu víkinganna til skáldskapar. Af hverju skyldi Haraldur telja fyrri vísu sína illa samda? Hann verður án vafa fyrir lítilli gagnrýni enda er hann mikill stríðskonungur með viðurnefnið hinn harðráði. Til að varpa ljósi á þetta vitna ég í orð Heimis Pálssonar og túlkun hans á þessu atviki:
„Mismunur vísnanna tveggja á ekki síst rætur í bragarhættinum. Hin fyrri er látlaus að formi og fá orð hennar sjaldgæf eða sérkennileg. Varla að þurfi að skýra nokkurt orð nema samsetninguna „hef-k-at” fyrir nútímafólki, en þarna er á ferðinni samandregin mynd úr so. +psfn. +neitun (-at) og merkir þá „hef ég ekki”. Eru þvílíkar myndir algengar í öllum fornum kveðskap. –Seinni vísan er kveðin undir allt öðrum og vandmeðfarnari bragarhætti.”
Hér sést hversu svipuð viðhorf nútímamanna og fornmanna eru til skáldskapar. Því erfiðara sem það er að gera listaverkið þeim mun betra gerum við ráð fyrir því að það sé. Í þokkabót virðist Haraldur konungur áætla að því erfiðara sem það er að skilja verkið, þessu betra sé það samið. Víkingarnir voru alls ekki með ólík viðhorf og við sjálf í þessum efnum. Til dæmis töldu þeir að sorgarkvæði sem á alvarlegan máta lýstu dauða söguhetjanna væri skörinni hærri en gamankvæði. Hér má segja að endurspeglist fremur aristótelísk skoðun á efninu. Eða er þetta kannski sammannlegt viðhorf?
Kvæðin gátu vissulega verið gamansöm, en þau voru líka talin búa yfir galdramætti. Að yrkja níðvísu var ekkert gamanmál. Bjarna saga hítdælarkappa segir mjög ítarlega frá málaferlum og deilum sem spretta aðallega upp frá kveðskap og enda á vígaferli. Í Egilssögu vill Eiríkur Blóðöx drepa Egil fyrir níðvísurnar sem hann orti um hann. En að lokum náðar hann Egil þegar Egill yrkir handa honum lofkvæði. Egill er reyndar eitt magnaðasta ljóðskáld í sögu Íslands. Sá næst besti reyndar á eftir þeim sem ritaði ævisögu kappans.
Snorri Sturluson skrifaði Heimskringlu, Snorra Eddu, Hávamál, og að öllum líkindum Egils sögu . Hann er okkar helsta heimild hvað varðar skáldskap fornmannanna. Hann var ekki munkur en kristin var hann þó, og eru viðhorf hans nokkuð lituð af því. Hann skrifar Snorra Eddu til þess einmitt að varðveita þekkingu landa sinna á hvernig skáldskapur ætti að vera samin. Þar er að finna mikið af goðafræði og Snorri reynir að vera hlutlaus í skrifum sínum um norræna guði. Hann tekur fram strax í byrjun að hann riti ekki ritið af því hann trúi sem í því stendur, enda er ekkert grín að vera ásakaður um villutrú á miðöldum. Hann tekur skýrt fram að nauðsynlegt sé að þekkja til goðafræði til þess að geta orðið gott skáld og með því afsakar hann rit sitt.
Hvers vegna segir hann það? Af því að öll tákn innan skáldskaparins eru meira eða minna trúarleg. Þau vitna í sögur um goðin, máli mínu til stuðnings vitna ég í Egil sjálfan og kvæði hans um látinn son sinn:
„Mjög hefir Rán,
ryskt um mig,
er eg ofsnauðr
að ástvinum;
sleit mar bönd
minnar ættar,
snaran þátt
af sjálfum mér.”
Sonartorrek er fallegt og hjartnæmt kvæði hafi maður skilning til að rýna í það. Tökum eftir fyrstu setningunni. Rán er nafn, hún er gyðja sjávarins . Þegar Egill segir að Rán hafi leikið sig illa, þá meinar hann að sonur hans hafi drukknað. „Sleit mar bönd minnar ættar, snaran þátt af sjálfum mér.” Þetta er afar einfalt dæmi og því hentugt til útskýringa en í Sonartorrek sem og flestum öðrum kvæða víkingatímans eru miklu flóknari líkingar, sem krefjast mun meiri sérfræðiþekkingar. Oft sérfræðiþekkingar sem við höfum glatað í dag.
En hvers vegna er svona mikil áhersla á goðsögulegar tilvísanir? Af hverju er mest áhersla lögð á slíkar líkingar hjá Snorra? Er það kannski sökum þess að skáldskapurinn á sína rót að rekja einmitt í trúarlegar athafnir?
Gálgadrottinn
Trúarathafnir norrænna manna voru án vafa bæði fjölbreyttar og fjölmargar. Þær snerust um náttúrudýrkun, frjósemisdýrkun og fórnum til stríðsguða. Nærri allar heimildir sem til eru um þessa atburði eru ritaðar af kristnum mönnum. Í sumum tilvikum eru það kristnir samtímamenn en vanalega eru þær ritaðar þó nokkuð eftir á. Oftast eru þær talsvert ýktar og líka neikvæðar í garð hins forna átrúnaðar. En þótt að ritun kristinna manna líkt og Adams frá Brimum [Bremen] hafi verið neikvæð og fordómafull, þá er samt afar öruggt að athafnir þeirra hafi ekki fallið að almennu siðgæði vestrænna nútíma manna.
Það eru mjög margar heimildir sem benda til þess að mannfórnir hafi átt sér stað. Eitt af auknefnum Óðins var gálgadrottinn og talið er að það sé sökum þess að menn voru hengdir honum til dýrðar. Við skulum vitna hér í orð Adams frá Brimum:
„Af öllum karldýrum er fórnað níu ; með blóði þeirra er siður að blíðka goðin. En skrokkarnir eru hengdir upp í lundi einum rétt við hofið. Lundur þessi er heiðnum mönnum svo heilagur að hvert tré í honum er álitið guðdómlegt vegna dauða og rotnunar fórnardýranna. Þar hanga hundar og hestar ásamt mönnum og kristinn maður hefur sagt mér að hann hafi séð 72 skrokka hanga þar hverja innan um aðra.”
En Adam frá Brimum er ekki sá eini sem talar um fórnir til Óðins. Snorri segir í fyrsta hluta Heimskringlu, Ynglingasögu, frá tveim konungum og tengslum þeirra við Óðinn.
„…Ólafur konungur var lítill blótmaður. Það líkaði Svíum illa og þótti þaðan mundu standa hallærið. Drógu Svíar þá her saman, gerðu för að Ólafi konungi og tóku hús á honum og brenndu hann inni og gáfu hann Óðni og blótuðu honum til árs sér…”
„…Eftir fall Ála fór Aun konungur aftur til Uppsala og réð þá ríkinu enn tuttugu vetur. Þá gerði hann blót mikið og blótaði öðrum syni sínum. Þá sagði Óðinn honum að hann skyldi æ lifa, meðan hann gæfi Óðni son sinn hið tíunda hvert ár,…”
En vissulega er Óðinn ekki einn um fórnir. Þór er líka blótað, en á allt annan hátt. Bök glæpamanna eru brotin honum til heiðurs á sér til gerðum steinum. En á þeim tveim er mjög stór munur. Á meðan Þór er vinsæll meðal alþýðunnar og álitinn hæstur goða þeirra á meðal, þá er Óðinn guð elítunnar. Það er óumdeilanlega athyglisverð staðreynd að sá guð sem talinn er alfaðir, örlagavaldur og guð galdra, sé líka álitin guð skáldskapar. Óðinn er einmitt guð menntamannsins. Hann er hinn forni guð sem tók hina dauðu til sín. Athöfnin að hengja glæpamenn er án vafa sprottin frá dýrkun hans. Þegar líður á víkingaöldina er hann í auknum mæli tekinn upp af skáldum og konungum. Óðinn er sagður hafa fundið upp rúnaletrið eftir að hafa hangið öfugur upp í tré í níu daga og níu nætur. Þetta klingir nokkrum bjöllum, heilaga talan níu og heilaga gjörðin að hanga. Samkvæmt goðsögunum þá er það með þessu móti sem Óðinn uppgötvar galdra. En er það hið eina sem rúnaletur gengur út á? Alþýða manna tengdi þetta við galdra enda gat hún ekki lesið skriftina. Skáld, konungar, höfðingjar og annað yfirstéttarfólk, þeir sem tilbáðu Óðinn voru þeir sem notuðu rúnaletur Óðins til samskipta. Honum er einnig þakkað fyrir að hafa komið með skáldskapinn, en hann rænir einmitt skáldskaparmiðinum af jötnum. Það er algengt í frásögnum fornmanna að skáld þurfi að verða drukkinn til að komast í rétt ástand til að yrkja. Margir telja að það sé arfur af því annarlega ástandi sem sjamaninn þarf að vera í, til þess að geta séð um athöfnina.
„Þegar stríðsmaðurinn og skáldið leggja sig fram til hins ítrasta reynast þeir eiga sameiginlega eðlisþætti. Hvortveggi fer yfir venjubundin mörk, er gripinn hrifningu, eldmóði, hamsleysi, geðhrifum, - stríðsmaðurinn í hamstola fífldjarfri framsókn sem nær hámarki í ólmum berserksgangi – skáldið í ljóðrænu algleymi þegar listin gagntekur eðli hans og guðdómurinn mælir spámannlega með tungu hans. ”
Eru stríðsmaðurinn og skáldið báðir hápunktar karlmennskunar? Nei því fer fjarri, því skáldskapurinn hefst ekki með Óðni. Honum er stolið af Óðni og það eru kvenmenn sem byrja að yrkja. Nú kunna ýmsir að reka upp stór augu, stal Óðinn skáldskapnum? Svarið er í goðsögunum, Óðinn játar það sjálfur að hafa stolið skáldskapnum. Í Snorra Eddu segir einmitt frá því þegar hann ferðast til Suttungs jötuns og stelur frá honum mjöðnum sem veitir manni skáldskapargáfuna. Eitt af því sem hann framkvæmir til að öðlast þennan töfradrykk er að tæla til sín dóttur hans Gunnlöð sem veitir honum mjöðinn. Óðinn sjálfur sækir í mörgum sögnum visku sinna til alls kyns völva. Meðal annars í Baldurs draumi, en þá ferðast hann til heljar undir dulnefni til að leita ráða hjá völvu. Hún lætur nauðug frá sér upplýsingarnar.
Þetta er í raun frásögn af því þegar Óðinn, stríðs og dauðaguð tekur til sín náðargáfuna að yrkja og gerir að sinni. Sagan um það þegar hann hangir upp í tré til að öðlast þekkingu á rúnum er einnig saga af því hvernig hann sækir sér visku. Þegar Óðinn gefur annað augað sitt í skiptum fyrir visku eru þetta viðskipti. Hvarvetna sem Óðinn fer, þá sækir hann visku, en hann á hana ekki fyrir. Hvaða merkingu hefur það?
Í Lokasennu segir Loki eftirfarandi við Óðinn:
„En þig síga kváðu
Sámseyju í
og draptu á vétt sem völur,
vitka líki
fórtu verþjóð yfir
og hugða á það args aðal.”
Hvað merkir þetta? Loki segir að Óðinn hafi farið út í Sámseyju og barið á trommu líkt og völva. Síga merkir líklega seiður, og vétt sennilega tromma. Verþjóð er mannkyn, sumsé, þegar Óðinn fór út í Sámseyju þá iðkaði hann seið og í líki vitka ferðaðist hann um mannheima. Þetta notar Loki sem móðgun, en það er ekki þannig sem við myndum vanalega túlka galdra. Að vera galdramaður er ekki beinlínis kvenlegt á tuttugustu öld, þar sem erkitýpan af galdramanni er einmitt maður með sítt skegg og oddmjóan hatt. Svipað og Gandálfur birtist okkur, svipað og Dumbledore í Hogwarts birtist okkur og svipað og Óðinn birtist okkur á myndskreytingum 19. og 20. aldar. Það er nú aldeilis ekki kvenlegt að vera með sítt og mikið skegg.
Lokasenna birtist í Sæmundar Eddu, en nokkru síðar skrifar Snorri í Heimskringlu sína þetta:
„Óðinn kunni þá íþrótt, svo að mestur máttur fylgdi, og framdi sjálfur, er seiður heitir, en af því mátti hann vita örlög manna og óorðna hluti, svo og að gera mönnum bana eða óhamingju eða vanheilindi, svo og að taka frá mönnum vit eða afl og gefa öðrum. En þessi fjölkynngi, ef framin er, fylgir svo mikil ergi, að eigi þótti karlmönnum skammlaust að fara, og var gyðjunum kennd sú íþrótt.”
Vissulega er það nokkuð gott að vita um óorðna hluti. Geta stýrt lífi og dauða, hamingju og óhamingju, tekið frá öðrum vit og afl og gefa meira að segja til annarra. En það er samt ekki sérlega „karlmannlegt.” Í ljósi þess að galdraiðkun þótti kvenleg dyggð þá er kannski skiljanlegt að meirihluti þeirra sem brenndir voru á báli fyrir galdraiðkun voru konur. Allstaðar voru konur í meirihluta, nema á Íslandi, en á Íslandi voru það karlarnir sem voru frekar ásakaðir um slíka hluti. Íslendingar viðhéldu líka hefðinni í kringum tengslin milli kveðskapar og galdraiðkunnar.
„ Fúli fjandans bolur
Fari í vítis holur;
Angrist æ óþolur
Hinn aumi heljar kolur;
Þar flæmist argar fýlur
Um fjögur þúsund mílur;
Skrattans skemmdar grýlur
Skreiðist frá með ýlur.”
Þetta erindi er bútur úr Snjáfjalla vísum sem Jón Guðmundsson kennimaður á 17. öld notaði til að kveða niður draugagang. Það sýnir að sjö öldum eftir að kristnin varð opinber þá er það ennþá trú manna að skáldskapur sé tengdur göldrum. Það er kannski skiljanlegt, ef við skoðum þetta í hlutfalli við aðra hluti. Árið 1000 var kristni gerð opinber trú en blót voru leyfð svo lengi sem þau voru í felum. Þegar kirkjan varð síðar meir máttugri hætti fólk ekki að gefa vættunum mat, heldur fundu upp á sögum til að afsaka hefðirnar. Það er talið að þaðan séu komnar hugmyndirnar um jólasveinana sem koma til byggða og stela mat á jólunum. Sem vill svo til að er einmitt stærsta trúarhátíð bæði heiðninnar og kristninnar.
Völuspá
Völuspá er eitt umdeildasta kvæði víkingatímans. Sumir vilja meina að það sé ævafornt en aðrir vilja meina að það sé mjög nýtt, samið rétt eftir árið 1000. Þeir sem eru á því áliti að það sé ungt benda oft á að ragnarrökin sem koma fram í lok kvæðisins sé hugtak sem varð til seint á víkingaöld. Víkingar tóku hugmyndina um dómsdag og himnaríki frá kristnum, höfundur Völuspáar er í raun hálf kristinn. En hver sem aldur Völuspáar í raun og veru er, þá er það víst að rætur þess eru ævafornar og mun eldri en byggð á Íslandi. Þau rök finnast mér ekki góð og gild, fyrir það fyrsta hlýtur maður að spyrja sig, hvað er átt við með hálf kristinn? Vissulega fyrirfannst það fólk sem lét prímsignast og gat þar með fengið að umgangast kristna og heiðna, en að prímsignast er ekki trúarleg játning. Að prímsignast var það sem prestar á víkingatímanum gerðu við kaupmenn frá Norðurlöndum til þess að reka úr þeim illa anda. Þar sem allir heiðnir voru haldnir illum öndum var ómögulegt að umgangast þá, og þess vegna varð að prímsigna þá. Þeir héldu samt áfram að tigna sín goð eftir signinguna. Hvað varðar kristni þá er bara annað hvort eða, og í Völuspá fyrirfinnast mörg goð en enginn Kristur.
Margt er torskilið við Völuspá til dæmis dvergatal sem sumir fræðimenn telja að eigi að sleppa. Þær hugmyndir voru ástæðan fyrir grein Heimis Pálssonar í Skírni sem hét Til varnar dvergatali, þar segir hann meðal annars:
„Frumgerð Völuspár var ekki skrifborðskvæði, hún var gerð til munnlegs flutnings, til dæmis við dramatískar aðstæður á trúarhátíðum.”
Þar leggur Heimir til að dvergatalið sé þáttur í baráttu goðanna gegn óreiðu. Það sé jafnvel dramatískur hápunktur verksins. Hver og einn einasti dverganna þjóni tilgangi við að koma reglu á skipulag alheimsins, en sökum þess hversu hratt dvergarnir fjölga sér er ómögulegt að stýra þeim og því koma þeir í lokin á meiri óreiðu en þeir draga úr.
Ef þetta er dramatískur flutningur á trúarhátíð eins og flestir eru sammála um, hver er þá flytjandinn? Það er nokkuð öruggt að ekki er um hefðbundið skáld að ræða þar sem hér er ekki verið að segja frá sögufrægum orrustum eins og í kvæðum um konunga. Hér er heldur ekki gamanvísa eða níðvísa eftir spéfugl á borð við Bjarna Hítdælakappa. Flytjandinn er völva, eða spákona. Hún sér sýnir úr níu heimum:
„Níu man eg heima,
níu íðviðjur,
mjötvið mæran
fyr mold neðan.”
Ef um er að ræða spákonu sem spáir í samræmi við tíðarandann komandi ragnarrökum þá gæti vel verið að upptalninginn sem spákonan þylur í dvergatalinu, sé ætluð til að koma henni í einhvers slags leiðslu.
Hvernig vitum við að það er ekki Óðinn sem kennir völvunni að yrkja fremur en að Óðinn læri það af konum? Sumir segja að í Völuspá sæki Óðinn ráð til völvunnar. Aðrir segja að valvan sæki ráð til Óðins. Ekki er auðvelt að ráða út úr þessu erindi:
„Ein sat hún úti
þá er hin aldni kom,
yggjungur ása,
og í augu leit:
„Hvers fregnið mig?
Hví freistið mín?”
Allt veit ég Óðinn
hvar þú auga falt
í hinum mæra
Mímisbrunni.”
Byrjum á að velta fyrstu setningunni fyrir okkur. Ein sat hún úti, hvað merkir það? Útiseta er orð yfir aðferð sem spáfólk notaði til að öðlast yfirnáttúrulega vitneskju eða komast í samband við yfirnáttúrulegar verur. Í bókinni Eddukvæði reynir Gísli Sigurðsson að komast til botns í hvað framhaldið merkir:
„…yggjungur ása: Óðinn. í augu leit; margs konar kraftur og vald yfir öðrum tengjast augnaráði. freista: Reyna, prófa. falt: fólst (sbr. fólgið í 27.er.), selja að veði. Ýmist er hægt að túlka þessa vísu svo að völvan sé að segja Óðni söguna (sem gerir útisetu hennar þá illskiljanlega) eða (eins og hér er gert) að Óðinn hafi birst völvunni við útisetuna og spurt hana hvað hún vildi frétta frá honum.”
En er það virkilega svo, eða hefur kvæðinu verið snúið á hvolf?
Samíski uppruninn
Mörg rök hníga til þess að skáldskapur eða í það minnsta hluti af skáldskaparhefð okkar sæki tilvist sína til Sama. Samar búa í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi og eiga í dag sitt eigið þing . Þegar talað er um Finna í fornbókmenntum er átt við þá, en finnska þjóðin er ekki samísk og einu sinni náskyld Sömunum. Samarnir bjuggu á Norðurlöndunum áður en germanskar þjóðir settust þar að. Einn sá fræðimaður sem helst hefur rannsakað tengsl íslenskrar og samískrar menningar, Hermann Pálsson, bendir í bók sinni „Úr landnorðri”, á fordóma sem ýmsir voru haldnir gagnvart Sömum. Til er hugtakið Finntröll, og tröll sem í þjóðsögum er notað yfir ýmsa óvætti rekur ættir sínar til uppnefna, sem norrænir menn höfðu á Sömum.
„Norska orðið hálffinnur er hlutlaust, rétt eins og við er að búast um heiti í lagamáli, en hins vegar fela nöfnin hálftröll, hálfrisi og hálfbergrisi í sér niðrandi merkingu. Af þessum samsettu orðum má hiklaust draga þá ályktun að síðari hlutar þeirra –tröll, risi, bergrisi- hafi verið notaðir einir og sér í merkingunni ‘Sami’, og svipað kann að hafa átt sér stað um þurs, jötunn, og önnur orð af slíku tagi.”
Oft er talað í fornsögunum um fólk sem elst upp á meðal trölla, það er líka talað um hálftröll sem flytja til Íslands svo sem í Bárðar sögu Snæfellsáss. Með þessari útskýringu Hermanns á orðinu er búið að gera þær frásagnir rökréttar. Fólkið sem um ræðir hefur einfaldlega alist upp á meðal Sama eða verið af Samískum ættum. En þessi söguskoðun setur talsvert aðra merkingu í þegar völvan segir í öðru erindi völuspár:
„Ég man jötna
ár um borna,
þá er forðum mig
fædda höfðu.”
Jötunn merkir ekki alltaf í skáldamáli óvættur sem æsirnir berjast við. Jötunn getur merkt galdramaður líka. Á Dönsku, Norsku og Sænsku, þá er „troldmand” ekki tröll, heldur galdrakarl. Það er mjög athyglisverð staðreynd í ljósi þess að norrænir menn óttuðust fjölkynngi og galdramátt Samanna. En ekki er nóg með að Finnum sé ruglað saman við tröll heldur er þeim líka ruglað saman við dverga. Fræðimaðurinn Bjarni Einarsson bendir á það í bók sinni munnmælasögum 17. aldar að í sumum gerðum ævintýrisins um Valfinnu völufögru er kveðið um stúlkuna: „Fæða hana Finnar tveir”, en í öðrum útgáfum eru það dvergar sem ala önn fyrir henni. Það er kannski ekki sérlega skrýtið að þeim sé ruglað við dverga sérstaklega þar sem Samar eru fremur lágvaxnar miðað við norrænt fólk. Dvergatalið í Völuspá inniheldur nöfn sem tengjast Sömum (Finnum): Finnur, Ská-Finnur.
En hvað merkir það?
Ef konan sem yrkir Völuspá er af samískum ættum, þá gæti það átt hluta í að útskýra forspárhæfileika hennar. Í Íslendingasögunum segir frá því að Finnarnir geti farið úr búk sínum og ferðast um. Það er einmitt sá hæfileiki, sem Óðinn á að búa yfir og eigi að þykja skömm, þar sem hann sé karlkyns.
Hvernig seiðurinn var fluttur
Árið 1968 skrifar Carl-Martin Edsman greinina: Återspeglar Voluspá 2:5-8 ett schamanistiskt ritual eller en keltisk åldersvers. Í greininni veltir hann fyrir sér tveim nýlegum kenningum sem settar hafa verið fram um upphaf völuspáar. Önnur gerir ráð fyrir keltneskum uppruna sem ekki er rými í þessari ritgerð til að velta vöngum yfir, en hin snýst um að Völuspá byggi á sjamanístískri trúarathöfn sótt í samíska fyrirmynd. Í greininni tekur hann fyrir margar lýsingar frá trúboðum sem ferðuðust til Samanna milli 1500 og 1700 sem lýsa þessari trúarathöfn. Hún á margt skylt við svipaðar athafnir í Síberíu og Grænlandi, en að sjálfsögðu á hún sína sér Norðurlanda útgáfu.
„Trúboði finnsku Lappanna G. Tuderus hefur sömuleiðis skrifað (um 1670) um »trylling« Kemilappana á trommur »til þess að hann [seiðkarlinn] falli í dvala og verði eins og hálf dauður, þar af hvílík opinberun þar til hann í annari lotu vaknar og byrjar syngjandi að segja frá því sem var opinberað,« í kjölfar fer Nædinn að rannsaka með hjálp trommunnar hvað eigi að fórna og hvar fórnin á að fara fram.
Ferðalag Nædans til land hinna dauðu til að heimta aftur sál er líka lýst af S. Kildal (1730). Drunur trommunnar, jojkið , sem þrjár og fjórar konur taka þátt í, eldurinn og hnífsskurðurinn, dvalinn og uppvakninginn með hjálp hreinnar meyjar er allt í þeirri lýsingu einnig.”
Með hjálp blóðmissis og elds, ásamt kyrjandi röddum kvenna og taktföstum trommuslætti kemst seiðmaðurinn í annarlegt ástand og heldur út fyrir þennan heim. Hann fer og finnur sál þess, sem er í vanda staddur í ríki hinna dauðu og kemst að samkomulagi við andana um hvar fórnin sem kaupir aftur lífið, á að fara fram. Í þessu hlutverki er karlmaður. Hvaðan fá víkingarnir þá hugmyndina um kvenleikann sem tengist göldrum? Þeir eru ekki kristnir, svo að konan er ekki meira syndsöm heldur en þeir. Þeir sjá ekki einu sinni nokkuð rangt við galdra iðkun. Það skyldi þó ekki vera að munkarnir sem skrifuðu textanna skildu hafa laumað þessu inn? Það er auðvitað löng hefð fyrir því innan kristninnar að tengja djöfullinn við kvenleika.
Ég trúi því ekki upp á Snorra. Snorri er langt frá því að vera ramm kaþólskur. Honum þykir vænt um norrænar goðsögur og má ekki til þess hugsa að þær gleymist. Meðan margir aðrir breyta þeim til að láta goðin koma illa út þá reynir Snorri að skrifa sem heildstæðasta mynd þó að hún sé vissulega nokkuð brengluð eftir tvö hundruð ára munnmæli. Það ber heldur ekki mikið á því að verið sé að sverta galdra á Íslandi. Galdrar eru ekki fordæmdir í fornritunum, og virðast fyrst glata vinsældum um siðaskiptin. Jafnvel eftir siðaskiptin stundar þjóðskáldið Hallgrímur Pétursson það sér til gamans að vekja fólk upp frá dauðum og kveða það niður aftur. Samt er hann ásamt Sæmundi fróða vel metinn.
Eitt er þó mikilvægt að taka fram í þessu samhengi. Þótt að seiðmenn og völvur stundi bæði samskonar iðn þá eru þau ekki nákvæmlega hið sama. Að vera völva er að vera kvenkyns spákona og virðist þetta vera staða sem er mikils metin í samfélaginu. Í Íslendingasögunum er völvum ýmist boðið hásætið eða eitt af betri sætum hússins. Fólk metur bæði visku þeirra og kunnáttu mikils, og forðast að reita þær til reiði, enda getur slíkt haft gríðarlega slæmar afleiðingar . Íslendingasögurnar láta nokkra hluti uppi um hvernig seiður hefur farið fram. Í Eiríks sögu rauða segir meðal annars:
„Slógu þá konur hring um hjallin en Þorbjörg [völvan] sat uppi.”
Í Laxdælu segir:
„Síðan lét Kotkell gera seiðhjall mikinn; þau færðust þar á upp öll. Þau kváðu þar harðsnúin fræði; það voru galdrar.”
Talað er um seið í Gísla sögu Súrssonar þar sem karlmaður flytur hann en svo virðist vera að vanalega þegar karlmenn fluttu seiðinn, þá séu þeir uppnefndir fyrir það. Aðgerðir Þorgríms nefs eru litnar í neikvæðu ljósi, en það er eflaust að hluta til sökum þess að hann er að beina seiðinum gagnvart aðalsöguhetjunni.
Þessi hjallur virðist hafa verið einhvers konar svið, eða stólpi sem völvan hefur staðið upp á. Þaðan hefur hún stýrt seiðnum. Í Eiríkssögu stendur Þorbjörg upp á stólpnum en hún hefur heila þrjátíu aðstoðarmenn. Fimmtán sveina og fimmtán meyjar. Í frásögninni er tekið skýrt fram að þau sungu, en þó ekki hvað það er sem þau syngja?
Þessari spurningu má kannski svara með annari spurningu. Hvernig stendur á því að heiðið kvæði eins og Völuspá varðveittist heilar tvær aldir, þar til það var skráð niður? Við vitum að þegar kristnin var tekin upp á Íslandi, þá leyfðist fólki áfram að stunda blót á laun. En rúmlega hundrað árum eftir kristnitöku þá er það ekki lengur inn í myndinni. Trúarathafnir norrænna manna hafa liðið undir lok.
En það sem ennþá tíðkast, og tíðkaðist meira að segja ennþá á 17. öld voru galdrar. Fólk var ennþá að reyna skyggnast inn í framtíðina, fólk var ennþá að kveða niður drauga og samkvæmt þjóðsögum, ennþá að mana þá upp. Fólk notaðist meira að segja ennþá við kveðskap í galdraiðkun. Er þá ekki hér með komin útskýring á tilgangi Völuspáar? Er Völuspá hugsanlega galdraþulan sem völvan þylur meðan hún er upp á hjallinum og er að reyna koma sér í galdra ástand? Það er engin tilviljun að besta skáld víkingatímans, Egill Skallagrímsson, er einnig fremsti galdramaður þess tíma. Níðstöngin sem hann reisir gagnvart Eirík Blóðöx dugar til þess að hann missir ríki sitt. Kunnátta hans við rúnagaldur verður þess valdandi að hann bjargar lífi ungrar stúlku. Hann heldur líka mest af öllum goðum upp á Óðinn.
Ekki nóg með allt þetta heldur er Egill sjálfur ættaður norðarlega úr Noregi þar sem mikið er um Sama. Forfeður hans virðast hafa hæfileikann til hamskipta og útlitslýsingarnar á þeim samrýmast þeim sem gefin eru Sömum í fornbókmenntum.
Þjófurinn í jötunheimum
Höfundur Eglu minnist þó ekki á neinar finnskar ættir. Egill er forfaðir margra stórhöfðingja sem seinna koma á Íslandi. Það er fínt að vera skáld ef þú ert karlkyns en ekki jafn fínt ef þú ert seiðskratti, þótt að skyldleikinn sé mikill. Í Hávamálum sem Óðinn er sagður höfundur að, eru ljóð nánast samnefnari yfir galdra.
Egill er þá tveir hlutir í senn, hann er hluti elítunnar, þekkir rúnaletur ólíkt Sömum, en þekkir líka til annarra tegunda galdra. Fóstra hans er af „tröllaættum”. Egill er því í raun samruni tveggja ólíkra menningarheima.
Norrænir menn lærðu á skíði af Sömum sem núna er algjörlega samgróið vestrænni menningu. Tungumál okkar og þeirra eru mjög frábrugðin hvort öðru og því er ekki hægt að segja að bragarhátturinn sé runnin frá þeim. Vissulega eru til kvæði frá Germönum sem búa sunnarlega, bæði á Englandi og Þýskalandi. En ef um samruna er að ræða þá er nokkuð víst að hvor um sig hefur haft mótunaráhrif. Hvað átti sér stað þegar norrænir menn, fyrst hittu Sama? Í goðsögunum er talað um stríð milli Vana og Ása. Æsir og Vanir skiptast á gíslum, Mímir og Hænir fara til Vananna á móti Frey, Freyja og Nyrði. Samkvæmt Heimskringlu þá kennir Freyja Ásunum seið. Í sumum frásögnum, þá er Óðinn ástmaður Freyju.
„Merkilegt má það teljast að orðið hálf-Finnur virðist ekki hafa verið notað um mann sem átti sér samískan föður og norska móður. Slík málvenja bendir ótvírætt í þá átt að Norðmenn hafi gert samískar konur að barnsmæðrum sínum, en hins vegar gætir þess hvergi í fornritum vorum að Samar hafi sest að í Noregi og eignast þar börn með norskum konum.”
Þetta skrifaði Hermann Pálsson í „Úr landnorðri” sem athugasemd við það að í einum norskum lagatexta er skýrt tekið fram að hálf-Finnar og hálf-Karelar séu menn sem hafi finnska móður. Þetta er merkileg staðreynd, en kannski skiljanleg í ljósi þess að á meðan karlmönnum var frjálst að leita sér kvenna, þá voru feður ekki líklegir til að gefa dætur sínar einhverjum sem tilheyrir þjóðflokki sem litið er niður á. Ef að norrænir menn lærðu galdra af Sömum, og ef þeir hafa aðallega kynnst þeim í gegnum kvenþjóð Samanna er þá ekki komin útskýring á hvers vegna galdurinn er kvenlegur? Þetta útskýrir kannski af hverju það er Freyja sem kennir ásunum seið.
En fyrst að Völuspá er ljóð ætlað til að koma fólki í annarlegt ástand er ekki rökrétt að álykta að eitthvað framhald yrði á hefðinni? Er ekki eitthvað sem þróast út frá þessari hefð?
Jú, vissulega. Til eru nokkur dæmi um ljóð þar sem höfundurinn eða sá sem ljóðið fjallar um ferðast til annara heima líkt og völva. Eitt slíkra leiðsluljóða er Draumkvæðið sænska sem fjallar um Olav Åsteson sem sofnar á jólanótt og sefur í þrettán sólarhringa. Meðan hann sefur ferðast hann til Helvítis og Himnaríkis. Þar sér hann hvernig kvalir syndararnir ganga í gegnum og hvers konar sælulíf á sér stað upp í himnum. Það var skráð niður á 19. öld, en augljóst er að það hefur varðveist í munnlegri arfleifð frá miðöldum því í því eru mjög kaþólsk viðhorf. Fræði-maðurinn Gro Steinslund telur það hafa þróast út frá sömu hefð og Völuspá.
Annað dæmi um slíkt er íslenska kvæðið sólarljóð sem sagt er í fyrstu persónu rétt eins og Völuspá. Það segir frá ferðalagi í gegnum himnaríki og helvíti. Sólarljóð hefur verið samið á tólftu eða þrettándu öld um það leyti sem Völuspá var skrifuð niður, en ekki er vitað hver höfundurinn er. Hvort að Sólarljóð var flutt er ekki vitað. Kannski var það einungis skrifað fyrir bókina, en þó er víst að Draumkvæði var flutt. Draumkvæði hefur þó ekki verið ætluð til þess að koma flytjanda í annarlegt ástand, heldur frekur til að boða kristilegan móralskan boðskap. En það er bara dæmi um hvernig skáldskapur breytist til að þjóna betur kröfum samfélagsins.
Það er í raun þjófnaður Óðins. Skáldin sem yrkja um Óðinn eru ekki vísvitandi að stela skáldskapnum frá sínu sjamaníska upphafi. Það sem þau eru að gera er að taka þátt í samfélagslegum breytingum. Þeir eru að fylgja þeim kröfum sem samfélagið setur. Það sem konungarnir í höllunum vilja heyra eru ekki trúarlegar frásagnir af öðrum heimum. Þeir vilja spennandi kvæði, gamansöm, lofsöm eða stórkostlegar tragedíur. Breytingarnar sem verða á skáldskapnum eru búnar að eiga sér stað á víkingatímanum. Óðinn hefur þegar tekið hásæti guðanna af Þór og skáldin keppast við að lofa hann, meðan alþýðan heldur sig enn við forna siði. Skáldið er farið að nota flóknara mál, og konungarnir vegsama það. Alþýðan hefur eflaust ekki séð tilganginn í því að flækja hlutina, en frá fegurðarmati efri stéttarinnar eru flækjurnar gæðastimpill. Skáldið er hér með búið að umbreytast, frá því að vera prestur yfir í að vera skemmtikraftur . Þessi söguskoðun er svipuð þeirri sem Richard Schehner setur fram um upphaf leiklistar. Leiklistin þróast frá því að vera trúarathöfn og yfir í að vera leikrænn viðburður. Aristóteles skrifar í skáldskaparlistinni um sambærilega þróun. Hann minnist á það að tragedían reki upphaf sitt til trúarathafna, einhvers konar geitarfórnar kannski. Það hljómar í það minnsta líklegt miðað við að tragedía merkir geitarsöngur á frummálinu. Kannski eru skáldin sem fluttu kvæði sín í konungshöllum norðursins sambærileg við þá sem fluttu söguljóð tvö þúsund árum áður í konungshöllum á Grikklandi? Sumar trúarathafnir hjá norrænum mönnum voru einmitt á mörkum þess að verða leikrit í anda Grikkjanna, til dæmis Skírnismál.
Hver þróunin hefði getað orðið á Norðurlöndum getum við aldrei fengið skorið út um. Að mínu mati er kristnun norðursins sambærileg þeim hörmungum sem það hefðu verið ef Grikkir hefðu tapað fyrir Persum við Maraþon. Kirkjan var fljót að troða þeim skáldskap undir yfirborðið, sem ekki hentaði hennar heimssýn, alls staðar annars staðar en á Íslandi. Það var kirkjan sem bannaði sagnadans á Íslandi og gerði hann útdauðan hérlendis, þótt að við höfum hann ennþá á Færeyjum. Dansinn sem Færeyjingar dansa við kvæðið um tap konungsins Ólafs Tryggvasonar á Orminum langa gefur okkur nokkrar vísbendingar um hversu margslunginn skáldskapurinn hefur verið.
Dönsuðu norrænir menn við kvæðaflutninginn? Erum við kannski búin að misskilja konungslofskvæðin? Var þetta í rauninni popptónlist síns tíma?
Það fáum við aldrei að vita, en svo mikið er víst að flutningurinn á þeim hefur verið leikrænni og kröftugri en við gerum okkur í hugarlund, og eflaust nokkrum ljósárum í fjarlægð frá þeirri mynd sem við fáum af honum í íslensku kennslu menntakerfisins. Tengingin milli galdursins og ljóðsins er augljós. Ef seiðkonan hefur staðið upp á sviði þá er afar líklegt að skáldið hafi líka gert það. Hvernig annars ætti hann að hafa farið með kvæði svo að allir í stóru konungsölunum heyrðu. Miðað við hvað dans er tengdur kvæðamenningu á Norðurlöndunum, og á Íslandi þar til kirkjan bannaði hann, þá er allt eins líklegt að meðan seiðurinn fór fram hafi fólk dansað. Með þessu móti getum við betur séð fyrir okkur samkomuna sem lýst er í Eiríkssögu. Upp á sviði fyrir ofan hina stendur seiðkonan og fellur í einhvers konar dá. Meðan hún er í dáinu lýsir hún framandi heimum og ókominni framtíð. Fyrir neðan hana eru þrjátíu unglingar saman komnir, sem kyrja, hugsanlega Völuspá og dansa hringinn í kringum sviðið. Hugsanlega hefur völvan veitt sér einhverja áverka eða jafnvel drukkið óhóflega til að komast í þetta skrýtna ástand . Við vitum úr Íslendingasögunum að völvurnar fengu ekki sama mat og aðrir. Daginn fyrir seiðinn er Þorbjörgu völvu einungis boðið upp á dýrahjörtu og geitamjólk til að gefa henni styrk fyrir morgundaginn. Kannski er þetta undirbúningur fyrir afar áreynslumikla athöfn líkamlega. Það sem kallað er söngur í Eiríkssögu er kallað læti í ýmsum öðrum Íslendingasögum, án þess að því sé nánar lýst. Hvað sem því líður þá held ég að ljóst sé að bæði Völuspá og sá skáldskapur sem bæði völvur og skáld fluttu hafi verið magnaður í flutningi. Jafnvel seiðmagnaður.
Vituð ér enn eða hvað?
Heimildaskrá:
Höfundur óþekktur. Bárðar saga Snæfellsáss. 1985. Svart á hvítu. Reykjavík.
Höfundur óþekktur. Eddukvæði. 1999. Gísli Sigurðsson sá um útgáfuna. Mál og Menning. Reykjavík.
Höfundur óþekktur. Eiríks saga rauða.1985. Svart á hvítu. Reykjavík.
Höfundur óþekktur Gunnlaugs saga ormstungu.1985. Svart á hvítu. Reykjavík.
Höfundur óþekktur. Laxdæla. 1985. Svart á hvítu. Reykjavík.
Aristóteles. Um skáldskaparlistina. 1976. Hið íslenzka bókmenntafélag. Reykjavík.
Árni Daníel Júlíusson, Jón Ólafur Ísberg, Helgi Skúli Kjartansson. Íslenskur söguatlas. 1991. Iðunn. Reykjavík.
Anders Bæksted. Goð og hetjur í heiðnum sið.1986. Eysteinn Þorvaldsson íslenskaði. Örn og Örlygur. Reykjavík.
Bjarni Einarsson. Munnmælasögur 17. aldar. 1955. Hið íslenska fræðafélag. Reykjavík.
Carl-Martin Edsman. Återspeglar Voluspá 2: 5-8 ett schamanistiskt ritual eller en keltisk åldersvers? 1968. Greinin er úr Särtryck ur arkiv för nordisk filologi. Árnastofnun. Reykjavík.
Gro Steinsland. Draumkvædet och Völuspá to visjonsdikt fra nordisk middelalder. 2000. Grein birtist í International scandinavian and medieval studies in memory of Gerd Wolfgang Weber. Edizioni Parnaso. Trieste.
Heimir Pálsson. Frásagnarlist fyrri alda. 1992. Forlagið. Reykjavík.
Heimir Pálsson. Til varnar dvergatali. 1996. Grein birtist í Skírni. Hið íslenska bókmenntafélag. Reykjavík.
Hermann Pálsson. Sólarljóð og vitranir annarlegra heima. 2002. Þrös. Reykjavík.
Hermann Pálsson. Úr landnorðri. 1997. Bókmenntafræðistofnun háskóla Íslands. Reykjavík.
Ólína Þorvarðardóttir. Brennuöldin. 2000. Háskólaútgáfan. Reykjavík.
Snorri Sturlusson. Egils saga. 1985. Svart á hvítu. Reykjavík.
Snorri Sturlusson. Heimskringla. 1944. Helgafell. Reykjavík.