Ég ákvað að skrifa smá ritgerð til að létta á hjarta mínu.

Ég er búinn að eiga mjög góða vinkonu í meira en eitt ár. Núna sl. desember ákváðum við að byrja saman. Stuttu eftir það fór ég til útlanda. Ég frétti hjá vinkonum hennar að ég hefði verið það eina sem hún talaði um og að hún hafi saknað mín mjög mikið. Ég saknaði hennar líka mjög mikið. Þegar ég kom heim var allt í gúddí. Ég hitti hana strax um kvöldið og ég kom heim. Voðalega var gott að sjá hana aftur.

Svo liðu vikurnar og í þessar vikur sýndi hún mér lítinn sem engan áhuga. Ég bað hana um að hitta mig og hún annað hvort gat það ekki eða nennti því ekki. Ég reyndi að gera allt fyrir hana, en ég fékk það aldrei til baka og kom hún oft mjög illa fram við mig og særði mig oft mjög djúpt.

Ég get nefnt nokkur dæmi, t.d. einu sinni í einhverju strákapartýi, sem hún var í, var mér ekki boðið fyrr en seinna um kvöldið. Þá bauð hún mér. Ég fór í partýið og þar var hún að dansa við einhvern strák og lét mig bara horfa á og var ekkert að sýna mér neinn áhuga. Ég stóð bara þarna eins og einhver auli og horfði á kærustuna mína dansa við einhvern strák.

Svo einu sinni var ég niðri í bæ að djamma. Hún sagðist ætla að hitta mig eftir djammið en það endaði með því að þegar ég gat loksins reddað mér fari til hennar, þá svaraði hún ekki símanum.

Svo einu sinni bað ég hana um að sækja mig niðri í bæ. Það endaði með því að hún kom aldrei og lét mig ekki einu sinni vita. Ég þurfti þá að fá að gista í sófanum hjá vini mínum.

Einu sinni bað hún mig um að sækja sig í eitthvað staffapartý sem mér var ekki boðið í. Vinkonur hennar voru þarna, sem voru ekki einu sinni að vinna með henni. Allavega, ég fór fyrir utan partýið og sagði henni að koma út, þar sem ég væri kominn. Ég var á leiðinni heim. Þá sagði hún mér að leggja af stað eftir 15 min. Ég sagði að ég væri á leiðinni heim þannig hún gæti bara komið núna. Hún sagðist þá bara ætla að drepast þarna. Ég sagði henni þá bara að ég væri farinn heim. Seinna þegar ég er fyrir utan heima hjá mér, þá biður hún mig aftur um að sækja sig og þá spyr ég hana hvort hún sé alveg viss, og þá sagðist hún ekki vera viss. Svo þegar ég er kominn inn í rúm, þá sendir hún: “VARST ÞÚ EKKI AÐ BJÓÐAST TIL AÐ SÆKJA OKKUR?”.

Núna í gær t.d. bað ég hana um að hitta mig, þar sem það var Valentínusardagurinn, og ég hafði ekki hitt hana í frekar langan tíma. Hún sagðist vera að vinna og svo sagðist svo vera að fara í neglur eftir vinnu, þannig hún gæti það allavega ekki fyrr en seint. Það endaði með því að hún var búin að vinna, fór aldrei í neglur, en þess í stað fór hún í bíó með vinkonum sínum og lét mig ekki einu sinni vita.

Þegar við byrjuðum saman, í desember, þá hafði ég verið að vinna að ljóði til að gefa henni á Valentínusardaginn. Ég m.a.s. keypti rauða rós handa henni til að gefa henni, ásamt ljóðinu. Það endaði með því að ég henti ljóðinu og gaf mömmu rósina.

Það eru mörg svona tilfelli á mjög stuttum tíma. Ég man bara eftir þessum í augnablikinu, en þau eru nú fleiri. Svo hætti ég með henni fyrir sirka viku síðan út af því að ég meikaði ekki svona framkomu alltaf hreint. En svo byrjuðum við aftur saman um daginn og ákváðum að reyna þetta aftur. Það gekk í nokkra daga en svo hættum við saman aftur í gær, þar sem hún hafði ekki breyst neitt síðan síðast.

Ég þarf alltaf að lenda í einhverjum svona samböndum, þar sem ég er alltaf heillengi að ná mér eftir svona rugl. Núna biður hún mig um að vera bara aftur vinur sinn, eins og við vorum áður, og segist þykja mjög vænt um mig. Ég er ekki alveg að trúa því, þar sem framkoma hennar sýndi nú ekki mikla vináttu. Ég er allavega ekki tilbúinn að hitta hana aftur á næstunni, þar sem mér þykir/þótti mjög vænt um hana, áður en hún hóf að draga mig á asnaeyrunum og fá mig til að halda að hún væri eitthvað hrifin af mér. Þó hún hafi ekki verið það, þá var ég það, og ég þarf tíma!
Gaui