Loks kom að því að skrifa þá grein sem ég hafði marglofað um ástarsorg. Í þessari grein ætla ég að koma inn á mismunandi stig ástarsorgar, því að mínu mati, þá er hugarástandið „ástarsorg“ mismunandi eftir því hvernig hvernig maður missti þann einstakling sem átti hug manns og hjarta.

Ég tek það fram að ráð hér fyrir neðan verða eflaust frekar „almenn“, en þar sem ég er að skrifa grein þar sem tilgangurinn er að hjálpa heildinni, þá verður svo að vera. Í beinni aðstoð við einstaklinginn gæti ég án efa gefið sértækari ráð.

Einnig má taka fram, að þegar um slík gífurleg vankvæði líkt og ástarsorg er að ræða, þá geta oft hinir almennustu og einföldustu hlutir í átt að bata farið framhjá manni.

Vonandi er hér fyrir neðan einhverja aðstoð að finna fyrir eitthvert ykkar.
——————————————————————


Ástarsorg eftir andlát maka

Ég ætla mér að byrja á einni erfiðustu ástarsorginni að mínu mati. Það mun fátt vera erfiðara en að missa þann sem maður elskar inn í móðuna miklu. Hvort sem slíkur harmleikur gerist eftir slys eða veikindi, þá mun hann án efa vera jafn sár. Fólk sem missir maka sinn eftir langvarandi veikindi mun eflaust hafa haft lengri tíma til að undirbúa sig, en það dregur án efa ekkert úr þjáningunni sem fylgir andlátinu.

Hvernig fólk vinnur úr slíkum harmleik er án efa gífurlega persónubundið. Það einna helst sem ég get ráðlagt fólki er að halla sér að þeim sem eru manni næstir og leita huggunar hjá þeim sem elska mann og þykir hvað mest vænt um mann. Alls ekki reyna að taka út sorgina í einrúmi, því slík sorg er fylgir andláti elskunnar sinnar mun jafnvel vera hinum sterkasta manni ofviða.

Fólk á það til að byrja vanlíðanina inni og reyna að „harka af sér“. Ég mæli eindregið á móti þessu, því það mun þurfa að takast á við tilfinningar þessar fyrr eða síðar, sama hversu lengi því tekst að byrgja það inn í sér. Að hleypa öllu út er það eina sem hægt er að gera, því án þess er ekki hægt að vinna í því að jafna sig með tímanum. Því sterkari sem maður reynir að vera, því lengra á það eftir að taka mann að hefja líf sitt að nýju með von um gróinn hug og hjarta. Ég geri mér fulla grein fyrir hversu erfitt þetta á eftir að reynast flestum sem lenda í slíkum harmleik sem þessum; það eina sem ég get gert er að vona að það takist fyrr eða síðar svo að tvö líf þurfi ekki að enda fyrir missi á einu.


My love-lies-bleeding. ~Thomas Campbell


Ástarsorg eftir sameiginlega ákvörðun um sambandsslit

Að sakna maka eftir sameiginlega ákvörðun um sambandsslit er eflaust það form af ástarsorg sem er hvað hreinast, og þar af leiðandi einfaldara að komast yfir en aðrar útgáfur ástarsorgar. Hér vill ég sérstaklega taka fram að þessi útgáfa af ástarsorg á eingöngu við ef sambandið endaði á „hreinan máta“, án framhjáhalda eða annarra slíkra uppákoma. Hér á ég einungis við um tvo einstaklinga sem komust að þeirri sameiginlegu ákvörðun að samband þeirra gengi ekki upp vegna ástæðna sem báðir einstaklingar væru sammála um og gerðu sér grein fyrir að myndu gera framtíðar hamingju þeirra sem par ómögulega.

Jafnt sem að þetta sé eflaust það form af sambandsslitum sem er hvað einfaldast að jafna sig á, er þetta eflaust einnig það form af sambandssliti sem er hvað sjaldgæfast.

Ástarsorg eftir sambandsslit sem síkt einkennist oft á tið af eftirsjá tengt persónulegri nálægð, þar sem eftirsjá eftir fyrrum maka er í lágmarki, því báðir einstaklingar gerðu sér grein fyrir að þeir ættu einfaldlega ekki saman (og oftast fylgir slíkri „uppgvötun“ dvínun og loks slokknun ástar). Að hafa verið í sambandi í lengri tíma sem ekki fékk farsælan endi mun oft á tíð skilja fólk eftir með stóra holu í sálinni sem áður hafði verið full. Að hafa engan til þess að faðma eða kyssa, deila með upplifun dagsins eða kúra með yfir sjónvarpinu, er eitthvað sem getur verið eitt af því erfiðara sem fylgir sambandsslitum.

Manneskjan sem slík er gífurleg félagsvera, og persónuleg nálægð líkt og samband býður oftast uppá er eitthvað sem okkur er eðlisbært að sakna óheyrilega þegar við höfum ekki möguleikann á því lengur. Það mun vera ein sú helsta ástæða fyrir því að fólk á til með að rjúka strax í annað samband með þeim „fyrsta sem býðst“, einungis til þess að fylla upp í fyrrnefnda holu.

Þessu mæli ég sterklega á móti.

Ef „hver sem er“, er notaður til að fylla upp í fyrrnefnda holu, þá eru líkurnar á öðrum sársaukafullum sambandsslitum mun meiri en ella. Að reyna að venjast þeirri einmannakennd sem blossar upp eftir sambandsslit og taka sér tíma í að finna þann sem virkilega heillar og á hjarta manns skilið er eitthvað sem margfalt borgar sig til lengri tíma litið.

Gefið ykkur tíma til að velja rétt. Án þess munu þið lenda í vítahring þar sem þið særið aftur og aftur fleiri en ykkur sjálf.


What is the opposite of two? A lonely me, a lonely you. ~Richard Wilbur


Ástarsorg eftir uppsögn

Hér er erfitt að gefa góð ráð, því af fyrrnefndum ástarsorgum, þá er þessi hvað mest aðstæðu- og einstaklingsbundin.

Í raun get ég einungis gert eitt, og það er að hjálpa ykkur í að gera ykkur grein fyrir hvort sú ástarsorg sem þið finnið fyrir er eitthvað sem þið ættuð að leyfa ykkur að upplifa, eftir því hvað átti sér stað til þess að til uppsagnar kom.

Til að byrja með verið þið að setjast niður með sjálfum ykkur og íhuga hver orsökin var fyrir ákvörun fyrrverandi maka ykkar í að slíta því sem þið áttuð saman, og þar af leiðandi gefa þig sem nánasta einstakling lífs hans upp á bátinn. Hérna eru ástæðurnar sem koma til greina óteljandi, og vona ég þessvegna að þið hafið sterka afstæða hugsun í fórum ykkar, því þið þurfið að fara í gegnum samband ykkar í huganum (bæði útfrá ykkar eigin sjónarhorni og sjónarhorni fyrrverandi maka ykkar) skref fyrir skref í leit að þeim breytum sem áttu tilkall til þeirra ástæðna er leiddu til endalok sambandsins. Hvað það er svo sem þið komist að, er það sem ákvarðar það hvernig þið skuluð haga ykkur í framtíðinni varðandi annaðhvort fyrrverandi maka, eða í samskiptum við hitt kynið. Ég ætla að setja fram nokkur dæmi í von um að þau aðstoði aðeins frekar:

Mistök af ykkar hálfu:
Ef þið komist að því eftir miklar vangaveltur að það sem óneitanlega leiddi til sambandsslita hafi verið mistök af ykkar hálfu, þá er tvennt sem sem liggur fyrir ykkur að gera:
1. Þið getið haft samband við ykkar fyrrverandi maka í von um að leiðrétta þau mistök og sjá hvort þið eigið skilið annað tækifæri.
2. Ef svo vill til að maki ykkar er ekki tilbúinn til þess að veita ykkur annað tækifæri, eða þá að þið vitið fyrirfram að möguleikinn á því er ekki fyrir hendi, þá er fátt annað sem þið getið gert er að vona til þess að tíminn græði flest sár og í leiðinni að þið hafið lært að reynslunni. Ykkur til huggunnar vil ég minna á að samskipti kynjanna eru eitt það flóknasta sem býðst í þessum heimi, þannig að ekki kenna ykkur of harkalega um ef mistök ykkar voru það sem teljast „eðlileg sambandsmistök“ (samskiptavandamál eða aðrir almennir sambandsörðuleikar sem tekur tíma að læra og skilja. Framhjáhald, ofbeldi eða annað af slíkri gráðu er ekki eitthvað sem teljast „eðlileg“ mistök).

Mistök af ykkar beggja hálfu:
Ef þú ert nokkuð viss um að að vandi sambandsins hafi legið hjá ykkur báðum og að þið hefðuð getað gert betur, geturu reynt að hafa samband við fyrrverandi maka og sjá hvort möguleiki á því sé fyrir hendi (s.s. að þið sjáið bæði eftir hvort öðru þótt makinn hafi verið fyrri til með að enda sambandið, og séu til að láta slag standa í að endurlífga það). Því miður, þá eru sambönd á þessu stigi oftar en ekki komin yfir þann hjalla þar sem þau verða ekki löguð nema ástin sé því sterkari og nánast óbrjótanleg. Ef sambandið fæst ekki lagað, þá er ekkert annað að gera en að láta tímann sjá um að græða hjarta og sál og taka til sín það sem betur hefði mátt fara af þinni hálfu og muna að gera ekki sömu mistök í framtíðinni. Einnig mæli ég með því að lesa „Ástarsorg eftir sameiginlega ákvörðun um sambandsslit“ sem er hér fyrir ofan, því að sumu leyti er þetta form uppsagnar líkt því, þótt ástin sé oft mun minna dvínuð hjá manni þegar maki manns er „fyrri til“ að segja upp og einnig vegna þess að maður var ekki tilbúinn að gefa makann uppá bátinn mistakanna vegna þótt maki manns hafi verið það (kannski var maki þinn meira hrjáður af vankvæðum sambandsins).

„Mistök“ af hálfu maka:
Ef niðurstaðan er sú að makinn hafi búið yfir aðalástæðunni fyrir því að sambandið gekk ekki upp, og svo hafi hann endað sambandið, þá eru ýmsir hlutir sem koma til greina sem fara eftir því hver sú ástæða var. Þetta verð ég eiginlega að láta mest liggja á milli hluta þar sem ástæðan sjálf er nánast undantekningarlaust lykillinn að svarinu, en ég get þó sagt, að mjög algeng ástæða er sú að fyrrverandi maki þinn hafi einfaldlega ekki verið tilbúinn í langtímasamband (þess vegna eru mistök hér fyrir ofan í gæsalöppum).

Það sem skiptir langmestu máli hér, er að þeir sem ekki eru tilbúnir í að vera með manni í sambandi einfaldlega vegna þess að þeir eru ekki til í það, eiga mann ekki skilið og hefðu aldrei verið einstaklingar sem hefðu getað gert mann hamingjusama/nn til æfiloka. Til þess að manneskja sé þess virði að vera elskuð verður hún að elska til baka.

Ég veit að sumir eiga eftir að eiga erfitt með að kyngja þessu, en ef þú saknar manneskju sem elskar þig ekki lengur, þá ertu í raun að selja þig ódýrt, því ást er ekkert ef hún er ekki endurgoldin og engin er eftirsjáin frá þeim einstakling sem ást þín tilheyrði. Ef einstaklingur er ekki tilbúinn að elska þig og eyða æfinni með þér til lengri tima litið (þrátt fyrir að hafa tekið skref í þá átt), og í raun hafði aldrei verið þrátt fyrir að þú hafir ekkert gert til þess að skemma líkur á þeirri þróun sambands ykkar, þá er sú manneskja ekki sá sem þú hélst að hún væri og er þar af leiðandi ekki þess virði að leyfa sér líða ílla yfir.


Sadness flies on the wings of the morning and out of the heart of darkness comes the light. ~Jean Giraudoux


„Ástarsorg“ eftir framhjáhald

Mörg ykkar hafa eflaust tekið eftir því að ég setti ástarsorg í gæsalappir hér fyrir ofan. Áður en ég held áfram ætla ég að taka það fram að hér hef ég mjög sérstaka afstöðu til framhjáhalda og afleiðinga þeirra, sem ég er nokkuð viss um að allir eiga ekki eftir að vera sammála. Ef svo vill til að þið eruð ekki sammála afstöðu minni til framhjáhalda, munið þá að þið hafið rétt á ykkar skoðun og ég á minni.

Og hér kemur mín skoðun:

Ef einhver heldur framhjá maka sínum, þá mun maki hans ekki upplifa ástarsorg, eða ást á annað borð eftir það, því framhjáhald tekur allt sem getur hafa talist sem ást og eyðir því að eilífu. Ást er huglægt ástand sem felur það í sér að elska þá manneskju sem maður hefur treyst fyrir líkama manns og sál. Ef einhver tekur þá ást og ákveður að saura hana út með líkama og sál annars einstaklings, þá hverfur sú ást að eilífu um leið, ásamt trausti og almennri vellíðan í garð þess einstaklings. Þar af leiðandi upplifuru ekki ástarsorg eftir framhjáhald, heldur gífurlega sorg yfir þeim svikum sem áttu sér stað, og það sem ég vil kalla egó högg.

Egó höggið sem kemur fram hjá þeim sem haldið er framhjá er svo gífurlegt að ekki er skrýtið að fólk vilji kalla það ástarsorg, því fáar aðrar tilfinningar er við vitum af ættu að geta haft slík gífurleg áhrif. Vanlíðanin og sorgin sem fylgir því að vera trampað yfir eins og drulluga tusku er svo gífurleg að hún hefur bugað ófáan manninn og leitt til margra þeirra hryllilegustu ofbeldisverka sem um getur.
Eftir að hafa gefið allt af manni sem hægt er að gefa til einstaklings sem fer svo með það á þennan hátt; þá er ekki skrýtið að vanlíðanin sem fylgi verði á himinháum skala.

Þess vegna vil ég hafa það á hreinu, að samkvæmt minni skoðun þá upplifir þú ekki ástarsorg eftir að haldið er framhjá þér, heldur hreina sorg og vanlíðan vegna þess hve ílla þú varst svikin. Sá einstaklingur er kemur þannig fram við þig á ekki snefil eftir af ást frá þinni hendi, sama hvort þú sjálf/ur teljir hann (einstaklinginn) gera það. Að lifa áfram í sambandi eftir framhjáhald og telja ást vera til staðar er að lifa í lýgi, og ráðlegg ég engum að gera það ef hann vill halda áfram að vera heill á sál og í anda.


I thought when love for you died, I should die.
It's dead. Alone, most strangely, I live on.
~Rupert Brooke


—————————————————————————–

Ástarsorg er eitthvað sem gífurlega erfitt er að vinna í, jafnt sem skilgreina. Upplifun hvers og eins á ástarsorg verður að kalla einstaka og er þar af leiðandi mjög erfitt að veita ráð þess efnis þegar þau eru stíluð á heildina líkt og þessi grein er.

Ég vona samt að einhver geti notið góðs af og sjái fram á leið til þess að stytta eða einfalda þá vanlíðan er fylgir því að missa þann sem eitt sinn stóð honum næst eftir lestur á þessari grein.

Lifið heil, og munið að enginn í þessum heim sem tekur eitthvað eins einstakt og heilagt og ást ykkar í sinn arm og gerir eitthvað annað með það en að sýna því alúð og ýtrustu varkárni í meðhöndlun, á tár ykkar skilið.

Kær kveðja,
Fróðleiksmoli