Ég sendi inn “nöldurkork” hérna um að gúgla með tillögu til hugara um að gúgla aðeins meira og spyrja aðeins minna í staðinn. Ég nefndi eina leið til að gúgla til að finna nafn á lagi t.d. – en að ósk ætla ég að reyna að gera smávegis yfirlit fyrir þá sem raunverulega ekki kunna að gúgla.

Byrjum á byrjuninni, http://www.google.com er staðurinn, http://www.google.is fyrir suma, kemur yfirleitt út á því sama, stundum er .com síðan jafnvel farin að beina beint á .is síðuna. Sumir vilja kannski nota altavista eða einhvern annan fjandann en ég mæli bara með google.

Að síðustu miðast þessi grein mest bara við Google sem venjulega vef- og myndaleit, þó að þráðaleitin, fréttaleitin, Gmail, Froogle o.s.frv. bjóði líka upp á ýmsa fleiri möguleika.

Fyrst förum við aftur í leikskólann:

Hvernig leita ég?

Sláðu inn viðkomandi leitarorð í textarammann og ýttu á “Leita” eða “Search.” Ef þú ýtir á “Vogun vinnur, vogun tapar” eða “I feel lucky” ferðu beint á efstu niðurstöðuna. Það eru fá greinarmerki og samtengingar sem skipta máli í leitinni, Google leitar sjálfkrafa að öllum leitarorðum eftir einhverjum algorithma sem ég skil lítið í en hann virkar ágætlega.

Það eina sem ég býst við að skipti verulega miklu máli í þessu skrefi er að allt sem er innan gæsalappa fer í leitina sem ein heild, en ekki stök orð.

Dæmi:

Leitin:

"I have something up my anus"

með allt innan gæsalappa, skilar einni niðurstöðu (þegar ég gáði, kannski minnst tveimur eftir að þessi grein er birt), aðeins það sem finnst með nákvæmlega þennan frasa með nákvæmlega þessum orðum í þessari röð en

I have something up my anus

án gæsalappa, skilar miklu fleiri niðurstöðum, (um 2,5 milljónum) flestum fullkomlega úr samhengi við einmitt þennan frasa.

Hvernig leita ég að myndum?

Veldu “Images” eða “Myndir” Nokkurn veginn sömu reglur og í textleit. Leitin miðast við leit á texta í tengslum við myndina, á nafninu, merkingu og á viðkomandi síðu.

Hvernig raðast leitarniðurstöður?

Það eru nokkrir þættir sem koma inn, sem gera Google að bestu leitarvélinni. Þar er í fyrsta lagi hversu oft ákveðin orð koma fram, í hvaða samhengi… t.d. skora niðurstöður yfirleitt hærra ef þær er að finna í titli síðu, eða t.d. ef til er www.[viðkomandi frasi].com heldur en í miðjum texta. Auk þess spilar röð orða inn í, jafnvel þótt engar gæsalappir hafi verið settar. Þumalputtareglan er sú að yfirleitt veit google betur en þú hvað þú vilt fá.

Nú í nokkur atriði fyrir þá sem kunna að leita… en kunna ekki að gúgla:

Til að finna lag:

Í fyrsta lagi, eins og minnst er á í fyrrnefndum korki, þá er nokkuð áreiðanleg leið til þess að finna nafn á lagi ef maður hefur t.d. smávegis textabút, svo ekki sé minnst á ef höfundurinn er þekktur líka:

Þegar spurt er “Hvað er lagið?” og svo kemur á eftir einhver svolítill textabútur má t.d. slá inn textabútinn innan gæsalappa og svo á eftir kemur “lyrics” - þá utan gæsalappa. Þetta færir venjulega einhverjar niðurstöður sem innihalda nafn á hljómsveit og lagi.

Dæmi: Þekktur er textabúturinn: “what you gonna do with all that junk, all that junk inside your trunk?” Til þess að létta google (og þar með sjálfum þér) lífið, er best að hafa textabútinn sem stystan og helst þann bút sem er auðveldast að stafsetja, t.d. ef líklegt er að notaðar eru óformlegar stafsetningar (“going to”, “gonna”, “gon'”) - svo hér væri það e.t.v. “all that junk inside your trunk” - ekki hafa miklar áhyggjur af greinarmerkjum. Ef líklegt er að frasinn sé algengur í öðru en þessu lagi og þetta er t.d. óalgengt lag, þá má bæta við orðinu “lyrics” (“texti”) utan gæsalappa, það skilar oftast betri árangri.

Svo í þessu tilviki yrði leitin:

"all that junk inside your trunk" lyrics

sem mundi svo skila ýmsum niðurstöðum þar sem auðveldlega má finna eitthvað eins og “Black Eyed Peas - My Humps” með því að renna augunum yfir niðurstöðurnar.

Ég ætlaði að setja inn nokkur fleiri dæmi um hvernig skal leita að t.d. manneskjum eftir ýmsum upplýsingum eða hinu og þessu en sannleikurinn er sá að flest byggist þetta á sömu hlutum og hér voru nefndir. Það er helst ákveðið innsæi sem kemur með æfingunni sem hjálpar fólki að gera sér grein fyrir því hvaða leitarorð og -frasar virka til að finna rétta niðurstöðu. Stundum má t.d. tína til nokkra hluti sem gætu tengst þeirri síðu eða þeim upplýsingum sem leitað er að, stundum þarf að fækka þeim.

Oft þarf að gera nokkrar tilraunir með stafsetningu, lengd, mismunandi orð o.s.frv. Þrautseigjan blífur og æfingin skapar meistarann.

Fleiri vefir sem “gúgla” má á:

Wikipedia [http://www.wikipedia.org] - Frjálsa alfræðiorðabókin, gott til að leita að upplýsingum um frægar manneskjur, tímabil, lönd, o.s.frv. Það er mesta furða hvað finnst hér, allar upplýsingar eru lagðar til af sjálfboðaliðum, hver sem er getur breytt síðu (en fyrir óprúttna aðila sem vilja rugla eða rífa niður eru líka stöðugt tekin afrit og ef síða er eyðilögð er eldra afritið tekið mjög fljótt til nota og jafnvel lokað tímabundið fyrir breytingar frá almenningi - þ.e. öðrum en stjórnendum o.s.frv.) Niðurstöður frá Wikipedia eru oft ofarlega á google.

Myspace [http://www.myspace.com] - Víðtækur persónuvefur, fyrir þá sem vilja stunda einkaspæjaraleik og leita að hinum og þessum manneskjum. Ef þú velur “Search” á titilsíðunni kemur upp önnur síða með fleiri möguleikum á leitinni.

Orðabók Háskólans [http://lexis.hi.is] - Lítið að hafa upp úr þessu í þýðingum og þess háttar en það er áreiðanlegt safn yfir mismunandi beygingarmyndir orða.

Íslensk málstöð [http://ismal.hi.is] - Hérna má finna íslensk-alþjóðlegar orðabækur (velja orðasafn á titilsíðu) og þess háttar.

Nokkurnveginn sömu reglur gilda á þessum síðum, nema kannski helst í orðabókunum, þar sem algorithminn er einfaldari og meira undir notandanum komið að leita. Aftur er það innsæi netherjans sem kemur að bestum notum. Stundum er líka gott að nota google til að leita að mismunandi síðum til þess að leita að upplýsingum.

Helsti galdurinn er einfaldlega að leika sér með nokkur stikkorð, raða fram og til baka, taka frá og bæta við og setja gæsalappir á vel valda staði. Hitt er svo leitarlestur, að renna augunum yfir niðurstöður og sjá snöggvast hvort einhver sé líkleg til þess að fjalla um rétta efnið.

Síðasta verkfærið sem ég nefni sem getur skipt máli er “find”-fítusinn (ctrl-F eða slaufa-F á makka) á netvöfrum. Þá er leitað að ákveðnum textastrengjum, í ákveðinni röð held ég, á þeirri síðu sem opin er. T.d. ef þú ert með gríðarstóra upplýsingasíðu um Tom Hanks (m.a. á Wikipedia) en þú vilt bara vita hvar hann var fæddur má slá inn “place of birth” eða bara “birth” og smella á enter þar til réttur staður á síðunni finnst.

Þetta urðu aðeins fleiri orð en ég ætlaði mér eða bjóst við en vonandi að þetta gagnist einhverri óreyndri sálinni.

Svona, út að æfa með ykkur. Núna er engin afsökun lengur til þess að gúgla ekki.
(\_/)