I
Þótt fáir kunni að efast um
að Ólafur sé villingur
verður svo að heita að hann
sé hjólabrettasnillingur.
Oft og tíðum geysist greitt
um götur, torg og strætið breitt
Öruggur í alla staði
óttast varla neitt.
Hann þeytist oft um Ingólfstorg
og eltir hina krakkana.
Það ergir margan útlendinginn,
aðallega Frakkana.
Þeir bölva Óla í ösku og sand
og atvik þessi festa á band
og segjast koma aldrei aftur
inn í þetta land.
En Ólafi er alveg sama
um asnalega fúlista
og ekki minnstan gefur gaum
að gelgjustælum túrista.
Heldur áfram ótrauður,
Agalega sérvitur!
Þokkalega þrjóskur er hann,
þessi Ólafur.
Á Ingólfstorgið Óli mætir
oftast snemma á morgnana
Eltist síðan allan daginn
inn á milli hornanna.
Gjarnan tekur gleðin völd -
hann gæti skeitað heila öld!
Alla daga, allar nætur,
en einkum sumarkvöld.
En hjólabrettafárið finnst jú
fáum vera merkilegt.
Því má vera að þessu fólki
þyki svolítið ergilegt
að eiga bara Ingólfstorg,
og aðeins það, í stórri borg!
Griðastaði enga aðra,
en sú mikla sorg.
Eitt er víst, að Óli og co.
ætla sér að rísa upp,
er hittust eina helgina
stóð hjólabrettaskvísa upp.
Hnefanum hún barði í borð,
bálreið mælti hatrömm orð,
og sagðist mundu, ef ekkert yrði
að gert, fremja morð!
Undir sig þau ætla að leggja
alls kyns merkar byggingar
og til að safna saman fé
þau selja falskar tryggingar.
Láta illum látum, öll,
líkt og skrímsli og feiknartröll.
Hyggjast breyta borginni
í brettagæjahöll.
II
En ekki gekk sú áætlunin
upp, og segir kenningin
að hún sé orðin heldur fátæk,
hjólabrettamenningin.
- Við verðum að finna vænna ráð,
ef vorum markmiðum skal náð!
Nú verður okkar allra bestu
eðalfræjum sáð.
Svo hittust þau og héldu fund
því hugmynd nýja vantaði
og ekki leið á löngu þar til
Lárus orðið pantaði.
- Ég fékk hugmynd! Hlýðið á,
við herja skulum innan frá.
Reynum Óla, eins og hægt er,
inn á þing að ná!
Út þá brutust erjur miklar,
svo úr varð lítill tryllingur.
Því hugmyndin fannst ýmsum ágæt
en öðrum tómur hryllingur.
Þá krónupening karl einn fann,
svo kastað var upp á sannleikann.
Krónan lenti og það var þorskur -
þinghugmyndin vann.
III
Eitt sinn var Óla stöðugt strítt
og stundum nefndur “Óli tík”.
Við er tekin öldin önnur -
Óli fæst við pólitík.
Inn í Sjálfstæðisflokkinn fékk,
frækinn til liðs við Dabba gekk!
En flokkur þessi féll þó ekki
fullvel að hans smekk.
Þar þoldi hann ekki ýmsa menn
sem einkum dáðu sjálfsmyndir.
Nýr við Óla nú tók flokkur;
nefnilega Frjálslyndir.
Gekk þar Óli glaður inn.
- Gæfan, hún er vinur minn!
Hér mér eins og heima líður,
hér ég verð um sinn.
En ekki komst hann inn á þing
og er það mikið sorgarmál,
en Óli datt þó ekki af baki
og einblíndi á borgarmál.
Þar reið hann ekki á ragan garð,
reyndar nýtti hann sér skarð
sem borgina hafði bjagað lengi
og borgarstjóri varð.
Óla gremst sú ræfilsraun
að Reykjavík sé gettóborg
og ekki gekk það gæfulega
að gera hana að brettaborg.
Til þrautar hefur hann það reynt
af heilum vilja, ljóst og leynt.
Þótt árangur sé ansi dapur
er það betur meint.
Hann reyndi að láta Reykvíkinga
renna brettahjólunum
eins að sumri og að vetri,
ekki síst á jólunum.
En ekki tókst það, en sú sorg,
sem angrar Reykjavíkurborg.
Má svo heyra að menn sér ætli
að minnka Ingólfstorg!
Því má segja það með sanni
að þrátt fyrir alla fórnina
kveðji Óli klökkur, svekktur
kalda borgarstjórnina.
Heldur vann hann verðlaust starf,
varla um það efast þarf.
Úr borgarstjórastóli svekktur
strákur, Óli, hvarf.