Gleymt lykilorð
Nýskráning
Litbolti

Litbolti

2.956 eru með Litbolti sem áhugamál
12.070 stig
282 greinar
2.121 þræðir
8 tilkynningar
578 myndir
236 kannanir
11.541 álit
Meira

Ofurhugar

daxes daxes 2.020 stig
Xavier Xavier 1.186 stig
valurth valurth 1.094 stig
echo echo 362 stig
Charley Charley 318 stig
kev kev 270 stig
Myndarlegur Myndarlegur 250 stig

Stjórnendur

AS&S (FAQ) www.hugi.is/litbolti
v.1.1 - mars 2002

  1. Hvað er litbolti ?

  2. Litbolti er er íslenskt nafn á íþrótt sem erlendis er þekkt undir ensku heiti sínu, “paintball”.
    Íþrótt þessi er nokkurs konar þróun á leikjunum eltingaleik og skotbolta. Í henni keppa oftast tvö lið, með jafnmörgum leikmönnum á afmörkuðum velli, sem getur verið bæði innandyra eða utanhúss. Utanhúss eru vellir oftast frá 1 til 4 hektarar að stærð og upp úr. Eftir því sem leikmönnum fjölgar má leika á stærri velli. Oftast er keppt um fána. Hvort lið á sér fána, sem festir eru á stöng, settar niður í sitt hvorum enda vallarins. Liðin tvö keppast síðan um að ná fána andstæðingana um leið og þeir verja eigin fána. Það lið sem fyrr kemur fána andstæðingana að eigin fánastæði vinnur leikinn. Leiktími er frá 15 mínútum eftir stærð valla og fjölda leikmanna.

    Leikurinn fer þannig fram að leikmenn bera á sér litmerkibyssur, sem knúnar eru þrýstilofti. Þær skjóta málningarkúlum, sem eru 0,68 tommur eða um 16millimetrar að þvermáli. Kúlurnar eru úr veikri matarlímshúð (gelatin) og fylltar skærum matarlit af umhverfisvænri gerð sem brotnar niður í náttúrunni. Litarefnin eru uppleyst í vatni, sprittafbrigði (polyethylene glycol) og sápuefnum sem eru skaðlaus náttúrunni og eyðast án mengunar. Þegar einn leikmaður merkir annan leikmann rofnar húð kúlunnar og merkir hann með áberandi bletti. Er þá leikmaðurinn úr leik. Litarefnin þurkast auðveldlega af því vökvinn er seigfljótandi og þvæst auðveldlega úr fötum, enda er liturinn vatnsuppleysanlegur. Á þennan máta reyna liðin að útiloka liðsmenn hvors annars frá frekari leik, sækja að fána andstæðinganna um leið og gætt er eigin fána.

  3. Hvað er www.hugi.is/litbolti ?

  4. Hugi.is er samfélag á Internetinu þar sem fólk á skoðanaskipti um áhugamál sín. Á vefnum hugi.is/litbolti er rætt um litbolta, sendar inn myndir og stuttar kvikmyndir af leikjum. Keppnir skipulagðar, spurt um álit með formlegum skoðanakönnunum og lið skora hvert á annað.

  5. Hvaða útbúnaður er notaður ?

  6. Leikmenn halda á litmerkibyssu, einnig kölluð merkjari (marker) og hafa á höfði sér andlitsgrímu með öryggisgleraugum (mask, goggle). Gríman hylur allt andlit frá hársrótum, yfir eyrun og niður fyrir kjálka. Á merkjarans er oftast skrúfaður þrýstiloftstankur. Tankar eru að stærð svipaðir 1 og 2 lítra gosflöskum, en einnig eru til 12 gramma hylki sem líkjast þeim sem notuð eru fyrir rjómasprautur á heimilum. Upp úr merkjaranum miðjum er fest trektlaga hylki, kallað kúlutrekt (hopper) sem geymir um 200 kúlur. Menn bera einnig á sér hlauphreinsi (squeegee), skaft með hringlaga sköfu á öðrum endanum og tusku festan á hinn til að hreinsa hlaupið. Margir festa einnig á sig burðarbelti (harness) og geyma í því 3 - 8 hylki (pots) sem hvert geymir 100 eða 140 kúlur. Oft má einnig setja þrýstiloftkútinn í burðarbeltið, er kúturinn þá tengdur merkjaranum með slöngu (remote).

  7. Get ég spilað litbolta ?

  8. Þeir sem hafa náð 18 ára aldri mega spila litbolta. Þeir sem eru 15 ára geta þó spilað með skriflegu leyfi forráðamanna.

  9. Hvaða reglur gilda um litbolta ?

  10. Dómsmálaráðuneytið hefur sett reglugerð sem undanskilur litbolta banni vopnalaga. Reglugerðina má sjá á heimasíðu Litboltafélags Reykjvíkur með skýringum og athugasemdum, slóðin er http://paintball.simnet.is/reglugerd-um-litbolta.html.
    Hér er síðan hlekkur inná síðu dómsmálaráðuneytisins http://www.domsmalaraduneyti.is/efnisgreinar/nr/310

  11. Hvaða yfirvöld hafa eftirlit með litbolta ?

  12. Ríkislögreglustjóri veitir litboltafélagi starfsleyfi eftir að lögreglustjóri viðkomandi bæjarfélags hefur samþykkt húsnæði félagsins. Lögreglustjóri veitir litboltafélagi leyfi fyrir litboltavelli eftir umsögn sveitarstjórnar. Ríkislögreglustjóri veitir litboltafélagi heimild til innflutnings litmerkibyssa.

  13. Er litbolti hættulegur ?

  14. Nei, því er fjarri sé réttum öryggisreglum fylgt. Skotkraftur merkjaranna er lítill. Samkvæmt stöðlum alþjóðlegra samtaka leikmanna og framleiðanda eru merkibyssur eru framleiddar þannig að hámarksskothraði þeirra er 95 metrar á sekúndu (300fps) við hlaup. Kúlan er létt og stór þannig að loftmótstaða hægir mjög á henni strax á fyrstu metrum skotferilsins. Hámarkslangdrægi við bestu aðstæður er því um 45 metrar. Þá er skotið upp í loft með besta útkastshorni. Í leik, þar sem skotið er beint fram er drægið um 20 metrar.

    Eina hættan sem getur skapast við merkileik er ef leikmaður fær kúlu í vitin, sérstaklega í augu. Því er ætíð leikið með andlitsgrímur sem hylja allt andlit að eyrum og kjálka meðtöldum. Grímurnar eru með öryggisgleraugu af staðli sem þolir að skotið sé í glerið af engu færi. Til gleraugna eru gerðar þær lágmarkskröfur að þau þoli ítrekuð skot úr minna en 1 meters fjarlægð af 33% meiri krafti en mest getur orðið frá merkibyssu, eða af 126 m/sek hraða. Allir framleiðendur sem vitað er um gera mun meiri kröfur til framleiðsluvara sinna og fylgja því og fara fram úr eftirfarandi stöðlum : ANSI Z-87.1, bandarísku staðlarnir ASTM F1776-97 og MIL-V-43511C og EC Directive 89/686/EEC fyrir Evrópusambandið og EES löndin við kúluhraðann 550 - 560 fet á sekúndu. Staðlarnir skilgreina hámarksskemmdir sem mega verða á grímu og gleraugum við uppgefinn hraða á kúlunni. Þetta þýðir að gríman og gleraugun þola ítrekuð skot af nærri tvöföldum þeim krafti sem merkjari getur skotið með.

  15. Er þetta ekki sárt ?

  16. Það er mismunandi. Það getur verið nokkuð sárt að fá skot í sig af mjög lítilli fjarlægð, til dæmis af innan við 5 metra færi. Er slíkt ekki gert heldur beðið um uppgjöf þegar leikmaður nær þannig færi á annan. Að skjóta úr slíku færi er óíþróttamannsleg framkoma og ekki látið óátalið í leik. Í formlegum keppnum er hins vegar skotið til að óyggjandi sé að merking hafi orðið, nema leikmaður gefist upp að fyrra bragði. Ef leikmaður skýtur úr algeru návígi í annan leikmann er það mesta sem komið getur fyrir að leikmaður fái marblett og væg eymsli.
    Í venjulegum leik finna menn fyrir því þegar menn fá kúlu í sig, en sársauki af því hverfur á fáeinum augnablikum.

  17. Hver er uppruni og saga litbolta ?

  18. Litbolti á upphaf sitt að rekja til Bob Gurnsey, Hayes Noel og Charles Gaines, frá Henniker í New Hampshire í Bandaríkjunum sem í maí 1981 skipulögðu nýja íþrótt þar sem menn læðast hver að öðrum og merkja með málningu og loftbyssum. 27. júní 1981 hafa þeir látið framleiða fyrstu merkjarana, Nel-Spot 007. Spilað var “náið fánanum” með 12 leikmönnum og 4 fánum. Sá sem náði öllum fánanum skaut ekki einu skoti í leiknum.
    Í apríl 1982 er fyrsti völlurinn opnaður af Caleb Strong í Rochester, New York. Charles Gaines kemur litbolta á framfæri árinu í íþróttavöruverslun sinni undir heitinu “the National Survival Game, (NSG)”. Sama ár er fyrirtækið PMI (Pursuit Marketing Inc.) stofnað með það að markmiði að framleiða og selja litboltavörur.
    1983 er fyrsta NSG landsmót Bandaríkjanna haldið með 14 þúsund dollara heildar verðlaunafé. Það ár opna fyrstu litboltavellirnir utan Bandaríkjanna í Toronto, Kanada.
    Í nóvember 1984 opnar Caleb Strong fyrsta innanhússvöllinn í Buffalo, NY.
    1985 er fyrsti völlurinn opnaður í Englandi.
    Árið 1988 er “IPPA” (International Paintball Players Association) alþjóðasamtök leikmannastofnuð.
    1991 kemur litbolti til Frakklands, Danmerkur og fleiri landa í Evrópu.
    Í nóvember 1992 er atvinnumannadeildin NPPL (National Professional Paintball League) stofnuð í Bandaríkjunum og mótaröð hefur verið haldin árlega undir merkjum deildarinnar þar í landi.
    Undanfarin ár hefur önnur mótaröð verið haldin í Evrópu og heitir hún Millenium Masters.

  19. Hvað er Litboltafélag Reykjavíkur/Suðurnesja/Selfoss/Austurlands ?

  20. Samkvæmt reglugerð um litbolta er einstaklingum ekki heimilt að eiga merkjara. Einungis félög eða fyrirtæki með ástundun litbolta að markmiði mega flytja inn, kaupa og eiga merkjara. Því hafa áhugamenn um íþróttina stofnað með sér félög sem uppfylla skilyrði reglugerðarinnar fyrir starfsemi, fengið tilskilin leyfi og fer íþróttin fram innan þeirra.

  21. Af hverju orðið “merkjari” ?

  22. Þessi íþrótt á ekkert skylt við hernað eða aðrar aðstæður þar sem byssur eru notaðar. Þess vegna er valið orð sem ekki er dregið af byssu. Íþróttin byggir á liðsheild, útsjónarsemi, rökhyggju, samstarfi og snerpu. Hún byggir á liðsheild, sem getur skipulagt sig og unnið saman að sameiginlegu markmiði þar sem hver liðsmaður hefur ákveðið hlutverk og hefur traust liðsmanna sinna til að sinna því. Liðið er aldrei traustara en veikasti hlekkurinn og því komast leikmenn fljótlega að því að verk eins manns eru til einskis, allt byggir á samvinnu þar sem öll hlutverk eru jafn mikilvæg. Þó einn leikmaður hljóti heiðurinn af því að ná fána andstæðingsins og hlaupa með hann í heimahöfn gæti hann það ekki nema með stuðningi liðsmanna sinna. Merkileikur kennir því skipulag, kænsku og mikilvægi þess að fyrirfram ákveðið skipulag sé framkvæmt rétt.

  23. Hvað er pumpa ?

  24. Pumpa er merkjari sem þarf að trekkja handvirkt fyrir hvert skot. Oftast er handfang til þess fyrir framan gikk merkjarans sem dregið er meðfram hlaupinu fyrir neðan það, svo hreyfingin líkist því að pumpað sé í reiðhjólapumpu.

  25. Hvað er semi-auto ?

  26. Merkjari sem spennir sig sjálfur eftir hvert skot er kallaður hálf-sjálfvirkur eða “semi-auto”. Merkjarinn notar hluta af skotkraftinum til að spenna sig.

  27. Hvar get ég spilað litbolta ?

  28. Tvö fyrirtæki reka velli þar sem leigja má allan nauðsynlegan útbúnað, Litbolti ehf. (sími 899-1100) rekur völlinn í Fossvogsdal í Kópavogi og Engill ehf. (sími 893-9000) er með færanlegan völl og fer á milli staða.

  29. Hvað kostar að spila litbolta ?

  30. Allur nauðsynlegur útbúnaður kostar frá 35 þúsundum ef það ódýrasta er valið. Það sem mælt er með kostar um 50-70 þúsund. Er það góður hálf-sjálfvirkur merkjari að öllu úr málmi, gríma með tvöföldu gleri til móðuvarnar, kúlutrekt, 20oz kolsýrukútur eða þrýstiloftskútur, hlauphreinsir, tappi í hlaupið til öryggis, burðarbelti fyrir 4 hylki og kút og 4 hylki. Kúlur kosta um 8 - 9 þúsund kassinn sem inniheldur 2000 til 2500 kúlur.
    Að leigja útbúnað hjá fyrirtækjunum hefur kostað um 3 - 4 þúsund fyrir skiptið, innifalin er sú kolsýra sem þarf og 100 kúlur. Viðbótarkúlur kosta um 900 - 1000 krónur fyrir hverjar 100 kúlur.

  31. Hvernig merkjara á ég að fá mér ?

  32. Best er að byrja ódýrt en ekki of ódýrt, því ódýrustu merkjaranir eru að miklu leyti úr plasti. Betra er að velja merkjara sem er allur úr málmi, og þá úr “aerospace grade” álblöndum. Hálf-sjálfvirkir merkjarar eru lang-algengastir. Litboltafélag Reykjavíkur hefur mælt með Inferno Terminator T3 sem eru hannaðir og framleiddir í Bretlandi af virtu fyrirtæki í greininni, Belsales ltd. Nokkrar gerðir af Kingman Spyder eru einnig mjög vinsælir svo og Tippmann model98.

  33. Hvernig grímu á ég að fá mér ?

  34. Grímu með tvöföldu gleri, það hindrar móðumyndun innan á glerinu að mestu. Best er að mæta þar sem er verið að spila. Það er sjálfsagt að fá að máta þær ýmsu gerðir sem er verið að nota því höfuðlag manna er mismunandi og mönnum líkar mismunandi grímur. Ef gríman þarf að passa utan yfir gleraugu skiptir það enn meira máli. JT Spectra og JT Flex-7 eru vinsælar, svo og ýmsar gerðir frá Scott og Brass Eagle.

  35. Get ég keypt merkjara af vefverslun ?

  36. Nei, einstaklingar mega ekki flytja inn merkjara. Gakktu í litboltafélag og það getur séð um að kaupa merkjara sem þú hefur afnot af. Litboltafélag Reykjavíkur hefur keypt beint frá framleiðendum, heildsölum, smásölum og ýmsum vefverslunum beggja vegna Atlantshafs.

  37. Get ég keypt merkjara erlendis og komið með hann heim ?

  38. Nei, einstaklingar mega ekki flytja inn merkjara. Gakktu í litboltafélag og það getur séð um að kaupa merkjara sem þú hefur afnot af. Litboltafélag getur keypt notaða merkjara erlendis frá og er ekkert í vegi fyrir því að keypt sé af einstaklingi. En nauðsynlegt er að gefa út lögformlegan reikning og greiða tolla og virðisaukaskatt af innflutningnum.

  39. Hvernig kaupi ég merkjara á Íslandi ?

  40. Einstaklingar geta ekki keypt merkjara. Litboltafélögin kaupa og eiga merkjara til afnota fyrir félagsmenn sína.

  41. Hver er munurinn á kolsýru (CO2) annars vegar og þrýstilofti (HPA) og köfnunarefni (N2) hins vegar ?

  42. Kolsýrukútar eru algengir og ódýrir. En kolsýra kólnar mjög þegar hún þenst út, þ.e. þegar skotið er ítrekað. Suðumark kolsýru er ekki langt undir frostmarki vatns (-73°C) og því er hætta á því að fá fljótandi kolsýru upp í merkjarann. Hitasveiflurnar valda einnig sveiflum í þrýstingi og því er skotkraftur sveiflukenndur og skotin verða ónákvæmari. Kuldinn getur einnig skemmt gúmmí í þéttihringjum svo ventlar verða óþéttir. Á kolsýrukút er um 850 punda þrýstingur en það er sá þrýstingur sem algengir merkjarar nota að jafnaði. Til að minnka líkur á fljótandi kolsýru og jafna þrýstinginn eru notaður ýmis búnaður, svo sem “anti-siphon” rör í kolsýrukútinn, rýmdarklefi (expansion chamber) þar sem fljótandi kolsýra gufar upp og fær jafnara hitastig og þrýstijafnari (regulator). Kolsýrukútar eru mældir eftir þyngd kolsýrunnar sem í þeim er fullhlöðnum, 20oz er stærst og algengast, 12 eða 14oz er einnig til og allt niður í 9oz kúta. Minnstu hylkin geyma 12 grömm og eru einnota og eru eins að gerð og nituroxíð hylkin sem notuð eru í rjómasprautur.

    Þrýstiloftskútar geyma andrúmsloft undir 3000 eða 4500 punda þrýstingi. Sami útbúnaður er notaður fyrir þjappað andrúmsloft (HPA) og hreint köfnunarefni (N2). Í hausnum á þeim er þrýstijafnari (regulator) sem gefur út 850 pund eða annan lægri þrýsting ef merkjarinn notar það. Andrúmsloft hefur mikið mun lægra suðumark (-185°C) en kolsýra og þrýstingur frá kútnum því mjög jafn. Það bætir nákvæmni í skotum mjög. Ódýrustu þrýstiloftskútar með fast stilltum þrýstijafnara kosta þrefalt á við algenga kolsýrukúta en stærri og dýrari kútar með stillanlegum þrýstijafnara tífalt. Þrýstiloft er mælt í rúmmáli kútanna og er það í rúmtommum (cubic inch, ci, cu).

  43. Hvar fæ ég hlaðið á kolsýru- eða þrýstiloftshylki ?

  44. Kolsýruhylki má fá hlaðin hjá Öryggismiðstöðinni í Borgartúni (Eldverk sameinaðist Öryggismiðstöðinni haustið 2001) og hjá Kolsýruhleðslunni á Kársnesi í Kópavogi. Hleðslan kostar 450 krónur. Þrýstiloftshylki má fá hlaðin hjá Kolsýruhleðslunni (kafaraþjónustan Prófun sameinaðist Kolsýruhleðslunni og er flutt þangað) og kostar 500 krónur. Flest fyrirtæki sem sinna slökkvitækjaþjónustu ættu einnig að geta hlaðið á kolsýruhylki.

  45. Hver er munurinn á mismunandi gerðum af kúlum ?

  46. Það eru til ansi margar gerðir af kúlum...aðalmunurinn á æfingakúlum og venjulegum er nákvæmni í framleiðslu. Fyrstu 1 - 2 milljón kúlurnar sem koma úr vélunum í hverri framleiðslulotu eru ónákvæmar, ekki alveg kúlulaga og það getur verið stærðarmunur á þeim því það er verið að stilla vélarnar á þessum tíma framleiðsluferilsins. Þetta gerist hjá öllum gerðum af kúlum, en þetta magn er ekki selt af dýrari kúlunum, því framleiðendur vilja ekki láta slíkar kúlur með lítil gæði frá sér. Sum fyrirtæki hafa aftur á móti selt þessar fyrstu kúlur framleiðslulotunnar sem æfingakúlur.

    Til er margar gerðir og verðflokkar af kúlum.

    Ódýrastar eru kúlur með þykkri skel og þunnfljótandi innihaldi í daufum litum. Þykk skelin þýðir að kúlan þolir að vera skotið úr venjulegum blow-back merkjara sem notar um 700 - 1000 punda þrýsting. Þetta eru allir þessir venjulegu...Spyder, Tippmann, Inferno, Piranha og svo framvegis. Þunnt innihald með daufum litum gerir það auðvelt að þurrka það af sér, gott fyrir venjulega leikdaga og leiguvelli. Stærðin er síðan ekki alveg 100% sú sama á öllum kúlum, en vel innan eðlilegra marka. Þessar kúlur eru líka frekar stórar. Dæmi um þessar kúlur er Diablo Midnight, RPS Euroflite

    Næstar koma kúlur með þykkri skel og slímugra innihaldi með skærum litum, þetta eru keppniskúlur fyrir venjulega merkjara. Stærðin er með góðri nákvæmni og þessar kúlur eru örlítið minni en þær ódýrustu og passa því í lengri og þrengri hlaup ef menn hafa keypt slík sem “upgrade”. Slímugt innihaldið er erfiðara að þurrka af sér og skærir litirnir tryggja að það sést líka vel. Dæmi : Diablo Blaze og RPS Marballizer

    Dýrastar eru kúlur með þunnri skel, slímugu innihaldi og skærum litum. Þetta eru keppniskúlur fyrir dýru lágþrýstu merkjarana sem nota þýstiloft á 180 til 300 punda þrýsting, Shocker, Angel, Evolution Autococker og slíka. Þunn skelin myndi springa í hlaupinu á venjulegum merkjara, en hún springur líka á öllu sem kúlan hittir. Skærir litir tryggja að innihaldið sjáist og slímið í því gerir það erfitt að þurrka það af. Þessar kúlur eru einnig smæstar af öllum. Dæmi um þessar kúlur er Diablo Inferno.

  47. Hversu mörgum skotum næ ég úr kútnum ?

  48. Það er mismunandi eftir merkjurum hversu vel þeir nýta loftið. Dýrari merkjarar hafa oft betri nýtni en það er ekki algilt. 12oz kolsýrukútur ætti að gefa um 500 - 600 skot, 20 oz kútur um 1000 - 1200. Þrýstiloft með 3000 punda þrýstingi gefur um 400 - 500 skot frá 44cu kút og um 800 frá 68cu. Þrýstiloft með 4500 punda þrýsingi gefur um 1200 - 1400 skot frá 68cu og 1500 - 1800 frá 114cu kút. Úr 12 gramma hylki fást 20 - 25 skot.

  49. Hvað nota ég mörg skot í leik ?

  50. Það er mjög misjafnt. Þeir sem eru aftast á vellinum skjóta mest því þeir láta skæðadrífu rigna yfir andstæðingana til að halda þeim í skefjum. Þeir sem fara fremst skjóta minnst. En það fer einnig eftir spilastíl hvers og eins. Allt frá 100 til 1000 kúlum í 4 mínútna leik 5 manna liða er vel mögulegt. Í atvinnudeildinni þekkist oft að öftustu menn noti yfir 2000 kúlur í leik.

  51. Hvaða merkjari er bestur ?

  52. Það fer að öllu leyti eftir smekk og spilastíl hvers og eins hvað mönnum finnst. Út-úr-trikkaður Autococker, Angel, Shocker, E-Mag og fleiri slíkir merkjarar eru þeir bestu að flestra mati.

  53. Hvað er “stock” flokkur ?

  54. Í “stock” flokki nota allir leikmenn sama útbúnað, svo sigur er eingöngu vegna kunnáttu og hæfileika leikmannsins. “Stock” flokkur notar oftast pumpur ekki semi-auto. Menn nota ekki kúlutrektir heldur er rör ofan á hlaupinu sem geymir 20 kúlur. Gaskútar eru ekki leyfðir heldur einungis notuð 12 gramma hylki.

  55. Hver er munurinn á “open bolt” og “closed bolt” merkjara ?

  56. Langflestir hálf-sjálfvirkir merkjarar eru “open-bolt”. Það þýðir að merkjarinn er trekktur fyrir skot, það er að boltinn er opinn og er í öftustu stöðu og kúla er fyrir framan hann í hlaupinu, tilbúin að verða skotið. Við það að tekið er í gikkinn slær hamarinn á ventilinn sem hleypir skammti af gasi upp af stað. Hamarinn hleypir einnig boltanum af stað þar sem gormur ýtir honum fram hlaupið þar til hann fer yfir gat sem hleypir gasinu upp í gegnum boltann. Gasið ýtir kúlunni fram hlaupið og hluti gasþrýstingsins fer í að ýta boltanum aftur til baka og spenna merkjarann og hleypa nýrri niður í hlaupið.

    Pumpur eru “closed bolt”. Boltinn er í fremstu stöðu fyrir skot og kúla er í hlaupinu fyrir framan hann. Þegar tekið er í gikkinn er gasskammti hleypt í gegnum boltann og kúlunni blásið út. Við það að trekkja eftir skotið er boltinn spenntur aftur, ný kúla dettur niður og boltinn fer aftur fram. Til eru “closed-bolt” hálf-sjálfvirkir merkjarar þar sem hluti gassins er tekinn aðra leið til að drífa pumpuna eftir hvert skot. Autococker er þekktastur þessara merkjara. Þar sem ekki verður rúmmálsaukning fyrir aftan kúluna um leið og skotið er eins og gerist þegar boltinn fer aftur í “open-bolt” merkjara verður minni um lofthvirfla fyrir aftan kúluna. Henni er því ýtt út með jafnara álagi svo skotið verður nákvæmara.

  57. Smá letrið....

  58. Þessi listi algengra spurninga og svara er eftir Guðmann Braga Birgisson [gudmann@simnet.is]. Höfundarréttur (c) er áskilinn. Þennan lista má birta hvar sem er á Internetinu, svo lengi sem hann er birtur í heild sinni, höfundar getið, þessi síðasta 29. grein fylgi og birting ekki sé í hagnaðarskyni eða í öðrum viðskiptalegum tilgangi.

    Listinn er birtur án ábyrgðar, höfundur ber ekki ábyrgð á villum eða ófullnægjandi upplýsingum eða afleiðingum ákvarðana eða athafna sem byggðar eru á þeim upplýsingum sem í listanum eru.

Hugi notar vefkökur til að bæta notendaupplifun á vefsíðunni og greina umferð um hana. Einnig hefur Hugi uppfært persónuverndarstefnu sína. Skoðaðu stefnuna hér..
Ok