Gentoo dreifingin Ég ætla að halda hér smá kynningu á þessari dreifingu sem ég hef verið að nota í rúmt ár eða svo.

Árið 2002 heyrði ég af Open Source/Free Software heiminum og UNIX stýrikerfinu GNU/Linux, sem vakti forvitni mína. Ég náði mér í Red Hat 8 og skellti því á borðtölvuna, fiktaði eitthvað lítilsháttar í því og lét gott heita í bili. Nokkrum mánuðum síðar prófaði ég Mandrake 9.1, og fannst það bara ágætis kerfi, en ég fékk fljótt leið á því.

Síðan árið 2003 heyrði ég af Gentoo, Linux dreifingu sem er mjög frábrugðin því sem ég hafði áður kynnst. Eftir að hafa lesið mig aðeins til um þetta kerfi þá átti það víst að vera helvíti í uppsetningu og alls ekki fyrir byrjendur. Þetta hrakti mig ekki burt, en ég var ennþá örlítið efins. En síðan rakst ég á frábæra grein(hluti1, hluti2, hluti3) um hvernig Gentoo varð til, skrifaða af manninum sem kom því öllu af stað, og ég gat ekki beðið eftir því að prófa.

Það eru nokkrir mikilvægir hlutir sem aðskilja Gentoo frá flestum þessum “stóru” dreifingum eins og SUSE, Fedora og Mandrake, sem ég ætla nú að þylja upp, ásamt fleiru.


Pakkakerfið

Gentoo er “source-based”, ekki “binary-based”. Þ.e.a.s. pakkakerfið, sem heitir Portage, tekur ekki bara tilbúinn pakka, afpakkar, og setur skrárnar á sinn stað. Oftast nær, þá nær það í grunnkóðann fyrir forritið, afpakkar, vistþýðir(compile), og setur síðan skrárnar á sinn stað. Portage er þannig uppbyggt að það hefur gagnagrunnur af “ebuild” skrám fyrir hvern einasta forrit sem lýsa því hvernig á að setja það upp. Það segir hvar skal ná í kóðann, hvað skal gera við hann, og hvert skal setja útkoma. Notandinn uppfærir svo gagnagrunninn þegar honum hentar, til að fá inn ný ebuilds fyrir ný forrit.

Einn ómissandi kostur sem ber að nefna er að RHnet speglar þennan gagnagrunn, svo að ekki þarf að eyða óþarfa aurum í niðurhal utanlands þegar gagnagrunnurinn er uppfærður. Gentoo speglar einnig flesta pakka sem eru til staðar í pakkakerfinu, og er slíkur spegill auðvitað á RHnet.

Þetta ferli býður upp á mikla stjórnun og sérsníðingu. Sem dæmi þá eru notuð svokölluð “USE flags” til að stjórna því hvað þú vilt hafa í forritum og hvað ekki. T.d. getur þú kveikt á USE flagginu “mozilla” til þess að segja Portage að þú viljir Mozilla stuðning fyrir þau forrit sem hafa upp á slíkt að bjóða. Þannig ræður þú nákvæmlega hvað þú færð, og hvað ekki.

Gallinn við að nota ekki binary-based dreifingu er auðvitað sá að það tekur sinn tíma að vistþýða forritin. Á eldri tölvum getur það verið óhentugt, en það er alveg vel þolanlegt á skikkanlegri tölvu. Það hefur allavega ekki angrað mig neitt.


Uppsetningin

Að setja upp Gentoo er það fróðlegasta sem ég hef þurft að ganga í gegnum hvað Linux varðar. Það er vegna þess að í Gentoo er ekkert uppsetningarforrit sem gerir þetta allt fyrir þig, þú gengur frá þessu sjálfur. Allt sem maður lærir í uppsetningunni nýtist manni seinna meir, því að maður er bara að nota almenn Linux tól til að koma kerfinu upp.

Allt þetta er að sjálfsögðu gert frá skipanalínunni(command line), sem mér finnst mikilvægt að kynna fyrir Linux notandanum strax í byrjun.

Þessi uppsetning er alls ekki eins erfið og ég hélt að hún yrði. Það er einfaldlega vegna þess hve frábærar leiðbeiningar eru til staðar. Þær eru ítarlegar, og auðskiljanlegar fyrir alla þá sem hafa sæmilega reynslu af tölvum. Að setja upp Gentoo er frábær leið til að læra á Linux.

Þegar maður ætlar að setja upp Gentoo, þá er hægt að byrja á þrjá vegu; stage1, stage2 eða stage3. Þetta er útskýrt í Gentoo handbókinni, en ég ætla samt sem áður að lýsa þessu hér til að gefa ykkur smá innsýn í uppsetningaferli Gentoo.

Stage 1 uppsetning fer þannig fram að þú byrjar á því að setja inn algjört grunnkerfi á einhverja disksneið. Þetta grunnkerfi inniheldur aðeins strípaðar útgáfur af þýðendum og tólum tengd þeim, sem þú notar til þess að vistþýða nýjustu, fullútbúnu útgáfur af þessum tólum uppá nýtt. Þá ertu kominn með jafngildi Stage 2 kerfis.

Stage 2 inniheldur þá sem sagt fullútbúna þýðendur og tól til þess að vistþýða restina af kerfinu. Þegar það er búið þá ertu kominn með jafngildi Stage 3 kerfis. En það sem Stage 1 býður ekki uppá sem er ekki hægt til staðar hér er möguleikinn að sérsníða hvernig þýðendurnir og tólin voru byggð, m.t.t. features/optimizations, og auðvitað ertu ekki með nýjustu útgáfur af þeim.

Stage 3 kerfi er nú þegar komið með allt sem þarf nema örfáa hluti sem þú setur inn seinna í uppsetningunni.

Að byrja á stage 2/3 hentar auðvitað best ef þú hefur lítinn tíma eða hægfara tölvu. En það sem gerir Gentoo svo einstakt er það að hvert uppsett Gentoo kerfi er frábrugðið öðru, nema þegar notað er stage3. Það er vegna þess að það er stöðugt verið að uppfæra ebuildin í Portage. Þá er ólíklegt að ég fái sömu útgáfur af forritunum og sá sem setur upp kerfið á sama hátt einni viku síðar.

Einnig má bæta við að Gentoo liðið er mjög duglegt við að gefa út nýjar útgáfur af LiveCDs(geisladiskurinn sem notaður er við uppsetningu) sem styðja nýjan vélbúnað, svo að fáir ættu að lenda í vandræðum með það.


Samfélagið

Samfélagið í kringum Gentoo er yndislegt, eitt af því sem mér líkar best við í fari Gentoo. Bendi ég þá á opinbera spjallborðið þeirra, sem er mjög vinalegt og hefur bjargað mér oftar en ég hef tölu á. Einnig stofnaði ég til spjallrásar á IRCnet, #gentoo.is, því að Gentoo-tengdar spurningar voru farnar að yfirgnæfa samræðurnar á #linux.is. Á þessari rás er mjög auðvelt að fá hjálp, allavega frá mér. ;)


Hvar á að byrja?

Þú kíkir hingað, velur þitt architecture(að öllum líkindum ‘x86’), og byrjar að lesa. Ef þú lendir í vandræðum, hikaðu ekki við að kíkja á #gentoo.is.



http://www.gentoo.org/
http://forums.gentoo.org/
ftp://ftp.rhnet.is/pub/gentoo/

Hinrik / Halanegri @ IRCnet
___________