Sæl verið þið.

Mig langar til þess að setja fram nokkra gagnrýni á frétt ykkar um PlayStation 3 leikjavélina og fjarstýringuna á hana. Hún er frekar ónákvæm og gefur upp ranga mynd af þeirri nýjung sem þið segið fjarstýringuna vera. Einnig komu nokkrar staðreyndavillur fram. Hér eftir lista ég nokkur atriði sem hefði mátt koma skýrar fram:

———-

“DUAL-SHAKE” FJARSTÝRINGIN

Þótt fjarstýringin sé gædd hreyfiskynjara þá þýðir það ekki að hann sé rosalega nákvæmur. Það má segja að hún sé “tilt sensitive” og hún skynjar bara snöggar hreyfingar til hliða, upp, niður, áfram og afturábak. Hún er einnig munduð í tveimur höndum og býður ekki upp á þá möguleika sem einnar handar fjarstýring myndi bjóða upp á vinsælum gerðum tölvuleikja á borð við skotleiki.

Ég vil benda ykkur á að kynna ykkur tækni sem Nintendo, keppinautur Sony, kynnti á Tokyo Game Show í fyrra, en þar sýndi Satoru Iwata, forseti Nintendo, nýja fjarstýringu leikjavélar sem þá var kölluð Revolution en ber núna nafnið Wii. Fjarstýringin er byggð á svokallaðri gyroscope tækni og skynjar hreyfingar í þrívíddu umhverfi. Fjarstýringin er munduð í einni hendi en ekki tveimur, eins og fjarstýring Sony fyrir PlayStation 3, og býður upp á fjölbreyttari möguleika en fjarstýring Sony. Hún styður einnig spilun með einni hendi og er hönnuð fyrir bæði örvhenta og rétthenta í huga.

Þegar Nintendo kynnti fjarstýringu sína kallaði Sony þessa hreyfiskynjunartækni lítið annað en brellu (e. gimmick). Núna, rúmlega hálfu ári síðar, er svipuð tækni komin í þeirra eigin fjarstýringu. Að sögn Dylan Jobe (ekki Dillon Joeb, eins og kom fram í frétt ykkar um PlayStation 3) fékk fyrirtæki hans, Incog Inc., fjarstýringuna nýju í hendurnar rúmlega einni og hálfri viku fyrir kynninguna sem fór fram 8. maí síðastliðinn. Þetta gefur til kynna að Sony hafi komið tækninni EFTIR að Nintendo kynnti sína eigin fjarstýringu, sem þið hafið nota bene ekkert fjallað um í fréttum ykkar undanfarna mánuði.

———-

STAÐREYNDAVILLUR OG ANNAÐ

1) Í frétt ykkar var nafn Dylan Jobe skrifað vitlaust (“Dillon Joeb”). Ég efast um að hann muni nokkurn tímann frétta af þessu persónulega en engu að síður finnst mér réttmætt að fréttastofa ríkisrekinnar stofnunar hafi nöfn fólks sem kemur fram á hreinu.

2) Fram kemur í frétt ykkar að vélin komi til með að kosta 600 dollara eða um 43.000 krónur. Þetta er að hálfu leiti rétt. Vélin verður seld í tveimur pakkningum, en þess má geta að þeir gagnrýndi Microsoft fyrir svipað athæfi á seinni hluta síðasta árs. Dýrari pakkinn kemur til með að kosta 599 dollara, en á borðstólnum er ódýrari pakki fyrir 499 dollara. Þetta kom skýrt fram á blaðamannafundi Sony 8. maí síðastliðinn. Aftur á móti var annað verð tilkynnt fyrir svæði innan Evrópusambandsins. Verðið þar verður 499 EVRUR fyrir ódýrari pakkann og 599 EVRUR fyrir þann dýrari. Það munu vera 45.000 krónur fyrir ódýrari pakkann og 54.000 krónur fyrir þann dýrari. Ég giska á að um það bil 15% virðisaukaskattur sé í þessu verði. Á Íslandi er virðisaukaskattur aftur á móti 24.5% og 10% tollur af öllum raftækjum. Leikjatölvur eru þar meðtaldar. Því er ljóst að vélin mun koma til með að kosta yfir 50.000 krónum hér á landi þegar þar að kemur. Því getur ekki staðist að verðið verði 43.000 krónur þar sem þið tókuð ekki skýrt fram að það væri vestanhafs.

3) Annað sem er tengd útgáfu vélarinnar er dagsetningin. Þið segið að vélin “komi á Bandaríkjamarkað í haust” og “líklega í nóvember”. Hér vil ég benda á að á Game Developers Conference í mars síðastliðnum tilkynnti Sony að vélin kæmi á markað í öllum heiminum nær samtímis. Þetta staðfestu þeir á fréttamannafundi sínum 8. maí síðastliðinn og þar kom skýrt fram útgáfudagur í Evrópu. Það verður 17. nóvember, sami dagur og hún kemur út í Bandaríkjunum. Þetta virðist fara framhjá þeim sem skrifaði fréttarinnar því hvergi kemur fram hjá ykkur að Evrópumarkaður sé í spilinu.

———-

Ég vil benda á að afriti af þessu bréfi verður komið fyrir á vefsíðu Huga.is, nánar tiltekið á áhugamálinu Leikjatölvur (www.hugi.is/leikjatolvur). Þráðurinn heitir “Opinbert bréf til RÚV” og getið þið fundið þráðinn á einum af korkum áhugamálsins. Einnig vil ég benda ykkur á umræðu á sama vef þar sem frétt ykkar er gagnrýnd af áhugamönnum:
http://www.hugi.is/leikjatolvur/threads.php?page=view&contentId=3454871

Að lokum vil ég spyrja ykkur hvort þessi frétt verði notuð í því skyni að auglýsa PlayStation hér á landi eða hvort þið munuð flytja fréttir af fundum Nintendo og Microsoft á E3 sem haldnir voru 9. maí síðastliðinn. Ég tel að allir aðilar þurfi að fá jafna umfjöllun í fréttamiðlum sem ykkur, sérstaklega þar sem engu minni hlutir voru kynntir á hinum fundunum tveimur.

Með kveðju og von um skjót svör,
Vilhelm Smári Ísleifsson
vilhelm [at] vilhelm.is