Eins og sumir hafa tekið eftir, er heilsíðugrein í Fréttablaðinu í dag (15. janúar) um klám í tölvuleikjum, og segir leiðari greinarinnar að með þessari grein sé saga tölvuleikjakynlífsins rakin. Á meðan það eru athyglisverðir punktar í greininni, þá sá ég snögglega að þetta söguyfirlit er alls ekki vandað og jafnvel kolvitlaust á köflum og mun þessi grein óneitanlega leiða til ranghugmynda hjá fólki um hvað sumir leikir ganga út á…en einmitt það virðist hafa gerst hjá greinarhöfunduni.
(Vel á minnst, hversu erfitt er fyrir blaðafólk nú til dags að fara yfir greinarnar sínar og fjarlægja allar stafsetningarvillur sem í þeim finnast?)
Mest fer fyrir brjósti mér þessi flott uppsetta tafla sem fylgir greininni, en hún á að segja okkur hvaða leikir á síðastliðnum 25 árum innihaldi klámfengið efni. Þar er líka tekið fram að leikir sem eru skrifaðir í Java-málinu séu ekki teknir með (sökum fjölda þeirra) né séu talin upp sérstök kynlífsforrit eða “tölvugert klám”. Til að byrja með eru seinustu tvær skilgreiningarnar svo víðtækar að þær ættu í sjálfu sér að útiloka ALLA tölvuleiki sem nokkurntíma hafa verið gefnir út, en það skiptir svosem ekki miklu máli þar sem listinn er ómarktækur hvort sem er sökum lélegs vals á leikjum og þversagnarkennda skilgreininga.
Hvað á ég við með þessu seinasta? Ég á við þá staðreynd að sumir af leikjunum á listanum eru álíka klámfengnir og dömubindaauglýsingar, og á sama tíma vantar nokkra virkilega klámfenga og grófa leiki á listann. Tökum nokkur vel valin dæmi:
# Hvergi er minnst á þá staðreynd að “Soft Porn” er textaævintýraleikur (þ.e. engin grafík á skjánum, einungis skrifaður texti) sem var endurútgefinn nokkrum árum síðar með grafík og var þá kallaður “Leisure Suit Larry”. Í öðrum orðum, sami leikurinn er talinn upp tvisvar.
# Leikirnir tveir um launmorðingjann Golgo 13 eru taldir upp, en ekki er talin ástæða til að telja upp aðra framhaldsleiki, þrátt fyrir að þeir séu klámfengnari en fyrrnefndir leikir. Nægir að nefna alla GTA-leikina, til dæmis. “GTA: Vice City” er ekkert einsdæmi um klámfengt efni í þessari leikjasyrpu, það hefur verið þar frá upphafi.
# “Rise of the Dragon” og “Planescape: Torment” eru, í samanburði við alla hina leikina á listanum, alsaklausir af öllum sakhæfingum um að innihalda klám eða kynlíf. Telst hið háa hlutfall PS:T af vændiskonum til kláms, sérstaklega þar sem öll samskipti við þær eru einungis í skrifuðum texta? ROTD er ekkert meira en meðal B-mynd að öllu leyti, ekki teljast B-myndir til kláms seinast þegar ég vissi. Svipaða hluti má segja um “Ultima VII” (og reyndar alla 20 Ultima-leikina samkvæmt orðum og alhæfingum greinarhöfundar) en eftir greininni að dæma telst Ultima 7 sem ljósblár kynlífsleikur fyrir það eitt að spilandanum býðst kynferðisleg þjónusta á einu baðhúsi, hvort sem hún með gangstæða kyninu eður ei.
# Dæmandi af því hvaða leikir eru taldir upp, þá spyr ég bara? Hvar er “Tomb Raider”? Lara Croft varð einungis svona vinsæl meðal karlpeningsins vegna þess að hún var með gríðarstór brjóst. Hægt er að deila um hvort eitthvert klám fyrirfinnist yfirhöfuð í Tomb Raider-leikjunum, en mér þykir undarlegt að stærsta tölvuleikjakyntákn sögunnar skyldi ekki vera í þessari grein.
Ég get nefnt fjöldan allan af leikjum sem ættu að vera á þessum lista yfir klámfegna leiki, en ég ætla að láta mér nægja að stikla á stóru. Það eru til margir leikir í anda Tetris sem eru klámfengnir, ekki eru þeir taldir upp. Nokkrir af hinum svokölluðu “Hentai”-leikjum hafa verið gefnir út utan Japans, hvar eru þeir? Evrópubúar hafa gefið út sinn skerf af kynferðislegum leikjum, eru þeir ekki nógu markverðir til að rata inn í greinina? Síðast en ekki síst, hvar eru “Fallout”-leikirnir? Þær kynferðislegu athafnir sem hægt er að stunda í þeim leikjum (alltsaman einungis í skrifuðum texta, auðvitað) réttlætir svo sannarlega tilverurétt þeirra í þessari grein, en ekki fann ég staf um þá.
Ég sé ekki betur en að þessi grein sé skrifuð með því markmiði að veita foreldrum innsýn inn í hina kynferðislegu hlið eins helsta afþreyingarefni samtímans, en sökum lélegrar heimildaröflunar, tilhæfulausra alhæfinga og ófullnægjandi skilgreininga þykir mér vafasamt að sá árangur muni nást. Reyndar sýnist mér öll greinin bera þann keim að vera nánast beinþýdd uppúr einhverju bandarísku dellublaðinu, enda er hið tvöfalda siðferði Kanans gagnvart kynlífi og ofbeldi vel þekkt.
Mér þykir það hin argasta synd að þetta umræðuefni (kynlíf í afþreyingarefni) sem virkilega þarf að vera rætt opinberlega til að upp sé dregin rétt mynd, og að fordómum í garð þess sé útrýmt, sé skyrpt út af Fréttablaðinu án alvöru próförkunar og staðfestingar.