Children of Men (2006) * * * * Árið 2027 í sundurtættum og erfiðum heimi getur maðurinn ekki lengur eignast afkvæmi og fyrrum aðgerðarsinni fellst á að hjálpa að flytja ólétta konu til sjós þar sem fæðing barnsins gæti hjálpað vísindamönnum að bjarga framtíð mannkynsins.

_________________________________________________

Children of Men er nýjasti vísindatryllir Alfonso Cuarón og verður hún að teljast hans besta mynd til þessa. Myndin er byggð á samnefndri skáldsögu P.D. James frá árinu 1992. Einnig skartar hún frábærum hóp leikara sem allir skila sínu hlutverki nokkuð vel.

Eitt það sem einkennir myndina hvað helst er hversu ofbeldisfull, dimm og hráslaleg hún er. Þeir sem að myndinni stóðu stóðu sig virkilega vel í að skapa það andrúmsloft, ekki bara með ofbeldi, heldur með gullfallegri kvikmyndatöku og sviðsmynd sem sýnir hversu hrá og grimm London borg hafði orðið. Persónur myndarinnar eru einnig byggðar upp virkilega vel og eru þær einnig trúverðugar. Handritið er þétt og hnitmiðað og skilur ekki mörg göt eftir sig.

Clive Owen fer hér með aðalhlutverk myndarinnar og er persóna hans í svipuðum dúr og hans fyrri hlutverk. Hann hefur þó réttan persónuleika fyrir hlutverkið og fyrir vikið er lítið neikvætt um hans frammistöðu að segja. Julianne Moore fer svo með hlutverk foringja innflytjenda hópsins ,,Fiskarnir” og sýnir hún mikin karakter og fer vel með hlutverkið. Chiwetel Ejiofor og Charlie Hunnam, sem eru hluti af illmennum myndarinnar, standa sig einnig með prýði. Michael Caine kemur einnig við sögu í myndinni sem afslappaður hippi og stendur hann sig virkilega vel. Ef eitthvað mætti setja út á leikhópinn þá væri það sennilega Claire-Hope Ashitey sem leikur hina ungu, óléttu Kee. Persóna hennar er heldur til ótrúverðug og það helst vegna takmarkaðra leikhæfileika hennar.

Útlit myndarinnar er óaðfinnanlegt. Öll sviðsmynd er hrá og dimm og er myndataka myndarinnar virkilega vel unnin. Sama má segja um tæknivinnslu en myndin er eins raunveruleg og þær gerast.

Children of Men er yfir höfuð virkilega vel unnin kvikmynd sem heillaði mig frá byrjun til enda. Ef þú ert einn af þeim sem ert hræddur um að klisjukenndar Hollywood myndir séu allt sem kvikmyndahúsin hafa upp á að bjóða, þá á Children of Men eftir að vera mikill léttir.

* * * * / 5

-TheGreatOne