En að myndinni. Ég sá United 93 sem er nýjasta mynd leikstjórans Paul Greengrass. Þekktasta mynd hans er líklegast hin stórgóða The Bourne Supremacy en hann gerði einnig Bloody Sunday sem fjallar um Svarta sunnudaginn í Norður-Írlandi árið 1972. Paul Greengrass er einnig handritshöfundur United 93 og er að undirbúa gerð The Bourne Ultimatum sem á að verða frumsýnd á næsta ári.
United 93 fjallar um eina af flugvélunum sem rænt var 11. september 2001 og brotlendi í Shanksville í Pennsylvaniu. Paul Greengrass fékk aðstoð frá aðstandendum fórnarlambanna flugslyssins við gerð myndarinnar sem gefur henni raunverulegri blæ, m.a. fékk hann að vita í hvernig fötum fólkið var klætt, hvert það var að fara, hvort það væri með vasadiskó með sér og þess háttar.
United 93 byrjar á því að múslimi er að fara með bænir sínar á hótelherbergi og félagi hans kemur til hans og segir, á erlendu tungumáli: “It's time.” Það er áhrifaríkt og setur tóninn fyrir það sem koma skal. Ef ég ætti að bera United 93 við einhverja mynd væri það örugglega Saving Private Ryan og Der Untergang - sjokkerandi, raunveruleg og erfið á að horfa. Þetta er krefjandi mynd sem fjallar um raunverulega atburði einhvern erfiðasta dag sem heimurinn hefur upplifað, hryðjuverkin 11. september. Paul Greengrass kemur efninu frá sér á hlutlausan hátt og með skilning á viðfangsefninu, hann bendir ekki á múslima og segir þá illa eða ljóta heldur lætur hann þá líta út fyrir að vera venjulega menn sem eru heilaþvegnir af Kóran-inum og trúa því virkilega að þeir séu að koma sér til himna með þessum verkum sínum.
Við fáum ekki að kynnast persónunum í myndinni, það er engin persónuuppbygging því það er algjör óþarfi, maður veit að þetta var venjulegt fólk að ferðast vegna vinnu eða heimsækja ættingja sína eða vini. Þetta var fjölskyldufólk sem var það óheppið að lenda í klóm hryðjuverkamanna og átti sér aldrei von. Leikararnir í myndinni eru óþekktir en svo sannfærandi að mér fannst eins og þetta væri fólkið sjálft.
Það má í rauninni skipta myndinni í tvennt; annars vegar hvað gerist í flugvélinni sjálfri og það sem gerist á jörðu niðri þennan örlagaríka dag. Við fáum að sjá hvernig flugmálayfirvöld vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga, hvernig herinn bregst við og þegar seinni flugvélin flýgur á turninn. Það er alltaf jafn erfitt að sjá það, ég fæ alltaf hnút í magann. Það gerir myndina svo raunverulega að mér finnst ég vita miklu meira um þessa óvæntu atburðarrás.
United 93 er góð mynd. Það vita allir hvað gerðist 11. september, það vita allir hvað gerðist fyrir vélarnar þrjár sem tókst takmark sitt; að fljúga á WTC og Pentagon. Þessari tókst það ekki og Paul Greengrass setur atburðarrásina þannig fram að mér finnst þetta líkleg skýring. Af hverju brotlenti vélin? Varla vegna vélarbilunar. Paul Greengrass veit ekki nákvæmlega hvað gerðist um borð en hefur einhverjar heimildar frá aðstandendum myndarinnar sem gátu hringt heim úr vélinni og kvatt ástvini sína. Hann verður að geta í eyðurnar en mér finnst myndin mjög raunveruleg og tel líklegt að þetta hafi gerst.
Það er engin hetjubragur á myndinni, fólkið um borð vissi að það myndi deyja ef það myndi ekki grípa í taumana. Þetta var venjulegt fólk með enga karatehæfileika, það var enginn Sylvester Stallone um borð í þessu flugi. Allir sýndu sjálfsbjargarviðleitni en því miður tókst þeim ekki ætlunarverk sitt. Það má þó taka niður fólkinu um borð að hryðjuverkarmönnunum tókst ekki takmark sitt og það á að virða. Fleiri fólk hefði látist þann dag hefðu hryðjuverkamönnunum tekist áætlunarverk sitt.
United 93 er ekki afþreyingarmynd. Þetta er alvöruþrungin mynd um raunverulega atburði. Þú ferð ekki brosandi út úr bíóinu heldur áttu eftir að verða eins og ég …. rétt eins og maður var 11. septbemer …. DOFINN.
Myndin endar þegar myndavélin snýst í hringi á leið til jarðar. Ég hugsaði: “Upp með vélina, upp með helvítis vélina!!!” Þrátt fyrir að ég vissi hvað væri að gerast vonaðist ég að það myndi ekki gerast en maður getur ekki flúið það sem þegar hefur gerst.
9/10. Mæli sterklega með United 93 þegar hún kemur í bíó á Íslandi.
Lífið gengur út á að vera númer 1, ekki númer 2.